35. fundur B-nefndar

06.07.2011 09:30

Dagskrá:

1. Ráðherrar og ríkisstjórn

2. Fundur með Róberti R. Spanó

3. Áframh. ráðherrar og ríkisstjórn stjórnarmyndun

Fundargerð

35. fundur B-nefndar haldinn 6. júli 2011, kl. 09:30, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.

Mættir voru eftirtaldir fulltrúar: Katrín Fjeldsted, Pétur Gunnlaugsson, Þórhildur Þorleifsdóttir, Gísli Tryggvason, Erlingur Sigurðarson og Eiríkur Bergmann Einarsson.

Vilhjálmur Þorsteinsson og Ástrós Gunnlaugsdóttir höfðu boðað forföll.

Róbert R. Spanó prófessor við lagadeild Háskóla Íslands og fyrrum settur Umboðsmaður Alþingis var gestur fundarins.

Guðbjörg Eva H. Baldursdóttir ritaði fundargerð.

Formaður Katrín Fjeldsted setti fundinn. Gengið var til dagskrár.

1. Ráðherrar og ríkisstjórn

Rætt stuttlega um stöðu á tillögum nefndarinnar í sambandi við ráðherra og ríkisstjórn.

2. Fundur með Róbert R. Spanó

Salvör Nordal og Sif Guðjónsdóttir mættu á fundinn kl. 10.00.

Minnisblaði Róberts var dreift á fundi, sbr. álit nr. 35006

Í fyrsta lagi bendir Róbert á nýlega lagabreytingu varðandi embætti Umboðsmanns. Nú ber Umboðsmanni að fylgja því eftir að að siðareglum sé fylgt innan stjórnarráðsins en engin reynsla er komin á þá framkvæmd.
Róbert gerir athugasemd við nafnabreytingu á embættinu í Umboðsmann Almennings. Umboðsmaður er trúnaðarmaður þingsins. Hann er ekki umboðsmaður almennings í öllum tilvikum enda er honum ætlað að koma að niðurstöðu um lög og inntak þeirra þrátt fyrir að þau feli, í ljósi almannahagsmuna, skerðingu á réttindum einstaklinga. Umboðsmaður er úrlausnaraðili milli einstaklinga og stjórnvalda, það er rangnefni að kalla hann umboðsmann Almennings bæði formlega og efnislega og hugtakið er ekki mjög gegnsætt. Þá er ljóst að almennt er Umboðsmaður kenndur við þjóðþing erlendis.

Róbert er sammála því að kjörtímabil eigi að vera 5 ár, með efnislega sömu rökum og nefnd B hefur fært fram.
Róbert telur að forsendan sem 2. mgr. núverandi tillaga byggir á sé röng. Hann bendir á heimasíðu umboðsmanns Alþingis þar sem finna megi tölfræði um afdrif fyrstu 2000 málanna. Telur Róbert að stjórnvöld fylgi málum Umboðsmanns í um 98% tilvika. Ef tilmæli Umboðsmanns eiga að hafa bindandi réttaráhrif þá verður það eðlisbreyting á embættinu. Embættið verður eins konar stjórnsýsludómstóll í ákveðnum málaflokki þótt réttaráhrif séu tímabundin. Það breytir verklagi umboðsmanns að öllu leyti, enda sjálfkrafa áskilnaður að kvörtun sé með ákveðnum formlegri hætti og öll málsmeðferð jafnframt. Tæknileg vandamál tillögunnar kunna því að vera fjölmörg. Í dag er kostur embættisins fólginn í því að málsmeðferð er opin, gegnsæ og auðveld.
Tillögu Róberts má sjá í minnisblaðinu. Tillagan mælir fyrir um að Umboðsmaður skuli tilkynna forseta þingsins ef stjórnvöld fari ekki eftir tilmælum hans, þá sé frekar mælt fyrir um þinglega málsmeðferð í lögum um þingsköp Alþingis.

Tillaga RS að nýrri 2. mgr:
Ákveði ráðherra eða annað stjórnvald að hlíta ekki sérstökum tilmælum umboðsmanns skal það tilkynna forseta Alþingis um ákvörðunina [innan þriggja mánaða frá því að hún var tekin eða birt aðila máls.]

Tillaga RS að nýrri 3. mgr:
Um starfsemi umboðsmanns og hlutverk hans skal nánar mælt fyrir í lögum, þ.á.m. um þingmeðferð tilkynningar og ráðherra eða annars stjórnvalds skv. 2. mgr.

Rætt er um ákvæði þess efnis að Umboðsmaður hafi sjálfstætt og persónulegt vald til að veita gjafsókn. Ákveðið að setja slíka umfjöllun í greinargerð.
Róbert R. Spanó, Salvör Nordal og Sif Guðjónsdóttir viku af fundi kl. 11.15.

Nefndarmenn samþykktu að fallast á tillögur Róberts Spanó í meginatriðum.

Fundi frestað til 15:00 vegna sameiginlegs fundar með Ólafi Þ. Harðarssyni prófessor.

3. Ráðherrar og ríkisstjórn - stjórnarmyndun

Nefndarmenn ræddu nýja tillögu að stjórnarmyndun.

Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 17.10.