Rányrkja og lausaganga búfjár

Herdís Þorvaldsdóttir f.v. formaður Lífs og lands
  • Skráð: 18.04.2011 16:19

 

Ég leyfi mér hér með að koma á framfæri áhyggjum mínum af brýnasta og mest aðkallandi vandamáli landsins; en það er stöðug gróður- og jarðvegseyðing. Stjórnarskrá Íslands hlýtur að byggja á þeim grunni, að landið okkar verði ekki örfoka og óbyggilegt.

Í stjórnarskránni í dag er ekki minnst einu orði á umgengni okkar við landið eða skuldbindingu okkar við komandi kynslóðir þó að landið hafi verið, og sé enn, nánast örfoka og gróðursnautt af okkar völdum.

Við erum þekkt fyrir að eiga það land í Evrópu, þar sem hnignun og eyðing gróðurs og  jarðvegs, af völdum búsetu, er mest. Það þarf að leita til norðurhluta Afríku til samjafnaðar. Nærri  2/3 hluti gróðurríkis Íslands er horfinn. Gróðurmoldin, dýrasta auðlind okkar, fýkur á haf út í tonnatali ár hvert. Stöðugt stækka manngerðu eyðimerkurnar og gróðurþekjan rýrnar.  

Þetta er staðreynd, sem er stofnunum ríkisins velkunnug, án þess að þær séu að bregðast rétt við. Á meðan ekki er tekist á við grunnvandamálið, sem er rányrkja og ofbeit vegna stjórnlausrar lausagöngu búfjár, verður lítill sem enginn ávinningur af uppgræðslunni. Landgræðslan er að vinna bakkabræðravinnu með bitvarginn stöðugt á hælunum. Þetta ráðslag hefur viðgengist í 104 ár og sjálfur landgræðslustjóri segist ekki geta fullyrt að vinnist meira en eyðist. Aðferð Landgræðslunnar við þessar aðstæður er álíka viturleg og verið væri að eyða stórfé í að prjóna fokdýra peysu, sem stöðugt væri rakið meira neðan af en vinnst – hvar endar það?  Hvað munu afkomendur okkar halda um okkur? Munu þeir ekki segja að við hljótum að hafa verið blind, skammsýn og föst í viðjum vanans?

Nú heiti ég á þig, góði stjórnlagaráðsmaður, að þú beitir þér fyrir því að í stjórnarskrána verði sett ákvæði um það að enginn megi skaða gróðurríki landsins með starfsemi sinni og komi sekt fyrir ef útaf er brugðið. Búpeningur sé hafður í girðingum á ábyrgð eigenda sinna svo komið sé í veg fyrir frekari óheillaþróun. 

Með vinsemd og virðingu,

Herdís Þorvaldsdóttir, leikkona og f.v. formaður Lífs og lands

 

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.