39. fundur A-nefndar - sameiginlegur

07.07.2011 11:00

Dagskrá:

 

 1. Þjóðkirkjuákvæði.

 

Fylgiskjöl:

  Fundargerð

  39. fundur A-nefndar, haldinn fimmtudaginn 7. júlí 2011, kl. 11.00-12.00.

  Viðstödd voru Silja Bára Ómarsdóttir, formaður, sem stýrði fundi, Örn Bárður Jónsson, varaformaður, Arnfríður Guðmundsdóttir, Dögg Harðardóttir, Freyja Haraldsdóttir, Illugi Jökulsson, Katrín Oddsdóttir og Þorvaldur Gylfason. Fundargerð ritaði Andrés Ingi Jónsson.

  Eftirtaldir fulltrúar úr öðrum nefndum tóku þátt í fundinum: Andrés Magnússon, Ari Teitsson, Eiríkur Bergmann Einarsson, Erlingur Sigurðarson, Gísli Tryggvason, Guðmundur Gunnarsson, Íris Lind Sæmundsdóttir, Katrín Fjeldsted, Lýður Árnason, Pawel Bartoszek, Pétur Gunnlaugsson, Salvör Nordal, Vilhjálmur Þorsteinsson, Þorkell Helgason og Þórhildur Þorleifsdóttir.

  1. Þjóðkirkjuákvæði

  Silja Bára gerði grein fyrir umræðum innan A-nefndar um þjóðkirkjuákvæði stjórnarskrárinnar. Nefndin bað sem flesta ráðsfulltrúa að mæta á fundinn, til að kanna hug þeirra til fimm leiða sem nefndin sér færar með ákvæðið. Leiðirnar eru:

   

  • A: Valkostir í þjóðaratkvæði
   • Valkostur 1: Evangelíska lúterska kirkjan er þjóðkirkja á Íslandi.
   • Valkostur 2: [Ákvæðið falli brott.]
  • B: Bráðabirgðaákvæði
   • Evangelíska lúterska kirkjan er þjóðkirkja á Íslandi.
   • Endurskoða skal stöðu evangelísku lútersku kirkjunnar sem þjóðkirkju og skal þeirri endurskoðun ljúka innan fimm ára frá gildistöku stjórnarskrár þessarar með bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu.
   • Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar ræður hvort grein þessi fellur brott í heild sinni eða fyrsta málsgrein stendur ein eftir.
  • C: Kirkjuskipan færð í almenn lög
   • Í lögum má kveða á um kirkjuskipan ríkisins.
   • Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipan ríkisins og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar.
  • D: Ekkert ákvæði
   • [Ákvæðið falli brott.]
  • E: Þjóðkirkjuákvæði
   • Evangelíska lúterska kirkjan er þjóðkirkja á Íslandi.

   

  Leiðir D og E eru það sem nefndin sér sem ítrustu kröfu andstæðra sjónarmiða; annars vegar að Stjórnlagaráð ákveði að fella ákvæði um þjóðkirkjuna á brott, hins vegar að ráðið ákveði að halda slíku ákvæði í stjórnarskrá. Hinar þrjár leiðirnar eru málamiðlanir sem A-nefnd hefur gert á milli ólíkra sjónarmiða. Leið A var upphaflega kynnt á 11. ráðsfundi og felur í sér að þjóðin taki ákvörðun um þjóðkirkjuákvæði á sama eða svipuðum tíma og þjóðaratkvæði um stjórnarskrártillögu Stjórnlagaráðs færi fram. Leið B var kynnt á 14. ráðsfundi og byggist á tillögu í skýrslu stjórnlaganefndar. Líkt og leið A gerir B ráð fyrir því að þjóðin skeri úr um þjóðkirkjuákvæðið, en í þessu tilviki er gefinn 5 ára tími til að hægt sé að endurskoða tengsl ríkis og kirkju og tryggja að nægjanleg umræða fari fram um mögulegar afleiðingar breytinga. Leið C er tilraun A-nefndar til að sætta sjónarmið sem komu fram hjá ýmsum öðrum ráðsfulltrúum á 11. ráðsfundi.

  Eftir stuttar umræður um leiðirnar fimm var gengið til atkvæða. Beitt var STV-aðferðinni, þar sem hægt var að forgangsraða allt að þremur valkostum, að tillögu Vilhjálms Þorsteinssonar.

  Leið C varð hlutskörpust og mun A-nefnd því gera hana að tillögu sinni á ráðsfundi. Leið D naut næstmests stuðnings. Greinargerð með nánari sundurliðun kosninganna fylgir í fylgiskjali.