Breytingatillaga #48

Við 94. grein. Skipun embættismanna

Flytjendur:
  • Örn Bárður Jónsson
  • Þórhildur Þorleifsdóttir
  • Þorvaldur Gylfason
  • Ómar Þorfinnur Ragnarsson
  • Lýður Árnason
  • Katrín Oddsdóttir
  • Guðmundur Gunnarsson
  • Gísli Tryggvason
  • Freyja Haraldsdóttir
  • Erlingur Sigurðarson
  • Dögg Harðardóttir
  • Arnfríður Guðmundsdóttir
  • Andrés Magnússon
BreytingartillagaÁkvæði eftir breytinguÁkvæði í frumvarpsdrögum

94. grein orðist svo:

94. grein - Skipun embættismanna

Með lögum skal tryggt að hæfni og málefnaleg sjónarmið ráði við veitingu embætta.

Ráðherra skipar í embætti dómara og ríkissaksóknara að undangengnu hæfnismati.

Ráðherra skipar í önnur æðstu embætti að fenginni umsögn stjórnsýslunefndar. Forseti Íslands skipar formann nefndarinnar. Með lögum skal kveðið á um skipan annarra fulltrúa í nefndina. Nefndarmenn skulu búa að fjölbreyttri reynslu. Stjórnsýslunefndin aflar hæfnismats á umsækjendum, innan lands og utan eftir atvikum, samkvæmt nánari fyrirmælum í lögum þar sem kveðið skal á um skipunartíma nefndarmanna.

Forseti Íslands staðfestir skipun í embætti með undirskrift sinni. Synji forseti staðfestingar þurfa 2/3 hlutar Alþingismanna að samþykkja skipunina til að hún taki gildi.

Í lögum má kveða á um að í tiltekin embætti megi einungis skipa íslenska ríkisborgara. Krefja má embættismann um eiðstaf að stjórnarskránni.

 

Með lögum skal tryggt að hæfni og málefnaleg sjónarmið ráði við veitingu embætta á vegum ríkisins.

Ráðherra skipar í embætti dómara og ríkissaksóknara að undangengnu hæfnismati.

Ráðherra skipar í önnur æðstu embætti að fenginni umsögn stjórnsýslunefndar. Forseti Íslands skipar formann nefndarinnar. Með lögum skal kveðið á um skipan annarra fulltrúa í nefndina. Nefndarmenn skulu búa að fjölbreyttri reynslu. Stjórnsýslunefndin aflar hæfnismats á umsækjendum, innan lands og utan eftir atvikum, samkvæmt nánari fyrirmælum í lögum þar sem kveðið skal á um skipunartíma nefndarmanna.

Forseti Íslands staðfestir skipun í embætti með undirskrift sinni. Synji forseti staðfestingar þurfa 2/3 hlutar Alþingismanna að samþykkja skipunina til að hún taki gildi.

Í lögum má kveða á um að í tiltekin embætti megi einungis skipa íslenska ríkisborgara. Krefja má embættismann um eiðstaf að stjórnarskránni.

 

Ráðherrar og önnur stjórnvöld veita þau embætti er lög mæla.

Með lögum skal koma á skipan sem tryggir að hæfni og málefnaleg sjónarmið ráði við skipun manna í embætti.

Þegar ráðherra skipar í embætti dómara og ríkissaksóknara skal skipun borin undir forseta Íslands til staðfestingar. Synji forseti skipun staðfestingar þarf Alþingi að samþykkja skipunina með 2/3 atkvæða til að hún taki gildi. Ákveða má með lögum að skipun í önnur embætti skuli fara fram með sama hætti.

Í lögum má kveða á um að í tiltekin embætti megi einungis skipa íslenska ríkisborgara. Krefja má embættismann um eiðstaf að stjórnarskránni.

Skýringar:

Þessari breytingartillögu við 94. grein frumvarpsins er ætlað að sinna ákalli Rannsóknarnefndar Alþingis (RNA), en þar segir orðrétt (8. bindi):

  • Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn brugðust meginhlutverkum sínum í aðdraganda bankahrunsins. Eftirliti með einstökum fjármálastofnunum var verulega áfátt (bls. 131)
  • Efla þarf fagmennsku og stórbæta vinnubrögð innan stjórnsýslunnar ... Stjórnmálamenn og embættismenn þurfa að setja sér siðareglur ... Efla þarf þá hugsun meðal stjórnmálamanna að starf þeirra er öðru fremur þjónusta við almannaheill. ... Takmarka þarf pólitískar ráðningar innan stjórnsýslunnar. Skerpa þarf ákvæði um ráðherraábyrgð ... (bls. 152)
  • Íslensk stjórnmálamenning er vanþroskuð og einkennist af miklu valdi ráðherra og oddvita stjórnarflokkanna. ... Skortur á fagmennsku og vantrú á fræðilegum röksemdum er mein í íslenskum stjórnmálum. (bls. 184)
  • Leita þarf leiða til þess að styrkja siðferðisvitund stjórnmálamanna ... Draga þarf úr ráðherraræði ... Taka þarf stjórnarskrána til skipulegrar endurskoðunar í því skyni að treysta grundvallaratriði lýðræðissamfélagsins og skýra betur meginskyldur, ábyrgð og hlutverk valdhafa. (bls. 184)

Breytingartillögunni er að gefnu tilefni ætlað að heimfæra skilyrðin fyrir skipun dómara í embætti samkvæmt frumvarpinu upp á aðra æðstu embættismenn ríkisins, en þó þannig að virt sé að önnur sjónarmið kunni að gilda um hæfnismat á umsækjendum um dómaraembætti en um önnur æðstu embætti utan dómskerfisins.

Fyrsta málsgreinin kveður á um að „hæfni og málefnaleg sjónarmið ráði við skipun manna í embætti" líkt og nú segir í frumvarpinu, og á það við um öll embætti, dómara jafnt og aðra. Önnur málsgrein fjallar um dómara og segir þar: „Ráðherra skipar í embætti dómara og ríkissaksóknara að undangengnu hæfnismati." Hér er ekki tilgreint hvernig slíkt hæfnismat fer fram, heldur einungis að það skuli fara fram.

Þriðja málsgrein fjallar um skipun í „önnur æðstu embætti að fenginni umsögn stjórnsýslunefndar". Hér er kveðið á um að hæfnismat skuli fara fram og einnig hvernig það skuli fara fram. Um það segir svo í ákvæðinu: „Forseti Íslands skipar formann nefndarinnar. Með lögum skal kveðið á um skipan annarra fulltrúa í nefndina. Nefndarmenn skulu búa að fjölbreyttri reynslu. Stjórnsýslunefndin aflar hæfnismats á umsækjendum, innan lands og utan eftir atvikum, samkvæmt nánari fyrirmælum í lögum þar sem kveðið skal á um skipunartíma nefndarmanna." Með stjórnsýslunefnd er átt við það sem enskumælandi þjóðir kalla Civil Service Commission. Hlutverk nefndarinnar er að tryggja að faglegt mat þar tilbærra sérfræðinga sé lagt á allar umsóknir um æðstu embætti á vegum ríkisins og séu erlendir sérfræðingar kallaðir til eftir atvikum.

Fjórða málsgreinin þess efnis, að skipun í embætti þarfnist staðfestingar forseta Íslands eða 2/3 hluta Alþingismanna til að hún taki gildi, er efnislega samhljóða þriðju málsgrein frumvarpsins og tekur nú jafnt til skipunar í dómarastöður og önnur æðstu embætti. Fimmta og síðasta málsgreinin er samhljóða fjórðu og síðustu málsgrein ákvæðisins í frumvarpinu.

Þessi breytingartillaga gengur að tvennu leyti lengra en 94. grein frumvarpsins. Í fyrsta lagi eru hér gerðar hliðstæðar kröfur um þau skilyrði, sem skipun í æðstu embætti á vegum ríkisins þarf að uppfylla, hvort sem um er að ræða dómarastöður eða önnur æðstu embætti. Í stað heimildarákvæðis í frumvarpinu („Ákveða má með lögum að skipun í önnur embætti skuli fara fram með sama hætti") er kveðið á um að skylt sé að forseti Íslands eða 2/3 hlutar Alþingismanna þurfi að staðfesta skipun til að hún taki gildi. Í annan stað er hér kveðið á um hvers konar skipan - það er hæfnismat á vegum stjórnsýslunefndar, þar sem forseti Íslands skipar formann - skuli höfð á hæfnismati umsækjenda um æðstu embætti á vegum ríkisins önnur en dómaraembætti. Fyrirmyndin er sótt meðal annars í það vinnulag sem hefur tíðkast við skipun prófessora í háskólum landsins um alllangt skeið. Stjórnsýslunefndinni er ekki ætlað það hlutverk að annast hæfnismat sjálf heldur að hafa yfirumsjón með því að rétt sé staðið að ráðningaferlum, skipa hæfnisnefndir, kalla eftir áliti hæfustu einstaklinga og að álits sé leitað innan, eftir atvikum, lands og utan. Frumvarpið gengur skemmra að þessu leyti, en þar segir aðeins: „Með lögum skal koma á skipan sem tryggir að hæfni og málefnaleg sjónarmið ráði við skipun manna í embætti."

Breytingartillagan gengur að gefnu tilefni lengra en frumvarpið með því að herða á þeim kröfum sem gerðar eru til skipunar ekki aðeins í dómaraembætti heldur einnig í önnur æðstu embætti á vegum ríkisins. Enda segir í skýrslu RNA: „Efla þarf fagmennsku og stórbæta vinnubrögð innan stjórnsýslunnar". Pólitískur klíkuskapur hefur sett svip á margar embættisveitingar frá fyrstu tíð, ekki aðeins í dómskerfinu heldur í allri stjórnsýslunni. Þessi klíkuskapur er tilefni þess að orðinu „stjórnmálatengslum" hefur verið bætt inn aðra grein frumvarpsins um jafnræði fyrir lögum. Pólitískur klíkuskapur í embættaveitingum er ekki aðeins ranglátur gagnvart hæfari umsækjendum sem er hafnað á ómálefnalegum forsendum, heldur er hann einnig skaðlegur þeim stofnunum sem um er að tefla og samfélaginu í heild. Þessari breytingartillögu er ætlað að efla og bæta stjórnsýsluna í samræmi við þarfar ábendingar RNA.

Alþingi ákveður með lögum, hvaða embætti skuli falla undir ákvæði stjórnarskrárinnar um skipun embættismanna. Lista um embætti á vegum ríkisins er að finna í 22. grein laga nr. 70 frá 1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þar eru meðal annars talin upp þessi embætti: Skrifstofustjóri Alþingis, ríkisendurskoðandi,forsetaritari, ráðuneytisstjórar og skrifstofustjórar í Stjórnarráði, sendiherrar og sendifulltrúar í utanríkisþjónustunni,hæstaréttardómarar, skrifstofustjóri Hæstaréttar og héraðsdómarar, ríkissaksóknari, vararíkissaksóknari og saksóknarar,sýslumenn, ríkislögmaður, ríkissáttasemjari, umboðsmaður barna,ríkislögreglustjóriforstöðumenn ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja, áður ótaldir, svo sem útvarpsstjóri, hagstofustjóri, seðlabankastjóri, forstjóri fjármálaeftirlits og forstjóri samkeppniseftirlits. Af þessum lista gæti Alþingi valið þá embættismenn, sem sérstaka nauðsyn ber til að séu hæfir, sjálfstæðir og óvilhallir í störfum sínum.