Hugmynd að kjördæmaskipan, kosningafyrirkomulagi og þingmannafjölda
Páll Bragason
- Heimilisfang: Strandvegi 2 210 Garðabæ
- Skráð: 19.04.2011 12:25
- Fjöldi þingmanna sé breytilegur og taki mið af fólksfjölda í landinu á hverjum tíma. Fyrir hverja 10.000 íbúa, eða því sem næst, sé einn þingmaður.
- Helmingur þingmanna skal kjörinn listakjöri, þar sem landið allt er eitt kjördæmi.
- Helmingur þingmanna skal kjörinn beinni persónulegri kosningu. Landinu verði skipt upp í einmenningskjördæmi, með sem næst 20.000 íbúum hverju. Mörk kjördæma skulu eftir föngum miðast við mörk sveitarfélaga eða hverfamörk í stærri bæjarfélögum. Fái enginn frambjóðandi a.m.k. 50% greiddra atkvæða, skal kjósa að nýju um þá tvo, sem flest atkvæði fá.
- Fjöldi þingmanna og mörk einmenningskjördæma skal reiknaður út og kynntur árlega m.v. íbúafjölda 1. desember næst liðinn, og gildir fyrir það almanaksár. Standi heildarfjöldi þingmanna á stöku, skal fjöldi listakjörinna þingmanna vera einum fleiri.
- Þingmaður einmenningskjördæmis er persónukjörinn og hefur ekki varamann. Falli persónukjörinn þingmaður frá, segi af sér, eða verði af einhverjum orsökum ófær um að gegna þingmennsku, skal halda aukakosningar í því kjördæmi.
- Auð atkvæði skulu teljast gild atkvæði. Fái „Auður“ til þess kjörfylgi, skal þingsæti hennar vera autt.
- Þingmenn mega ekki gegna ráðherraembætti, sinna öðru launuðu starfi, eða gegna forystu- eða ábyrgðarstöðu, kjörinni eða skipaðri, í þágu hagsmunasamtaka.
- Þingmaður, sem tekur að sér ráðherraembætti, afsalar sér þingsæti sínu, og á ekki afturkvæmt á þing á því sama kjörtímabili. Sé um persónukjörinn þingmann að ræða, skal fara fram aukakosning, ella tekur næsti varamaður á lista sæti hans.
Rök:
Með þessu fyrirkomulagi nást eftirfarandi meginmarkmið:
a. Atkvæðisréttur verður jafn um allt land
b. Landið verður eitt listakjördæmi
c. Helmingur þingmanna verður persónukjörinn
d. Landshlutar fá áfram fulltrúa á þingi
e. „Óánægðir“ kjósendur fá raunverulegan valkost, og hafa þá ríkari ástæðu en ella, til
að mæta á kjörstað. Góð kosningaþátttaka er mikilvæg lýðræðinu
f. Skerpt er á skilum milli framkvæmdar- og löggjafarvalds
g. Sjálfstæði löggjafarvaldsins er aukið; dregið er úr flokksræði
Hugleiðingar:
Sennilega er 8. t.l. umdeilanlegastur. Hann er viðleitni til að skerpa frekar skil milli
löggjafar- og framkvæmdarvalds, þótt áfram verði þingbundin ríkisstjórn, og
núverandi kerfi sé ekki beinlínis kastað fyrir róða. Stuðlað er að því, að ráðherrar komi
í auknum mæli úr röðum annarra en þingmanna. Forystumenn stjórnmálaflokka
munu að líkindum leitast við að skipa efstu sæti landslista, enda er þingsæti flokks
ekki í hættu, þótt listakjörinn þingmaður verði ráðherra. Flokkar munu væntanlega
tefla fram hugsanlegum ráðherraefnum, sem ekki eru í framboði til Alþingis.
Þá má hugsa sér að ganga lengra í að færa framkvæmdarvaldið frá löggjafarvaldinu, en
vera þó áfram með þingbundna ríkisstjórn, með því að forsætisráðherra sé beinlínis
kjörinn í upphafi þings eftir hverjar kosninar, og starfi síðan sjálfstætt. Skipun
ráðherra sé háð samþykki Alþingis, og þingið geti hvenær sem er sett
forsætisráðherra af, t.d. með vantraustssamþykkt. Þingrofsvald gæti færst t.d. til
forseta Alþingis.
Með núverandi íbúafjölda landsins yrðu þingmenn 32 talsins, þ.e. 16 listakjörnir og
16 persónukjörnir. Borið saman við ríkjandi fyrirkomulag, verður raunveruleg fækkun
á þingi um 20 manns, enda gert ráð fyrir, að ráðherrar sitji áfram þingfundi með
málfrelsi og tillögurétt.
Ummæli
Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.
Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.