Fyrirtæki, félög og stofnanir lúti lýðræðislegri stjórn þeirra sem hjá þeim starfa
Kristinn Már Ársælsson
- Hagsmunaaðilar: Lýðræðisfélagið Alda
- Skráð: 29.04.2011 15:25
Ágæta stjórnlagaráð.
Meðfylgjandi eru tillögur Lýðræðisfélagsins Öldu að breytingum á stjórnarskránni. Félagið óskar þess að tillögur félagsins fái efnislega meðferð ráðsins. Tillögurnar voru unnar af félagsmönnum á opnum fundum (allir fundir félagsins eru opnir) á síðastliðnum mánuðum. Starfinu stýrðu Íris Ellenberger og undirritaður. Óski ráðið frekari upplýsinga eða skýringa á tillögum félagsins eru félagsmenn tilbúnir til þess að veita þær með glöðu geði.
Nánari upplýsingar um félagið má finna á www.lydraedi.wordpress.com, m.a. um stefnu þess, starfsemi og stjórn.
Fyrir hönd Lýðræðisfélagsins Öldu,
Kristinn Már Ársælsson
stjórnarmaður
[Hjá Stjórnlagaráði hefur tillögum þessum verið skipt upp í 12 erindi, sem birtast sjálfstætt á vef ráðsins. Eitt þeirra fer hér á eftir.]
Fyrirtæki
Fyrirtæki, félög og stofnanir lúti lýðræðislegri stjórn þeirra sem hjá þeim starfa: Hver starfsmaður hafi eitt atkvæði. Starfsmenn reka fyrirtækið í sameiningu, ákvarða stefnu þess og skipulag.
Greinargerð
Stærstan hluta lífs okkar erum við undir einveldi eða fámennisstjórn í vinnunni en fyrirtæki og stofnanir lúta ekki leikreglum lýðræðis. Of margar ákvarðanir og of stór hluti stofnana samfélagsins er undanskilinn lýðræðislegu skipulagi. Því er rétt að færa þær ákvarðanir í hendur almennings með beinum hætti. Rannsóknir sýna að lýðræðisleg fyrirtæki eru a.m.k. jafn hagkvæm og kapitalísk fyrirtæki en koma betur út félagslega. Til þess að lýðræðisríki geti staðið undir nafni er nauðsynlegt að lýðræðisvæða efnahagslífið.
Dæmi um lýðræðisleg fyrirtæki eru Mondragón (http://www.mondragon-corporation.com/) sem er sjöunda stærsta fyrirtæki Spánar og tímaritið New Internationalist (http://www.newint.org/) sem hefur verið samvinnurekið frá árinu 1970.
Lýðræðisfélagið Alda leggur til að öll fyrirtæki með fleiri en fimm starfsmenn séu samvinnurekin þannig að allir starfsmenn komi að stjórn og ákvarðanatöku fyrirtækisins. Hver starfsmaður hafi eitt atkvæði óháð starfi og stöðu. Mögulegt er að fyrirtækjum með fimm starfsmenn eða færri sé stjórnað á annan hátt og er það gert til að auðvelda sprotafyrirtækjum að komast á legg. Mikilvægt er að girða fyrir að fyrirtæki fari á svig við þessa meginreglu með því að ráða fólk sem vinnur að kjarnastarfsemi fyrirtækisins sem verktaka eða nýta sér starfsmannaleigur með óeðlilegum hætti.
Nánari upplýsingar um samvinnufyrirtæki hjá International Co-operative Alliance: (http://www.ica.coop/coop/statistics.html)
Ummæli
Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.
Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.