45. fundur C-nefndar

19.07.2011 09:00

Dagskrá:

 

Dagskrá:
1. Umræða um umsögn forsætisráðuneytis.
2. Önnur mál.

 

Fundargerð

45. fundur C-nefndar, haldinn 19. júlí 2011, kl. 09.00-10.00, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.

Mætt voru: Pawel Bartoszek, formaður, Andrés Magnússon, Ari Teitsson, Guðmundur Gunnarsson, Íris Lind Sæmundsdóttir, varaformaður, Lýður Árnason, Ómar Þorfinnur Ragnarsson og Þorkell Helgason. Agnar Bragason ritaði fundargerð.

1. Umræða um umsögn forsætisráðuneytis

Formaður fer yfir umsögn forsætisráðuneytisins sem barst 19. júlí um drög að frumvarpi Stjórnlagaráðs. Rætt um tillögu að viðbrögðum.
Samþykkt að taka fram í greinargerð með 41. gr. frumvarpsins það sem nefndin taldi sjálfsagt, að úrskurðir landskjörstjórnar yrðu kæranlegir til dómstóla.
Samþykkt að breyta 65.gr.:
„Mál sem lagt er í þjóðaratkvæðagreiðslu samkvæmt ákvæðum þessa kafla skal varða almannahag. Hvorki er hægt að krefjast atkvæðagreiðslu um fjárlög, fjáraukalög, lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum né heldur um skattamálefni og ríkisborgararétt. Rísi ágreiningur um hvort mál uppfylli framangreind skilyrði skera dómstólar úr.
Í lögum skal kveðið á um framkvæmd málskots eða frumkvæðis kjósenda, svo sem um form og fyrirsvar fyrir kröfunni, tímalengd til söfnunar undirskrifta og um fyrirkomulag þeirra, hverju megi til kosta við kynningu, hvernig afturkalla megi kröfuna að fengnum viðbrögðum Alþingis svo og um hvernig haga skuli atkvæðagreiðslu.“
Rætt um 101. gr. um hvort það þurfi að taka fram í grein að hún geti einnig átt við athafnaleysi Alþingis rétt eins og athafnaleysi stjórnvalda. Þetta er efnisbreyting og fulltrúar taka þetta til umhugsunar.
2. Önnur mál
Engin önnur mál.
3. Næsti fundur C-nefndar 
Ekki var ákveðið hvenær næsti fundur yrði í C-nefnd en til hans yrði boðað með tilkynningu.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10.00.