Breytt kosningakerfi

Kristinn Már Ársælsson
  • Hagsmunaaðilar: Lýðræðisfélagið Alda
  • Skráð: 29.04.2011 15:25

Ágæta stjórnlagaráð.

Meðfylgjandi eru tillögur Lýðræðisfélagsins Öldu að breytingum á stjórnarskránni. Félagið óskar þess að tillögur félagsins fái efnislega meðferð ráðsins. Tillögurnar voru unnar af félagsmönnum á opnum fundum (allir fundir félagsins eru opnir) á síðastliðnum mánuðum. Starfinu stýrðu Íris Ellenberger og undirritaður. Óski ráðið frekari upplýsinga eða skýringa á tillögum félagsins eru félagsmenn tilbúnir til þess að veita þær með glöðu geði.

Nánari upplýsingar um félagið má finna á www.lydraedi.wordpress.com, m.a. um stefnu þess, starfsemi og stjórn.

Fyrir hönd Lýðræðisfélagsins Öldu,
Kristinn Már Ársælsson
stjórnarmaður

[Hjá Stjórnlagaráði hefur tillögum þessum verið skipt upp í 12 erindi, sem birtast sjálfstætt á vef ráðsins. Eitt þeirra fer hér á eftir.]

Kosningakerfi

Á Alþingi eiga sæti 42 þjóðkjörnir þingmenn og 21 sem valdir eru með slembivali úr röðum allra íslenskra ríkisborgara á aldrinum 18-70 ára. Þjóðkjörnir þingmenn eru kosnir leynilegri hlutbundinni kosningu. Helmingur þeirra skal valinn með persónukjöri og aðrir með listakosningu. Kjósandi getur valið frambjóðendur af mismunandi listum. Slembival fer fram þegar úrslit kosninga liggja fyrir. Aðeins má muna einum á fjölda þingmanna af hvoru kyni, af listakosningu, persónukjöri og af slembivalsfulltrúum. Allir þingmenn eru kjörnir til 4 ára.

Greinargerð

Jafnrétti er forsenda lýðræðis og mikilvægt að sem flestir hópar komi að borðinu. Því þykir Lýðræðisfélaginu Öldu mikilvægt að, til að byrja með, að kynjaskipting þingmanna endurspegli kynjahlutföll meðal landsmanna allra. Því leggur félagið til að aðeins megi muna einum á fjölda þingmanna af hvoru kyni, af listakosningu, persónukjöri og af slembivalsfulltrúum. Einnig er æskilegt að leitað sé leiða til að tryggja þátttöku annarra minnihluta- og jaðarhópa, t.d. hinsegin fólks, fólks með skerðingar og láglaunafólk svo dæmi séu tekin. Rannsóknir sýna að ýmsir hópar samfélagsins hafa hlutfallslega mun færri málsvara við opinbera ákvarðanatöku. Nauðsynlegt er í lýðræðisríki að gæta þess að allir hópar samfélagsins eigi beinan þátt í ákvarðanatöku. Því skal ríkisvaldinu skylt að móta reglur um kjör þingmanna sem virða réttindi einstaklinga með kynvitund sem fellur ekki að hefðbundinni tvíhyggju í hugsun um kyn.

Hér er mælt með að Alþingi starfi í einni deild. Einnig kæmi til greina að það starfaði í tveimur deildum. Í neðri deild yrðu þjóðkjörnir þingmenn en efri deild eingöngu skipuð slembivals-fulltrúum. Rannsóknir hafa sýnt fram á að nokkur munur er á hagsmunatengslum og því hverju ráði ákvarðanatöku fulltrúa sem valdir eru með ólíkum hætti, s.s. flokkakjöri, persónukjöri og slembivali. Slembivalsfulltrúar líta að jafnaði á sig sem beina fulltrúa allra meðan flokkakjörnir eru fulltrúar sinna eigin kjósenda. Af þeim sökum kann að vera skynsamlegt að í efri deild sitji slembivalsfulltrúar sem gæti heildarhagsmuna. Með því er ekki verið að segja að ein tegund fulltrúa sé betri en önnur heldur að ólíkum aðferðum við val á fulltrúum fylgi kostir og gallar.

 

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.