Reglur um hæfni þeirra sem sækja um dómarastöðu

Kristinn Már Ársælsson
  • Hagsmunaaðilar: Lýðræðisfélagið Alda
  • Skráð: 29.04.2011 15:21

Ágæta stjórnlagaráð.

Meðfylgjandi eru tillögur Lýðræðisfélagsins Öldu að breytingum á stjórnarskránni. Félagið óskar þess að tillögur félagsins fái efnislega meðferð ráðsins. Tillögurnar voru unnar af félagsmönnum á opnum fundum (allir fundir félagsins eru opnir) á síðastliðnum mánuðum. Starfinu stýrðu Íris Ellenberger og undirritaður. Óski ráðið frekari upplýsinga eða skýringa á tillögum félagsins eru félagsmenn tilbúnir til þess að veita þær með glöðu geði.

Nánari upplýsingar um félagið má finna á www.lydraedi.wordpress.com, m.a. um stefnu þess, starfsemi og stjórn.

Fyrir hönd Lýðræðisfélagsins Öldu,
Kristinn Már Ársælsson
stjórnarmaður

[Hjá Stjórnlagaráði hefur tillögum þessum verið skipt upp í 12 erindi, sem birtast sjálfstætt á vef ráðsins. Eitt þeirra fer hér á eftir.]

Dómendur

Settar skulu reglur um hæfni þeirra sem sækja um dómarastöðu. Slembivalsnefnd hæstaréttardómara metur hæfi umsækjenda skv. þeim reglum. Valið er á milli hæfra umsækjenda með hlutkesti. Aðeins má muna einum á milli kynja.

Greinargerð

Það er mikilvægt að þeir sem fara með dómsvaldið séu valdir með fagleg sjónarmið að leiðarljósi, án afskipta framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins. Því leggur Lýðræðisfélagið Alda til að slembivalsnefndum hæstaréttarlögmanna sé fengið það hlutverk að meta hæfi umsækjenda um stöðu hæstaréttardómara. Hlutkesti sker síðan úr um hver hlýtur dómaraembættið. Þannig er komið í veg fyrir óeðlilega íhlutun framkvæmdarvaldsins í skipan dómara. Kynjaskipting skal vera jöfn meðal dómara og aðeins má muna einum milli kynja. Því er í sumum tilfellum aðeins valið milli umsækjenda af öðru kyninu.

 

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.