Afnám ríkiskirkju og vernd lífsskoðana
Bjarni Jónsson
- Heimilisfang: Æsufelli 4
- Hagsmunaaðilar: Siðmennt
- Skráð: 18.04.2011 16:22
ERINDI SIÐMENNTAR:
Afnám ríkiskirkju og vernd lífsskoðana samkvæmt stjórnarskránni
Stjórn Siðmenntar óskar eftir því við fulltrúa stjórnlagaráðs að í lokatillögum þingsins verði 62. grein stjórnarskrárinnar endurskoðuð og sérstaða einnar kirkjudeildar, þeirri evangelísku-lútersku, afnumin. Með því næst trúfrelsi og stórt skref stigið til jafnræðis lífsskoðana hvort sem um er að ræða trúarlegra eða veraldlegra.
Einnig vill Siðmennt benda fulltrúum á að samkvæmt einum fremsta lögfræðing Íslendinga á sviði mannréttinda veitir stjórnarskráin fólki með aðra lífsskoðun en trúarlega ekki sömu vernd og fólki með trúarlega lífsskoðun. Óskar stjórn Siðmenntar eftir því að hugað verði að breytingum á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar.
RÖKSTUÐNINGUR FYRIR AÐSKILNAÐI RÍKIS OG KIRKJU:
Í lögum um stjórnlagaþing um endurskoðun stjórnarskrá lýðveldisins Íslands voru tíunduð nokkur atriði sem talin eiga að vera umræðuefni þingsins. Þau eru m.a. um forseta lýðveldisins, undirstöður stjórnskipunar, sjálfstæði dómsstóla, ákvæði um kosningar og lýðræðislega þátttöku almennings. Þó að tiltekin séu þessi málefni telur Siðmennt að öll stjórnarskráin sé til umræðu. Af þjóðfélagsumræðunni undanfarin ár er félagið ekki eitt um þessa skoðun.
Stjórn Siðmenntar telur að stjórnlagaráðið verði að ræða hvort rétt sé að hér verði áfram ríkiskirkja eða ekki. Í stjórnarskránni eru tvær greinar sem stangast hvor á við aðra og er augljóst misræmi á milli þeirra þar sem einu trúfélagi er veitt forréttindi umfram önnur á meðan hin tryggir trúfrelsi. Í 62. grein stendur eftirfarandi:
Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.
Hins vegar segir í 65. grein:
Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.
Innihald fyrri greinarinnar inniheldur að mismuna megi trúfélögum svo fremi að það sé aðeins þjóðkirkjan sem fái forréttindin. Slíkt er brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.
Stjórn Siðmenntar telur að stjórnarskrá Íslands eigi að tryggja frelsi einstaklinga og vernda rétt þeirra til að lifa samkvæmt þeim lífsskoðunum sem þeir sjálfir kjósa. Stjórnarskráin á þannig að vera hlutlaus, óháð trúarbrögðum og á um leið ekki að hygla ákveðnum lífsskoðunum umfram aðrar.
Í dómi Mannréttindadómstólsins í Strassborg í málinu Metropolitan Church of Bessarabia gegn Moldavíu frá 13. desember 2001 segir að það sé skylda ríkja að vera hlutlaus gagnvart mismunandi trúarbrögðum, trúarhópum og lífsskoðunum. Þarna er verið að dæma samkvæmt 9. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu en það ákvæði er um hugsana-, samvisku- og trúfrelsi.
Siðmennt lítur svo á að með starfi stjórnlagaráðs geti Íslendingar tekið mikilvægt skref í átt til raunverulegs trúfrelsis með því að samþykkja að skilja að ríki og kirkju. Það var hugsanlega hægt að finna sómasamleg rök fyrir sérstakri ríkiskirkju á þeim tíma sem Íslendingar settu sér fyrst stjórnarskrá. Hins vegar eru engin rök fyrir slíku fyrirkomulagi í nútíma þjóðfélagi sem byggir á trúfrelsi og mannréttindum. Nútíma ríki sem byggir á fjölhyggju og veraldarhyggju geta ekki samtímis haft ríkiskirkjufyrirkomulag. Öll ný-frjálsu ríki austur Evrópu við fall kommúnismans uppúr 1990 völdu að vera án ríkiskirkju.
Fyrirkomulag í Evrópu
Norðurlönd stefna í átt til trúfrelsis en í Svíþjóð hefur verið aðskilnaður ríkis og kirkju frá því fyrir aldamót og í Noregi er unnið að aðskilnaði á næstu árum. Spánn samþykkti með nýrri stjórnarskrá 1978 að ekki skyldi vera ríkiskirkja þó vissulega njóti kaþólska kirkjan mikilla styrkja umfram önnur trúar- og lífsskoðunarfélög. Frakkland, Ítalía, Þýskaland, Holland og Belgía hafa ekki ríkiskirkju. Að vísu er ýmiss stuðningur viðhafður við ákveðna kirkjudeild eða deildir eins og tíðkast t.d. í Þýskaland. Þróun í Evrópu í átt til veraldarhyggju hefur einnig leitt til þeirrar stöðu að trú og rekstur opinberra stofnanna s.s. skólakerfis hefur eða er að rofna.
Afstaða Íslendinga
Gerðar hafa verið skoðanakannanir nánast árlega frá árinu 1993 um afstöðu Íslendinga til sambands ríkis og kirkju. Ávallt hefur stuðningur meirihluta við aðskilnað verið á bilinu 60-65%, utan eins árs þar sem hann var rétt rúm 50%, þar til könnunin árið 2009 sýndi verulega fylgisaukningu upp í 74%. Svipuð niðurstaða varð síðan 2010 er stuðningur mældist 71%.
Athyglisvert er að einnig er ríkur stuðningur við aðskilnað meðal þeirra sem eru í þjóðkirkjunni (70% árið 2009).
RÖKSTUÐNINGUR VEGNA ÁKVÆÐIS UM VERND Í STJÓRNARSKRÁ:
Oddný Mjöll Arnardóttir, prófessor í lögum og sérfræðingur á sviði mannréttinda, samdi álit árið 2005 fyrir Siðmennt vegna höfnunar umsóknar félagsins um að öðlast jafnræði á við önnur lífsskoðunarfélög. Sama efni er reifað í grein Oddnýjar Trúfrelsi, sannfæringarfrelsi og jafnrétti í íslensku stjórnarskránni sem birt var í heiðursbók Guðrúnar Erlendsdóttur.
Í lok álits hennar til Siðmenntar segir Oddný um vernd stjórnarskrárinnar:
Vernd íslensku stjórnarskrárinnar er samkvæmt því í raun lakari en vernd mannréttindasáttmálanna og er beinlínis kveðið á um mismunandi meðferð trúarlegra lífsskoðana og annarra lífsskoðana í henni. Það er álit undirritaðrar að það vekji áleitnar spurningar um þörf á endurskoðun á 63. gr. stjórnarskrárinnar og hvort ekki sé rétt að svara kalli Sameinuðu þjóðanna um að ríki heims tryggi að stjórnskipun þeirra og lög veiti virka og jafna vernd hugsana-, samvisku-, trúar- og sannfæringarfrelsis.
Samkvæmt annari málsgrein 79. greinar stjórnarskrárinnar, ber Alþingi skylda til að senda breytingar eða niðurfellingu á 62. grein um þjóðkirkju til þjóðaratkvæðis. Ábyrgð Stjórnlagaráðs og síðar Alþingis er því ekki önnur en sú að setja þjóðkirkjugreinina undir dóm þjóðarinnar . Yrði greinin svo felld niður myndi Alþingi í kjölfarið stuðla að farsælli útfærslu aðskilnaðarins með hagsmunaaðilum.
Stjórn Siðmenntar óskar eftir því að eiga samræður við fulltrúa í stjórnalagaráði um efni þessa erindis.
Virðingarfyllst
F.h. Siðmenntar
Bjarni Jónsson
Greinagerð Oddnýjar Mjallar Arnardóttur:
http://www.sidmennt.is/archive/alitsgerd.pdf
Ummæli
Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.
Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.