Friðar- og afvopnunarmál
Samtök hernaðarandstæðinga
- Hagsmunaaðilar: Samtök hernaðarandstæðinga
- Skráð: 28.04.2011 13:33
Kæri stjórnlagaráðsfulltrúi.
Vinna við endurskoðun stjórnarskrárinnar er ábyrgðarmikið starf. Að mörgu ber að hyggja og viðfangsefnin eru mörg. Meðal þeirra málefna sem bent hefur verið á að brýnt sé að huga að við stjórnarskrárvinnuna eru friðar- og afvopnunarmál.
Samtök hernaðarandstæðinga hafa lengi barist fyrir því að þessi málefni væru tekin upp í stjórnarskrá og lögðu m.a. fram tillögur þessa efnis til stjórnarskrárnefndar fyrir fáeinum árum. Þar var hvatt til þess að:
i) Tiltekið yrði í stjórnarskrá að Ísland sé herlaust land og herskyldu megi ekki í lög leiða.
ii) Friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum yrði áréttuð (sbr. ákvæði m.a. í japönsku stjórnarskránni).
iii) Að tekið yrði fram að Ísland gæti ekki staðið að því að farið væri með ófriði á hendur öðrum þjóðum – en til vara að ákveðnar reglur yrðu settar um hvernig staðið skyldi að slíkum ákvörðunum. Reynsla síðustu ára sýnir enn frekar fram á mikilvægi þessa.
Við í Samtökum hernaðarandstæðinga höfum mikinn áhuga á að fá að hitta sem flesta fulltrúa Stjórnlagaráðs á komandi vikum, til að ræða þessi stefnumál og tryggja framgang þeirra við löngu tímabæra endurskoðun stjórnarskrárinnar.
Til að byrja með, viljum við hins vegar bjóða þér á hinn mánaðarlega fjáröflunarmálsverð Friðarhúss, sem haldinn verður nk. föstudagskvöld (29. apríl) í húsnæði SHA að Njálsgötu 87. Borðhald hefst kl. 19, en kokkur að þessu sinni verður Björk Vilhelmsdóttir borgarfulltrúi. Nánari upplýsingar um matseðil má finna á heimasíðu samtakanna, www.fridur.is.
Með vinsemd og virðingu,
Samtök hernaðarandstæðinga
Ummæli
Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.
Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.