Almenn kosning ráðherra
Kristinn Már Ársælsson
- Hagsmunaaðilar: Lýðræðisfélagið Alda
- Skráð: 29.04.2011 15:23
Ágæta stjórnlagaráð.
Meðfylgjandi eru tillögur Lýðræðisfélagsins Öldu að breytingum á stjórnarskránni. Félagið óskar þess að tillögur félagsins fái efnislega meðferð ráðsins. Tillögurnar voru unnar af félagsmönnum á opnum fundum (allir fundir félagsins eru opnir) á síðastliðnum mánuðum. Starfinu stýrðu Íris Ellenberger og undirritaður. Óski ráðið frekari upplýsinga eða skýringa á tillögum félagsins eru félagsmenn tilbúnir til þess að veita þær með glöðu geði.
Nánari upplýsingar um félagið má finna á www.lydraedi.wordpress.com, m.a. um stefnu þess, starfsemi og stjórn.
Fyrir hönd Lýðræðisfélagsins Öldu,
Kristinn Már Ársælsson
stjórnarmaður
[Hjá Stjórnlagaráði hefur tillögum þessum verið skipt upp í 12 erindi, sem birtast sjálfstætt á vef ráðsins. Eitt þeirra fer hér á eftir.]
Ráðherrar
Kosið er um ráðherra almennri kosningu samhliða kosningum til Alþingis. Kosið er milli fjögurra umsækjenda um hvert ráðherraembætti, tveggja kvenna og tveggja karla, sem valdir eru af nefnd. Í nefndinni sitja sjö kjörgengir borgarar valdir með slembivali. Ráðuneytum er skylt að vera nefndum innan handar með upplýsingar og aðstoð. Hlutfall ráðherra af hvoru kyni skal vera jafnt. Reynist kynjahlutfallið ójafnt skal það leiðrétt með því að varpa hlutkesti sem ákvarðar í hvaða ráðuneyti/um ráða skuli atkvæðahæsta umsækjandann af því kyni sem hallar á. Ekki er heimilt að vera í framboði til Alþingis og til ráðherraembættis samtímis. Ráðherrar hafa ekki frumkvæðisrétt á Alþingi.
Greinargerð
Samkvæmt núgildandi kerfi er framkvæmdarvaldið og löggjafarvaldið samofið. Almenningur fær ekkert að segja um skipun ráðherra. Þetta kerfi býður upp á að flokkshagsmunir séu settir framar hagsmunum almennings. Lýðræðisfélagið Alda leggur til róttækar breytingar á kosningakerfinu þar sem aðeins þriðjungur þingmanna er kosinn í nafni ákveðinna stjórnmálaflokka. Því til samræmis þarf að skipuleggja skipan ráðherra upp á nýtt með þrískiptingu ríkisvaldsins að leiðarljósi.
Farin er sú leið að láta kjósendur kjósa um ráðherra úr hópi tveggja kvenna og tveggja karla sem slembivalsnefnd með fulltrúum almennings hefur valið sem hæfustu einstaklinga úr hópi umsækjenda. Er það gert til að færa ákvarðanatökuna frekar til almennings þannig að hagsmunir almennings ráði ríkjum við ráðherraval, ekki flokkshagsmunir. Slembivalsnefndum er í sjálfs vald sett hvaða þættir eru hafðar að leiðarljósi við val á fjórum umsækjendum en séu gerðar sérstakar kröfur til menntunar og reynslu skal það koma fram þegar auglýst er eftir umsækjendum. Nefndarfundir skulu opnir öllum og öll gögn um störf nefndar sömuleiðis aðgengileg hverjum sem er og almenningi þannig mögulegt að eiga hlutdeild í valinu. Lýðræðisfélagið leggur þannig til að framkvæmdarvaldið sé aðskilið frá löggjafarvaldinu og því sé eðlilegt að ráðherrar hafi ekki frumkvæðisrétt á Alþingi.
Lýðræðisfélagið Alda telur jafnframt að jafnrétti sé forsenda lýðræðis og því skuli aldrei muna nema einum í kynjaskiptingu ráðherra. Til að gæta allrar sanngirni skal hlutkesti ráða hvaða ráðherrar þurfi að víkja sæti fyrir hæfasta einstaklingi af gagnstæðu kyni ef kynjaskipting ráðherra reynist skökk.
Ummæli
Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.
Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.