41. fundur A-nefndar

11.07.2011 10:00

Dagskrá:

 

  1. Fundargerðir.
  2. Greinargerðir.
  3. Önnur mál.

 

Fundargerð

41. fundur A-nefndar, haldinn mánudaginn 11. júlí 2011, kl. 10.00-12.15.

Mætt voru: Silja Bára Ómarsdóttir, formaður, sem stýrði fundi, Örn Bárður Jónsson, varaformaður, Arnfríður Guðmundsdóttir, Dögg Harðardóttir, Illugi Jökulsson, Katrín Oddsdóttir og Þorvaldur Gylfason. Fjarvistir hafði boðað Freyja Haraldsdóttir. Fundargerð ritaði Andrés Ingi Jónsson.

1. Fundargerðir

Fundargerðir 32. til 39. funda voru samþykktar. Fundargerð 32. fundar verður send Björgu Thorarensen til samþykktar, þar sem hún var gestur nefndarinnar á þeim fundi. Fundargerð 36. fundar verður send Aðalheiði Jóhannsdóttur til samþykktar, þar sem unnið var með athugasemdir sem bárust frá henni símleiðis á þeim fundi.

2. Greinargerðir

Rætt var um stöðu vinnu við greinargerðir. Verkið er umfangsmikið, en gengur vel.

3. Önnur mál

a. Breytingar á næsta ráðsfundi:
Samþykktar voru lítils háttar breytingar á ákvæðum í mannréttindakafla, sem nefndin vill koma til afgreiðslu á næsta ráðsfundi. Sá fundur verður sá síðasti áður en stjórn setur saman drög að frumvarpi, þannig að mikilvægt er að koma sem flestum breytingum inn á þennan fund. Ákvæði um þjóðkirkjuna verður breytt til samræmis við niðurstöðu skoðanakönnunar á 39. fundi nefndarinnar. Þá hyggst nefndin bæta aftur inn grein um mannlega reisn, með orðalagsbreytingu í takt við breytingartillögu Vilhjálms Þorsteinssonar.
b. Gildagrein
Illugi og Örn Bárður hafa lagt til hvor sín drög að inngangstexta í upphafsákvæði stjórnarskrárinnar. Eftir stuttar umræður í nefndinni var Erni falið að kalla fulltrúa úr fleiri nefndum að vinnunni, mynda óformlegan starfshóp sem vinni áfram með textann.
c. Uppbygging
Rædd var nauðsyn þess að breyta uppröðun ýmissa ákvæða innan kafla, sem og röðun kafla innan áfangaskjalsins. Nefndin hyggst skoða uppröðun nánar þegar allar nefndir hafa skilað endanlegum ákvæðum sinna kafla inn í áfangaskjalið. Á næsta ráðsfundi mun A-nefnd hins vegar leggja til að flytja ákvæði um frelsi fjölmiðla og þjóðkirkjuákvæði í undirstöðukaflann, enda eigi þau ákvæði síður heima í mannréttindakafla. Með því verður heiti undirstöðukaflans e.t.v. ekki nógu gegnsætt, en sjálfstæðar eftirlitsstofnanir, sem nú eru í sérkafla í áfangaskjalinu, gætu síðar meir bæst í kaflann.