Breytingatillaga #79

Við 30. grein. Náttúra Íslands og umhverfi

Flytjendur:
  • Ari Teitsson
BreytingartillagaÁkvæði eftir breytinguÁkvæði í frumvarpsdrögum

Í lokamálsgrein 30. greinar verði bætt inn og hagsmunum landeigenda.

30. gr. Náttúra Íslands og umhverfi
Náttúra Íslands er undirstaða lífs í landinu. Öllum ber að virða hana og vernda.
Öllum skal með lögum tryggður réttur á heilnæmu umhverfi, fersku vatni, ómenguðu andrúmslofti og óspilltri náttúru. Í því felst að fjölbreytni lífs og lands sé viðhaldið og náttúruminjar, ósnortin víðerni, gróður og jarðvegur njóti verndar. Fyrri spjöll skulu bætt eftir föngum.
Nýtingu náttúrugæða skal haga þannig að þau skerðist sem minnst til langframa og réttur náttúrunnar og komandi kynslóða sé virtur.
Með lögum skal tryggja rétt almennings til að fara um landið í lögmætum tilgangi með virðingu fyrir náttúru , umhverfi og hagsmunum landeigenda.

Náttúra Íslands er undirstaða lífs í landinu. Öllum ber að virða hana og vernda.

Öllum skal með lögum tryggður réttur á heilnæmu umhverfi, fersku vatni, ómenguðu andrúmslofti og óspilltri náttúru. Í því felst að fjölbreytni lífs og lands sé viðhaldið og náttúruminjar, ósnortin víðerni, gróður og jarðvegur njóti verndar. Fyrri spjöll skulu bætt eftir föngum.

Nýtingu náttúrugæða skal haga þannig að þau skerðist sem minnst til langframa og réttur náttúrunnar og komandi kynslóða sé virtur.

Með lögum skal tryggja rétt almennings til að fara um landið í lögmætum tilgangi með virðingu fyrir náttúru og umhverfi.

Skýringar:

Þótt nauðsynlegt sé að almenningur eigi möguleika á að njóta náttúru landsins og útivistar verður ekki fram hjá því litið að stór hluti láglendis er háður einkaeignarrétti sem margvíslegar nytjar fylgja, má þar nefna skógrækt, grasnytjar til sláttar og beitar, margvíslegar veiðinytjar og fl.
För almennings um landið þarf ekki að spilla þessum nytjum ef þær eru hafðar í huga við ákvörðun ferðatilhögunar, en geta valdið tjóni og vandræðum ef ekki er tekið tillit til þeirra.
Því er hér lagt til að hagsmunir landeigenda og annarra rétthafa séu virtir til jafns við virðingu fyrir náttúru og umhverfi.
Í lögum nr. 44/1999 um náttúruvernd er í 12, 13 og 14 gr.fjallað um þessi efni, jafnt réttindi og skyldur og þar segir svo:

III. kafli. Almannaréttur, umgengni og útivist.
12. gr. Réttindi og skyldur almennings.
Almenningi er heimil för um landið og dvöl þar í lögmætum tilgangi.
Öllum er skylt að ganga vel um náttúru landsins og sýna ýtrustu varúð þannig að henni verði ekki spillt.
13. gr. För um landið og umgengni.
Á ferð sinni um landið skulu menn sýna landeiganda og öðrum rétthöfum lands fulla tillitssemi, virða hagsmuni þeirra, m.a. vegna búpenings og ræktunar, þar á meðal skógræktar og landgræðslu, og fylgja leiðbeiningum þeirra og fyrirmælum varðandi ferð og umgengni um landið.
Fara skal eftir merktum leiðum og skipulögðum stígum og vegum eftir því sem auðið er, hlífa girðingum, fara um hlið eða göngustiga þegar þess er kostur og ef farið er um lokuð hlið skal loka þeim eftir að gengið hefur verið um þau. Sérstök aðgát skal höfð í nánd við búsmala, selalátur, varplönd fugla, veiðisvæði og veiðistaði.
För manna um landið er ekki á ábyrgð eiganda lands eða rétthafa að öðru leyti en því sem leiðir af ákvæðum annarra laga og almennum skaðabótareglum.
14. gr. Umferð gangandi manna.
Mönnum er heimilt, án sérstaks leyfis landeiganda eða rétthafa, að fara gangandi, á skíðum, skautum og óvélknúnum sleðum eða á annan sambærilegan hátt um óræktað land og dveljast þar. Á eignarlandi í byggð er eiganda eða rétthafa þó heimilt að takmarka eða banna með merkingum við hlið og göngustiga umferð manna og dvöl á afgirtu óræktuðu landi.
För um ræktað land, sbr. [8. tölul. 3. gr.],1) og dvöl þar er háð samþykki eiganda þess eða rétthafa. Sama gildir um skógræktarsvæði í byggð sem ekki eru í eigu eða umsjá ríkis eða sveitarfélaga, önnur en náttúrulega birkiskóga og kjarr. Sé skógrækt styrkt með opinberu fé skal kveða svo á í samningi við eiganda eða rétthafa lands að hann tryggi almenningi með reglum sem hann setur frjálsa för um landið eftir að fyrstu stigum skógræktar er lokið.
1)L. 140/2001