Fyrirkomulag í sal. Kosning formanna og val á fulltrúum í nefndir.

Guðlaugur Gauti Jónsson
  • Skráð: 29.04.2011 11:21

Virðulega Stjórnlagaráð.

Það kemur mér á óvart að „þingsalurinn“ ykkar er þannig uppsettur að þingfulltrúarnir geta ekki eða varla séð framan í hver annan og að fjarlægðin milli þeirra er nokkurn veginn eins mikil og salurinn leyfir. Það kemur mér líka á óvart að starfsmönnum ráðsins (formanni, varaformanni) er stillt upp í pýramídaformi hver ofar öðrum og allir ofar hinum óbreytta ráðsmanni. Þetta form myndi væntanlega flokkast undir fyrirkomulag sem hefur það að markmiði að miðla upplýsingum og/eða fyrirmælum að mestu í eina átt frá pontu eða upphækkuðu biskupsborði til þegnanna. Þegnarnir mega hins vegar bera fram stuttar spurningar eða tjá skoðun sína á kurteislegan hátt gagnvart yfirvaldinu en eiga og mega alls ekki skiptast á skoðunum sín á milli. Enda leiðir slíkt iðulega til sjálfstæðra hugmynda eða óæskilegrar hópamyndunar til stuðnings róttækra skoðana eða mótþróa við yfirvaldið.

Spurning 1) Er þetta fyrirkomulag niðurstaða Stjórnlagaráðsins eftir umræðu eða var þetta fyrirkomulag ákvarðað á annan hátt?

Val á fulltrúum í nefndir en einkum þó kosning starfsmanna nefndanna (formaður, varaformaður) virðist hlíta reglum sem lýsa að mínu mati mikilli forræðishyggju. Í stað þess að hver nefnd kjósi sér starfsmenn (formann, fundarstjóra, verkstjóra, talsmann) þegar hún kemur saman eru nefndunum settir formenn áður en kosið er í þær. Í ykkar tilviki virðist mér sem formenn og varaformenn nefndanna starfi beint í umboði Stjórnlagaráðs og beri ábyrgð gagnvart því gegnum annars konar umboð en aðrir nefndarmenn. Hefði ekki verið eðlilegra að nefndirnar störfuðu sem órofin heild að meðtöldum starfsmönnum á ábyrgð Stjórnlagaráðs?

Spurning 2) Var þetta rætt sérstaklega og tekin meðvituð ákvörðun um að svona skyldi þetta vera og þá hvers vegna?

Í heild virðist mér að það sem ég hef séð af störfum ráðsins lýsi frekar forræðisskipulagi fárra „yfirmanna“ en lýðræðislegu jafningjaskipulagi.  T.d. skiptir umhverfi og uppsetning fundarstaða miklu máli varðandi árangur og starfsemi funda. Það er marg rannsakað. 

Með kveðju,

Guðl. Gauti Jónsson


Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.