Kosningar, forsetakjör, kvóti, hagstjórn og trúmál

Ólafur S. Björnsson
  • Heimilisfang: Mánabraut 18, 200 Kópavogi
  • Skráð: 26.04.2011 08:33

Ágætu lýðfulltrúar,

Takk fyrir þetta tækifæri til að koma á framfæri nokkrum atriðum sem mér finnst að þurfi sérstaklega að taka tillit til við gerð hinnar nýju stjórnarskrár.
Einföldun og gagnorðun er afar æskileg; er t.d. ekki mögulegt að skilgreina hlutverk forsetans í færri en 27 greinum eins og nú er?

Kosningar til Alþingis, löggjafarþings, fari fram í 17 kjördilkum og kosnir 3 þingmenn fyrir hvern dilk, samtals 51. Kjörstjórn í hverjum kjördilk stillir upp lista/kjörseðli með nöfnum allt að 9 frambjóðenda sem lagt hafa fram skrifleg meðmæli a.m.k. 1.000 kjósenda í viðkomandi dilk. Hverjum kjósanda er aðeins heimilt að mæla með einum frambjóðanda.

Kjósendum verði skipt í kjördilka eftir stafrófsröð eða kennitölu samkvæmt þjóðskrá, um 5,9% kjósenda eða nú um 15000 í hvern dilk. (Þetta er æskilegri skipting heldur en landfræðileg eins og nú er, vegna hrossakaupa og kjördæmapots, en vel möguleg sbr. skiptingu kjósenda í kjördeildir í þéttbýli). Kjósendur krossa við þá þrjá frambjóðendur á kjörseðlinum sem þeir vilja helst gefa atkvæði sitt og hljóta þeir þrír kosningu sem flesta krossa fá; sá sem flesta fær verður fyrsti þingmaður dilksins o.s.frv.
Kjósendum verði skylt að nýta atkvæðisrétt sinn að viðlagðri sviptingu kjörgengis og kosningaréttar og útstrikanir verða ekki mögulegar!

Forseti og varaforseti verði þjóðkjörnir. Forsetinn velur og skipar ráðherra (ráðuneytisstjóra) í ríkisstjórn með samþykki Alþingis. Ráðherrar sitji ekki á Alþingi. Samfelldur kjörtími forseta og þingmanna sé takmarkaður, t.d. við 12 ár.

Dregnar verði tennurnar úr stjórnmálaflokkunum með því að afnema ríkisframlög til þeirra og með leynilegum atkvæðagreiðslum á Alþingi; í samræmi við almennar leynilegar kosningar til Alþingis.

Afnema gjafakvótann vegna þess að vitlaust var gefið í upphafi. Allur kvóti verði leigður hæstbjóðendum með réttlátum skilmálum. Öllum afla úr fiskveiðilögsögunni verði landað innanlands undir opinberu eftirliti og veiðar og vinnsla aðskilin fjárhagslega, einnig um borð í frystitogurunum.

Hagstjórn er óréttlát með flotkrónu. Því skal binda gjaldmiðilinn t.d. við gull; hann á að vera mælikvarði á verðmæti eins og t.d. metri og kíló eru mælikvarðar á lengd og þyngd. Það gagnast ekki að teygja á málbandinu ef ummálið verður of mikið.

Frelsa Þjóðkirkjuna undan ríkisvaldinu.

Auk þess legg ég til að skilagjald verði sett á blaða- og auglýsingapappír!

Framanskráð er sérstaklega tileinkað nr. 9948 Illuga Jökulssyni og nr. 3876 Lýð Árnasyni sem einir eru í Stjórnlagaráði af þeim sem ég valdi til Stjórnlagaþings.

Mbk, Ól.S.Bj.

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.