41. fundur B-nefndar

22.07.2011 10:00

Dagskrá:

1. Breytingartillögum vísað til nefndar á 17. ráðsfundi.

Fundargerð

41. fundur B-nefndar haldinn 22. júli 2011, kl. 10:00, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.

Mættir voru eftirtaldir fulltrúar: Katrín Fjeldsted, Pétur Gunnlaugsson, Erlingur Sigurðarson, Þórhildur Þorleifsdóttir og Vilhjálmur Þorsteinsson.
Ástrós Gunnlaugsdóttir, Eiríkur Bergmann Einarsson og Gísli Tryggvason voru forfölluð.

Guðbjörg Eva H. Baldursdóttir ritaði fundargerð.

Formaður Katrín Fjeldsted setti fundinn. Gengið var til dagskrár.

1. Breytingartillögum vísað til nefndar á 17. ráðsfundi.
Eftir yfirferð breytingartillagna sem sendar voru í nefnd B á 17. ráðsfundi eru eftirfarandi tillögur gerðar:

1. Breytingartillaga #72
Nefnd B gerir tillögu um að breyta 3. mgr. 57. gr. þannig að við bætist orðið minnst. Málsgreinin orðist þá svo: Lagafrumvarp má ekki samþykkja fyrr en eftir minnst tvær umræður á Alþingi.
Með þessu er Alþingi gefinn sá valkostur að fækka umræðum um lagafrumvörp niður í tvær, að m.a. sænskri og finnskri fyrirmynd. Nánar verði kveðið á um fjölda umræðna og meðferð lagafrumvarpa í þingsköpum.

2. Breytingartillaga # 90 við 58. gr., Staðfesting laga. Brottfall undanþágu um lög um ríkisborgararétt.
Nefndin telur ekki ástæðu til að taka afstöðu eða aðhafast vegna þessarar tillögu enda hafði verið kosið um breytingartillögu er gekk lengra. Ath. að gæta þarf samræmis við aðrar greinar um úrlausn ágreinings um hvaða mál eru undanþegin og hver ekki.

3. Breytingartillaga #13 við 67. gr. - greiðsluheimildir
Tillagan er um að breyta orðalaginu "leita skal heimildar" í "skal slík heimild staðfest". Nefndin telur að orðalag breytingartillögunnar megi skilja svo að það feli í sér fyrirskipun til Alþingis um hvernig það skuli afgreiða fjáraukalögin. Þá sé notað orðalagið "leita heimildar" í gildandi lögum um fjárreiður ríkisins og í tillögum stjórnlaganefndar og ekki sé rökstudd ástæða til að víkja frá því. Nefndin leggur til að tillögunni verði hafnað.

4. Breytingartillaga #80 við 69. gr. skattar
Nefndin telur tillöguna efnislega ótæka. Hún geti opnað möguleika fyrir afturvirka skattheimtu sem verulegur vafi er á að standist skv. meginreglum um bann við afturvirkni íþyngjandi laga. Nefndin leggur til að tillögunni verði hafnað.

5. Breytingartillaga # 66 við 70. gr. Eignir og skuldbindingar ríkisins.
Nefndin ræddi um breytingartillöguna sem fjallar um að ríkisfyrirtæki verði aðeins einkavædd með almennri sölu hlutabréfa á opnum markaði. Nefndarmenn töldu markmið ákvæðisins gott en að orðalagið væri óljóst, svo sem um hvað teldist ríkisfyrirtæki, hvað væri einkavæðing, hvort alltaf væri um hlutabréf að ræða o.s.frv.
Í vinnslu er tillaga um að 3. mgr. 72. gr. um eignir og skuldbindingar ríkisins orðist svo: Ekki má selja eða láta með öðru móti af hendi fasteignir ríkisins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt heimild í lögum. Fyrirtæki í eigu ríkisins verða aðeins seld á opnum markaði. Um sölu eða aðra ráðstöfun eigna ríkisins fer að lögum.
Hér þyrfti helst að leita lögfræðiálits um hvort orðalagið "á opnum markaði" sé nógu skýrt til að vera í stjórnarskrá. Þá þarf að vera skýrt hvort átt sé við t.d. öll hlutabréf sem ríkinu kunna að áskotnast, hvaða áhrif þetta hefur á stofnun á borð við Byggðastofnun o.s.frv.

6. Breytingartillaga #21 við 83. gr.
Nefndin er ekki fylgjandi því að forseti geti að tillögu ráðherra fellt niður saksókn enda sé það andstætt sjálfstæði ríkissaksóknara. Það sé ekki eðlilegt að unnt sé að grípa inn í ferli sakamála með þessum hætti. Þá bjóði það heim spillingu ef tveir menn, ráðherra og forseti, geti sammælst um að fella niður saksókn. Texti greinarinnar er að tillögu stjórnlaganefndar. Nefndin leggur til að breytingartillögunni verði hafnað.

7. Breytingartillaga # 15 við 93. gr.
Nefndin gerir tillögu um að færa málslið úr grein um ríkisstjórn yfir í grein um um ráðherraábyrgð. 3. málsliður 3. málsgreinar 87. gr. um ríkisstjórn falli brott. Er það í samræmi við breytingartillögur m.a. #15. Í staðinn orðist 1. mgr. 95. gr. um ráðherraábyrgð svo: Ráðherrar bera lagalega ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Bóki ráðherra andstöðu við ákvörðun ríkisstjórnar ber hann þó ekki ábyrgð á henni. Ábyrgð vegna embættisbrota ráðherra skal ákveðin með lögum.

8. Breytingartillaga # 48 við 94. gr. Skipun embættismanna.
Nefndin telur að breytingartillögunni sé í ýmsu áfátt hvað varðar orðalag og efnislegt inntak.
Nefndarmenn kynntu sér kafla um mannauðsmál Stjórnarráðsins í skýrslu um Samhenta stjórnsýslu. Þá barst nefndarmönnum í tölvupósti grein Ómars H. Kristmundssonar, "Eru ráðninganefndir gagnleg leið við skipanir æðstu embættismanna"?
Samþykkt var að kalla til hluta af flutningsmönnum breytingartillögunnar á fund til að ræða hugsanlega tillögu nefndarinnar um útfærslu á ákvæðinu. Eftir fundi með nefndarmönnum og flutningsmönnum breytingartillögunnar er eftirfarandi málamiðlun samþykkt.
Tillagan orðist nú svo: Ráðherrar og önnur stjórnvöld veita þau embætti er lög mæla. Hæfni og málefnaleg sjónarmið skulu ráða við skipun manna í embætti.Þegar ráðherra skipar í embætti dómara og ríkissaksóknara skal skipun borin undir forseta Íslands til staðfestingar. Synji forseti skipun staðfestingar þarf Alþingi að samþykkja skipunina með ⅔ atkvæða til að hún taki gildi. Ráðherra skipar í önnur æðstu embætti, eins og þau eru skilgreind í lögum, að fenginni tillögu sjálfstæðrar stjórnsýslunefndar. Velji ráðherra ekki í slíkt embætti einn þeirra sem nefndin telur hæfasta er skipun háð samþykki Alþingis með ⅔ atkvæða.Forseti Íslands skipar formann stjórnsýslunefndarinnar. Um nánari skipan hennar og störf skal mælt fyrir í lögum.Í lögum má kveða á um að í tiltekin embætti megi einungis skipa íslenska ríkisborgara. Krefja má embættismann um eiðstaf að stjórnarskránni.

9. Breytingartillaga # 50. Sjálfstæðar stofnanir.
Nefndin hafði ekki lagt til ákvæði í þessum efnum, en kynntu sér efni breytingartillögunar en liðir a-e virtust allir tengjast stofnunum er varða efnahagsmál og hagstjórn. Ekki var séð hvernig skylda ætti stofanir sem teldust sjálfstæðar til að að fara alfarið að stefnu ríkisstjórnar í efnahagsmálum, sbr. A - lið.

Nefndarmenn hittu fulltrúa breytingartillögunnar og eftirfarandi málamiðlun var gerð: Í lögum má kveða á um að tilteknar stofnanir ríkisins, sem gegna mikilvægu eftirliti eða afla upplýsinga sem nauðsynlegar eru í lýðræðisþjóðfélagi, njóti sérstaks sjálfstæðis. Starfsemi slíkra stofnana verður ekki lögð niður, henni breytt að verulegu leyti eða fengin öðrum stofnunum, nema með lögum sem samþykkt eru með ⅔ atkvæða á Alþingi.

Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 17:00.