Breytingatillaga #33

Við 12. grein. Upplýsingaréttur

Flytjendur:
  • Örn Bárður Jónsson
  • Þorvaldur Gylfason
  • Silja Bára Ómarsdóttir
  • Katrín Oddsdóttir
  • Illugi Jökulsson
  • Freyja Haraldsdóttir
  • Dögg Harðardóttir
BreytingartillagaÁkvæði eftir breytinguÁkvæði í frumvarpsdrögum

Felld út síðasta setning um endurskoðun leyndar.

Skerðingarheimild tengd við söfnun og miðlun, ekki eingöngu afhendingu, geymslu og birtingu.

Heimild sett inn til að takmarka aðgang að vinnuskjölum.

Öllum er frjálst að safna og miðla upplýsingum.

Stjórnsýsla skal vera gegnsæ og halda til haga gögnum, svo sem fundargerðum, og skrásetja og skjalfesta erindi, uppruna þeirra, ferli og afdrif. Slíkum gögnum má ekki eyða nema samkvæmt lögum.

Upplýsingar og gögn í fórum stjórnvalda skulu vera tiltæk án undandráttar og skal með lögum tryggja aðgang almennings að öllum gögnum sem opinberir aðilar safna eða standa straum af. Listi yfir öll mál og gögn í vörslu hins opinbera, uppruna þeirra og innihald, skal vera öllum aðgengilegur.
Söfnun, miðlun og afhendingu gagna, geymslu þeirra og birtingu má aðeins setja skorður með lögum í lýðræðislegum tilgangi, svo sem vegna persónuverndar, friðhelgi einkalífs, öryggis ríkisins eða lögbundins starfs eftirlitsstofnana. Heimilt er í lögum að takmarka aðgang að vinnuskjölum enda sé ekki gengið lengra en þörf krefur til að varðveita eðlileg starfsskilyrði stjórnvalda.

Um gögn sem lögbundin leynd hvílir yfir skulu liggja fyrir upplýsingar um ástæður leyndar og takmörkun leyndartíma.

Öllum er frjálst að safna og miðla upplýsingum.

Stjórnsýsla skal vera gegnsæ og halda til haga gögnum, svo sem fundargerðum, og skrásetja og skjalfesta erindi, uppruna þeirra, ferli og afdrif. Slíkum gögnum má ekki eyða nema samkvæmt lögum.

Upplýsingar og gögn í fórum stjórnvalda skulu vera tiltæk án undandráttar og skal með lögum tryggja aðgang almennings að öllum gögnum sem opinberir aðilar safna eða standa straum af. Listi yfir öll mál og gögn í vörslu hins opinbera, uppruna þeirra og innihald, skal vera öllum aðgengilegur.

Afhendingu gagna, geymslu þeirra og birtingu þeirra má aðeins setja skorður með lögum í lýðræðislegum tilgangi, svo sem vegna persónuverndar, friðhelgi einkalífs, öryggis ríkisins eða lögbundins starfs eftirlitsstofnana. Um gögn sem lögbundin leynd hvílir yfir skulu liggja fyrir upplýsingar um ástæður leyndar og takmörkun leyndartíma. Ákvarðanir um leynd skulu reglulega endurskoðaðar af óháðum aðila.

Skýringar:

Ábending kom fram um að áskilnaður um að ákvarðanir um leynd skyldu endurskoðaðar reglulega væri of íþyngjandi fyrir stjórnvöld og nægilegt væri að vísa til slíkrar reglu í greinargerð með tilvísun um að upplýsingar skuli liggja fyrir um ástæður og takmörkun leyndartíma.

Í 4. mgr. er bætt inn skerðingarheimild fyrir söfnun og miðlun gagna, ekki aðeins afhendingu, geymslu og birtingu þeirra sem áður var að finna í málsgreininni. Þetta var talið bjóða hættunni heim að einkaaðilar, t.d. fjármálastofnanir, hefðu óhefta heimild til að safna og miðla upplýsingum um einstaklinga og lögaðila.


Fyrrum 5. mgr. felld brott, eftir umræðu í ráðinu, en efnislega er hún talin falla undir 4. mgr. þessarar tillögu. Ábending kom fram um að áskilnaður um að ákvarðanir um leynd skyldu endurskoðaðar reglulega væri of íþyngjandi fyrir stjórnvöld og nægilegt væri að vísa til slíkrar reglu í greinargerð með tilvísun um að upplýsingar skuli liggja fyrir um ástæður og takmörkun leyndartíma.

Bætt var inn heimild til að undanskilja vinnuskjöl, að ráðum sérfræðinga, en þau eru hér talin vera í samræmi við upplýsingalög nr. 50/1996, 3. mgr. 4. gr. undantekningar, þ.e. vinnuskjal til eigin afnota; „þó skal veita aðgang að vinnuskjölum ef þau hafa að geyma endanlega ákvörðun um afgreiðslu máls eða upplýsingar sem ekki verður aflað annars staðar frá;“
Fyrrum 4.mgr. er brotin upp og síðasti málsliður hennar gerður að nýrri 5. gr.