22. fundur B-nefndar

14.06.2011 09:30

Dagskrá:

1. Fundargerð  14 til samþykktar.

2. Sveitarfélög - vinnuskjal lagt fram.

3. Erindi

4. Umboðsmaður Alþingis

5. Staðfesting laga

6. Önnur mál

Fundargerð

22. fundur B-nefndar haldinn 14. júní 2011, kl. 09.30, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.

Mættir voru eftirtaldir fulltrúar: Katrín Fjeldsted, Vilhjálmur Þorsteinsson, Ástrós Gunnlaugsdóttir, Þórhildur Þorleifsdóttir, Eiríkur Bergmann Einarsson, Pétur Gunnlaugsson, Erlingur Sigurðarson og Salvör Nordal.

Gísli Tryggvason hafði boðað seinkun.

Guðbjörg Eva H. Baldursdóttir ritaði fundargerð.

Formaður, Katrín Fjeldsted, setti fundinn.

 

1. Fundargerð 14.

14. fundargerð lögð fram og samþykkt.

2. Sveitarfélög - vinnuskjal lagt fram.

Nefndarmenn ræddu framkomnar tillögur að ákvæði um málefni sveitarfélaga, sem unnið var í sérstökum vinnuhóp á vegum nefndarinnar, þann 7. júní síðastliðinn.

 

Breytingartillögur voru lagðar fram. Nefndarmenn lögðu áherslu á að orða nálægðarreglu og hlutverk sveitarfélaga skýrt. Bent var á að nálægðarregla er þekkt, skilgreint hugtak sem hefur víðfema skírskotun.

Gísli Tryggvason mætti á fundinn kl. 10.30.

Erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga haft til hliðsjónar við að móta frekar tillögur nefndarinnar.

Ákveðið að fjögur ákvæði verði í nýjum kafla um sveitarfélög.

Hlé gert á fundi nefndarinnar kl. 12.00 vegna sameiginlegs fundar nefndar C um hlutfall kynja í kosningarlögum.

Vilhjálmur Þorsteinsson vék af fundi kl. 14.05.

 

3. Erindi

Eftirfarandi erindi voru tekin fyrir og rædd af nefndarmönnum:

 

33453 höf. Tryggvi Þór Tryggvason, 33519 höf. Kári Allansson og 33560 höf. Einar Svavarsson. Öll erindin varða að ráðherrar séu ekki jafnframt þingmenn, annað hvort að þeir segi af sér eða víki komi til þess að þeir verði ráðherra. Nefndin hefur þegar lagt fram tillögu þessa efnis þó ekki hafi orðið einhugur um hvort þeir víki eða hreinlega segi af sér þingmennsku. Í báðum tilvikum er ljóst að varamaður taki sæti.
33863 höf. Úlfur Nathanaelsson og 33886 höf. Hjörtur Hjartarsson. Erindin varða bæði fjármál, annars vegar að bera þurfi upp fjárlög með auknum útgjöldum samfara því að kveðið sé á um hvernig þau verði fjármögnuð og hins vegar fjármál stjórnmálaflokka. Efnið var tekið upp á fundi og rætt. Nefndarmenn eru meðvitaðir um þessa umræðu. Þegar hafa verið afgreiddar tillögur um hagsmunaskráningu þingmanna sem og ráðherra og þá á enn eftir að taka endanlega afstöðu til ákvæða er varða fjárstjórn ríkisins.
33848 höf. Finnbjörn Gíslason. Erindið fjallar um vanhæfi þingmanna til að fjalla um mál á þingi er varða þeirra hagsmuni m.a. vegna styrkveitinga til þeirra. Í tillögum B-nefndar er nú búið að setja ákvæði um hæfi þingmanna og eftir atvikum vanhæfi við einstakar afgreiðslur, sem og þingmenn eru nú skyldugir til að skrásetja fjárhagsleg tengsl sín. Nefndinr telur þessar tillögur eiga að stefna að sama marki.
33871 höf. Svanbjörg Helga Haraldsdóttir og 33858 höf. Jón Sigurjónsson. Fyrra erindið varðar bann við að þingmenn skipti um flokk á kjörtímabili eða segi sig úr flokk. Hið síðara að varaþingmenn taki sæti ef þingmenn skipta um flokk. Nefndarmenn telja þetta góðar ábendingar, en eftir ítarlega umræður í nefndinni á sínum tíma um málefnið var talið vega þyngra á metunum að þingmenn yrðu áfram bundnir af sannfæringu sinni eins og núverandi stjórnarskrá áskilur.
33848 höf. Heiðrún Sveinsdóttir. Samkvæmt erindinu telur höfundur að betra sé að forseti sjái um embættisveitingar, sem komi í veg fyrir pólitískar ráðningar af hálfu þings eða ráðherra. - Embættisveitingar eru í umræðu innan ráðsins og sjónarmið eru í báðar áttir um hvort markmiðinu að faglega verði skipað í embætti muni frekar nást með slíkri breytingu. Þetta verður rætt í öllu ráðinu.

 

4. Umboðsmaður Alþingis

Ákvæði um Umboðsmann Alþingis rætt eins og það stendur í núverandi útgáfu í áfangaskjali. Bent er á að stjórnvöld eigi að hlíta úrskurði Umboðsmann Alþingis á sambærilegan hátt og borgarar eigi að hlýða úrskurði stjórnvalds sbr. 60. gr. stjórnarskrár. Því sé því snúið við að stjórnvöld geti ekki komið sér hjá að hlýða áliti Umboðsmanns í bráð með því að skjóta málinu til dóms. Lagt til nýtt orðalag í stað hinna fjóru valkosta sem liggja fyrir frá fyrri tillögu.

 

Tilkynnt að beiðni um umsögn við ákvæði Umboðsmanns Alþingis hafi verið send út þann 9. júní síðastliðinn.

Eiríkur Bergmann Einarsson bókar athugasemd framangreint verklag, að send sé af stað umsögn til Umboðsmanns Alþingis án staðfestingu nefndar. Nefndin eigi í heild sinni að samþykkja umsagnir.

 

5. Staðfesting laga sbr. núverandi 26. gr.

Nefndarmenn ræddu stuttlega viðhorf sín til málskotsréttar forsetans. Ólíkir valkostir í þessum efnum ræddir.

6. Önnur mál

 

Ákvæði um aukafjárlög og greiðsluheimildir. Samþykkt að fá gest á fund nefndarinnar mánudaginn 27. júní.

Samþykkt að sameiginlegur fundur B og C nefndar verði haldinn þann 15. júní kl. 13.00 um staðfestingu laga/málskotsrétt forseta.

Samþykkt að leggja fram breytingartillögu um stjórnarmyndun miðað við "finnsku leiðina". Ræða þarf fleiri breytingar sem hafa komið fram við ákvæðið, svo sem um að meirihluti ráðherra skuli vera utan þings, að þingmenn sem verði ráðherrar segi af sér og að hámarksfjöldi ráðherra verði tíu.

Ræða þarf fram komnar breytingartillögur einstaka nefndarmanna. Þórhildur Þorleifsdóttir óskar sérstaklega eftir því að þær fari á dagskrá næstu funda.
Þá er samþykkt að ræða þurfi önnur t.d. um góða stjórnsýsluhætti, skilgreiningu á hlutverki forseta og mögulegt hlutverk forseta við skipan embættismanna o.fl.

Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 16.30.