45. fundur A-nefndar

25.07.2011 13:25

Dagskrá:

1. 2. málsl. 1. mgr. 34. gr. Náttúruauðlindir
2. Kaflaheiti mannréttinda, náttúru, umhverfis og auðlinda
3. Jafnræðisreglan
4. Trúfrelsi

Fundargerð

45. fundur A-nefndar, haldinn mánudaginn 25. júlí 2011, kl. 13.25.
Viðstödd voru Silja Bára Ómarsdóttir, formaður, sem stýrði fundi, Örn Bárður Jónsson, varaformaður, Arnfríður Guðmundsdóttir, Dögg Harðardóttir, Freyja Haraldsdóttir, Katrín Oddsdóttir, Þorvaldur Gylfason. Fundargerð ritaði Valborg Steingrímsdóttir.

1. 2. málsl. 1. mgr. 34. gr. Náttúruauðlindir

Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið þær, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og því má aldrei selja þær eða veðsetja, beint eða óbeint á nokkurn hátt.
Katrín tekur fram að hún telji ekki æskilegt að kveða á um það í greinargerð hvaða þýðingu þetta orðalag skuli hafa nema að eining sé um það í Stjórnlagaráði. Greinargerð getur þó endurspeglað umræðuna í ráðinu.

2. Kaflaheiti mannréttinda, náttúru, umhverfis og auðlinda

Kaflinn heitir nú Mannréttindi, tillaga nefndarinnar er að það verði Mannréttindi og náttúra.
Til að koma til móts við umræðu í ráðinu í síðustu viku - til að marka þau þáttaskil að umhverfisvernd sé komin inn í stjórnarskrá Íslands.

3. Jafnræðisreglan

Rætt hefur verið um kynbundið orðalag.
Öll erum við jöfn fyrir lögum...
Öll erum við þykir af sumum vísa til okkar Íslendinga og að jafnræðisreglan eigi ekki að mismuna á þeim grundvelli. Nefndin telur þó að efni ákvæðisins komi í veg fyrir þann misskilninginn.
Rétt þykir þó að ítreka í greinargerð að ekki sé um efnislegan mun að ræða, þ.e. milli þess þegar sagt er annars vegar öll erum við jöfn og hins vegar allir eru jafnir.

4. Trúfrelsi

Nefndin ræddi brottfall ákvæðis um vernd allra skráðra trú- og lífsskoðunarfélaga. Breytingartillaga þess efnis að ákvæðið yrði fellt brott var samþykkt með eins atkvæðis mun. Arnfríður lýsti yfir miklum vonbrigðum með það og tók Örn Bárður undir með henni.

Fundi er slitið kl. 14.35.