Eignarréttur land- og jarðareigenda

Lúðvíg Lárusson
  • Heimilisfang: Furugerði 6, 108 Reykjavík
  • Skráð: 28.04.2011 21:27

Efni: Að skerpa á eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar varðandi landeignir, bújarðir og afnot þeirra.

Lagt er til að Stjórnlagaráð setji skýr ákvæði í stjórnarskrá um eignarrétt landeigenda/jarðareigenda. Einnig þarf að skilgreina nýtingarrétt landeigenda og ábyrgðarskyldu þeirra. Í eignar- og nýtingarrétti felist að eignar- og ábyrgðaraðili ákveði með hvaða hætti jörð og landgæði jarðarinnar eru nýtt. Skilgreina þarf ábyrgðarhlut landeigenda gagnvart eigin starfsemi og að virða eignarrétt annarra landeigenda á jörðum þeirra. 

Forsendur:

  • Eignarréttur, nýtingarréttur og ábyrgðarskylda sé samtengd 
  • Nýtingarréttur landeigenda á jörðum sé allur þeirra nema lög kveði á um annað, sbr. auðlindir á jörðum sem eru skilgreind sem eign ríkisins, skipulagsákvæði o.fl.
  • Engin lög hindra lausafjárgöngu búfjár á jörðum annarra og hefð gerir ráð fyrir að hún sé heimiluð þrátt fyrir að vera í algerri andstöðu við nútíma búhætti í hinum vestræna heimi. Dæmi um þetta er hvernig sauðfjárbændur nýta gróðurþekju og skógarbeit á jörðum annarra til eigin atvinnustarfsemi, þar á meðal skógarbænda. Þeir verða fyrir miklum búsifjum með atvinnustarfsemi sína og engin lög vernda þolendur fyrir ágangi búsmala né eru viðeigandi stofnanir tilbúnar að hlutast til um þetta ágreiningsefni.
  • Nýtingarréttur landgæða jarða; skilgreina þarf hugtakið og festa í eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar hver megi nýta landgæði hverrar jarðar. Gróður landsins hlýtur að vera hluti af landgæðum og þar með hluti af eignarrétti landeigenda. 
  • Afmarka þarf fjallskilaskyldu við búfjáreigendur sjálfa sem hluta af atvinnustarfsemi þeirra en verja aðra landeigendur frá þeirri siðlausu kvöð að vera skyldaðir til starfa í atvinnustarfsemi annarra án endurgjalds. 

 

Greinargerð:

Með breyttum atvinnuháttum og landnýtingu í dreifbýli líður þróun atvinnuvega fyrir of einfalda lagasetningu og regluverk sem byggir á gömlum hefðum. Dæmi um þetta er gömul skilgreining á fé sbr. fé=fjármagn=sauðfé og vanþóknun á sauðaþjófum í menningunni á sama tíma liggja margföld verðmæti í gróðurþekju landsins, sem er nýtt og nauðbeitt þar sem einingin stingandi strá, sem hluti af allri gróðurþekjunni, er ekki metið til neinna verðmæta. Í reynd gengur sauðfé sjálfala um öll ógirt svæði landsins og nýtir sér landgæði annarra stórlega. Skógarbændur lenda að jafnaði í miklum búsifjum af sauðfjárbeit. Hér er það skilgreiningaratriði hvort nytjaskógur skógarbænda sé „bústofn“ til jafns við búsmala og ætti því að vera jafn friðhelgur og sauðkindin og njóta jafn mikillar verndar fyrir lögum og ákvæðum stjórnarskrárinnar. Næsti þáttur er eignar- og nýtingarréttur gróðurþekju á landareign, sem verður að vera friðhelgur réttur eiganda. Það er ótækt að sauðfjárbændur geti nýtt í skjóli laga og lagleysu, eignir annarra fyrir eigin atvinnustarfsemi og á kostnað þeirra sem t.d. stunda landgræðslu og skógrækt. Það er siðlaust og brot á jafnræðisreglunni að ein atvinnustarfsemi geti þvingað rekstrarkostnað sinn á aðrar atvinnugreinar eins og skógrækt, sbr. að skógarbændur þurfa að girða sig inni, með ærnum tilkostnaði, til að verjast ágangi sauðfjár annarra. Hér er ljóst hvorum megin ábyrgðin á að vera þar sem önnur atvinnugreinin veldur hinni ærnum skaða. Hér má nefna að Landgræðslufélag Skógarstrandar er að leggja út í um það bil 30 milljón króna girðingarkostnað til að verjast sauðfé af nærliggjandi jörðum og sveitarfélagi. Samlíkingin væri að skógarbóndi með bændagistingu felldi fé annarra á sínu landi til að geta boðið gestum sínum upp á nýslátrað lambakjöt í kvöldverð sem lið í eigin atvinnustarfsemi.  

Reykjavík, 28.04.11

Lúðvíg Lárusson, skógarbóndi

 

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.