37. fundur A-nefndar

06.07.2011 09:30

Dagskrá:

 

Dagskrá:
  1. Gildagrein.
  2. Félagafrelsi.
  3. Umhverfi og auðlindir.
  4. Skoðanakönnun um þjóðkirkjuákvæði.
  5. Önnur mál.

 

Fundargerð

37. fundur A-nefndar, haldinn miðvikudaginn 6. júlí 2011, kl. 9.30-11.40.

Mætt voru: Silja Bára Ómarsdóttir, formaður, sem stýrði fundi, Örn Bárður Jónsson, varaformaður, Dögg Harðardóttir, Freyja Haraldsdóttir, Illugi Jökulsson, Katrín Oddsdóttir og Þorvaldur Gylfason. Arnfríður Guðmundsdóttir hafði boðað fjarvistir. Fundargerð ritaði Andrés Ingi Jónsson.

1. Gildagrein

Silja Bára hafði unnið áfram með drög að gildagrein, sem Freyja kynnti á síðasta fundi. Taldi nefndin flest nauðsynleg efnisatriði farin að sjást í drögunum, en enn vantaði þá skáldlegu upphafningu sem þyrfti í þessar upphafssetningar stjórnarskrár. Var Illuga og Erni Bárði falið að vinna áfram með textann.

2. Félagafrelsi

Til skoðunar var erindi 33935 um að félög sem almenningur er skuldbundinn til að vera í (s.s. stéttarfélög og lífeyrissjóðir) skyldu lúta lýðræðislegri stjórn. Hugmyndin þótti hljóma vel, en óljóst væri hvaða vandamál væri verið að leysa, auk þess sem erfitt væri að koma orðum að þessu í stjórnarskrá.

Samþykkt að láta ákvæðið standa óbreytt.

3. Umhverfi og auðlindir

Silja Bára minnti á ábendingu Aðalheiðar Jóhannsdóttur, um að orðið „spjöll“ væri óþarflega þröngt til að ná yfir það sem æskilegt væri í ákvæði um náttúru Íslands og umhverfi. Við umræður þótti flestum nefndarmönnum að orðið hefði nokkuð skýra skírskotun til umhverfis.

Samþykkt að láta ákvæðið standa óbreytt, en skilgreina vel í greinargerð hvað átt sé við með „spjöll“.

4. Skoðanakönnun um þjóðkirkjuákvæði

Silja Bára hafði ásamt nefndarritara lagt drög að skoðanakönnun, þar sem ráðsfulltrúar verða spurðir álits á fimm hugmyndum um þjóðkirkjuákvæði í stjórnarskrá. Skoðanakönnunin mun fara fram á nefndarfundi 7. júlí. Nefndin samþykkti könnunina og verður hún send með fundarboði.

5. Önnur mál

 

  • Menningarverðmæti. Farið var yfir álit mennta- og menningarmálaráðuneytisins á ákvæði um vernd menningarverðmæta, þar sem ráðuneytið telur ákvæðið vera óþarft. Nefndin samþykkti að halda ákvæðinu óbreyttu í áfangaskjalinu.
  • Tjáningarfrelsi. Nefndin ræddi breytingartillögu Andrésar Magnússonar, um að bætt verði við ákvæðið málsliðnum „Ríkisfjölmiðlar skulu stuðla að jafnvægi í upplýsingamiðlun.“ Þótti nefndinni geta virst undarlegt að nefna allt í einu ríkisfjölmiðla í stjórnarskránni og að „opin og upplýst umræða“ myndi væntanlega ná yfir þessi sjónarmið. Breytingartillögu AM var því hafnað. Nefndin samþykkti að breyta fyrirsögn ákvæðisins í „skoðana- og tjáningarfrelsi“, enda væri það nær inntaki þess.