Erindi til Stjórnlagaráðs varðandi ákvæði um að skerpa á eignar- og nýtingarrétti jarða

Margrét Guðmundsdóttir
  • Heimilisfang: Furugerði 6, 108 Reykjavík
  • Skráð: 28.04.2011 21:49

Erindi til Stjórnlagaráðs varðandi ákvæði um að skerpa á eignar- og nýtingarrétti jarða.

Sem landeigandi á Íslandi finnst mér gróflega á mér brotið hvað varðar minn eignar- og afnotarétt á landareign minni og óska eftir að stjórnarskráin taki á þessum málum föstum tökum.

Öll löggjöf sem kemur að landnýtingu einkennist af gömlum lifnaðarháttum til sveita þar sem sauðfjárbúskapur og mjólkurframleiðsla er í algleymingi. Mikil breyting hefur hins vegar átt sér stað á undanförnum árum og í dag er hægt að finna m.a. eftirtalinn rekstur til sveita: Kúabú, sauðfjárbú, minkabú, alifuglarækt, svínarækt, æðadúnsrækt, skógrækt, landgræðslu, ferðaþjónustu, menningarstarfsemi, skotveiði, laxveiði, virkjanir m.m. Eðlilegt er að þessar greinar njóti jafnræðis.

Ef litið er til heildarhagsmuna Íslendinga þá er nú í fyrsta sinn í sögu þjóðarinnar mögulega að komast á jafnvægi á gróðuraukningu og eyðingu þrátt fyrir þrotlaust starf bæði Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins að spyrna við eyðingu. Þá ber einnig að minnast á þúsundir manna sem eyða eigin verðmætum og frítíma í að rækta upp svæði oft í tengslum við sumarhúsabyggð.

Í dag njóta landeigendur engrar verndar gegn ágangi búfjár. Sauðfjárbændur eru ekki ábyrgir fyrir eigin rekstri. Búast má við að Vegagerðin sé að eyða um 160 milljónum á ári í nýjar girðingar og ekki minna en 80 milljónum króna í viðhald á ári. Eru því alls óskyldir aðilar og stofnanir að standa straum af kostnaði  vegna sauðfjárbúskapar, sem aldrei kemur fram í kostnaði við búgreinina og allt á kostnað skattgreiðenda. Þetta erindi snýst því um ábyrgð manna í atvinnurekstri, það er að framleiðsla búfjárafurða verði eðlilega skilgreind og m.a. í samræmi við nútíma viðmið og viðhorf í umhverfisrétti.

Sauðfjárbændur hvetja til stækkunar búa, en vandinn er sá að ekki eru margar jarðir á landinu sem geta borið stór sauðfjárbú með góðu móti. Enn fremur eru margir afréttir landsins ekki nýttir með sjálfbærum hætti, skv. nútíma skilgreiningu. Í mörgum tilfellum er rými til fjölgunar ekki fyrir hendi nema hægt sé að nýta land annarra. Sauðfé eru í eðli sínu eyðurmerkurdýr, sem gjörnýta gróðurþekju eins og víða sjást merki um á örfoka svæðum á Íslandi.

Í núverandi löggjöf og reglugerðum er mikið ósamræmi hvað varðar búfjárhald, bann við lausagöngu og fjallskilasamþykktum milli sýslna. Bara fjallskilakvöðin hlýtur að brjóta á núverandi stjórnarskrá, þar sem eigendur jarða eru skyldaðir til að smala þær og hreinsa fyrir fé, án þess að fá neitt endurgjald á móti og án þess að eigandi fjárins hafi heimild til að beita viðkomandi jörð.

Gæðastýring í landbúnaði gerði ráð fyrir að tekið væri tillit til sjálfbærrar landnýtingar. Hins vegar er löggjöfin mjög ófullnægjandi og bændur þurfa ekki að gefa upp það land sem þeir eru að beita oft í algjörri óþökk landeigenda og án heimildar þeirra, en bændur fá hins vegar viðbótargreiðslu frá ríkinu fyrir þátttöku sína í þessu gæðakerfi. Það eru mörg dæmi um að sauðfjárframleiðendur fái álagsgreiðslu gæðastýringar þótt framleiðslan fari fram í óþökk annnarra landeigenda, sem verða fyrir ágangi.

Ekkert stjórnvald er tilbúið til þess í dag að styðja við réttindabaráttu landeigenda, hvorki landbúnaðarráðuneytið, umhverfisráðuneytið, sveitarfélög né MAST sem hefur eftirlit með gæðastýringarkerfinu.

28. apríl, 2011

Margrét Guðmundsdóttir
Furugerði 6,
108 Reykjavík

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.