36. fundur C-nefndar

29.06.2011 09:30

Dagskrá:

 

Dagskrá:

1. Kafli um utanríkismál.
2. Kafli um dómsvaldið.
3. Önnur mál.

 

Fundargerð

36. fundur C-nefndar, haldinn 29. júní 2011, kl. 9.30 -12.00, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.

Mætt voru: Pawel Bartoszek, formaður, Andrés Magnússon, Ari Teitsson, Guðmundur Gunnarsson, Íris Lind Sæmundsdóttir, varaformaður, Lýður Árnason og Þorkell Helgason. Agnar Bragason ritaði fundargerð.

1. Kafli um utanríkismál

Rætt var um hvort setja beri í 1. gr. að utanríkismálanefnd starfi allt árið, á þingtíma sem í þinghléum eða hvort nægilegt sé að það komi fram í greinargerð. Rætt var um tímabilið áður en kosið er í nefndir eftir kosningar til Alþingis, hverjir sitji þá í utanríkismálanefnd og beri ábyrgð á eftirliti með framkvæmdavaldinu.
Rætt var um hvort nefndin eigi að vera kölluð utanríkismálanefnd í stjórnarskrá eða sú nefnd sem fer með utanríkismál.
Rætt var um að skerpa á skyldu ráðherra til að hafa samráð við utanríkismálanefnd. Tengist dómsvaldskaflanum varðandi möguleg mál gegn ráðherra vegna athafnaleysis, ef hann hefur ekki réttmætt samráð við nefndina.
Rætt var um orðalag um forseta í 1. gr. um hvort beri að setja inn að hann komi fram sem þjóðhöfðingi og hvort að taka þurfi fram að honum beri að fylgja stefnu stjórnvalda.
Rætt var um orðalag í 1. gr. um hernaðaraðgerðir og athugasemdir Bjargar Thorarensen um að það sé of óljóst og víðtækt. Athuga frekar orðalagið vopnuð árás eða stríð eða jafnvel sleppa setningunni. Rætt var um hvort aukinn meirihluti þings eigi að þurfa að vera á bak við slíkan stuðning.
Rætt var um hugtakið samningar við önnur ríki og alþjóðasamningar. Verður að taka fram í greinargerð ef notað er alþjóðasamningur að átt sé við þjóðréttarsamninga án einkaréttarlegs yfirbragðs. Rætt var um þýðingu orðalagsins mikilvægir af öðrum ástæðum.
Rætt var um orðalagið í þágu friðar og efnahagssamvinnu og hversu víðtækt það sé í alþjóðlegri samvinnu.
Rætt var um framsal ríkisvalds og hvernig það skuli samþykkt, á Alþingi og í þjóðaratkvæðagreiðslu í samræmi við stjórnarskrárbreytingar.

2. Kafli um dómsvaldið

Rætt var um skipun dómara og hve ítarlega á að fjalla um það í stjórnarskrá hvernig tryggja skuli málefnaleg sjónarmið.
Rætt var um að fella út fyrirkomulag um Landsdóm eða sérskipaðan Hæstarétt en halda inni grein um að Hæstiréttur meti stjórnskipulegt gildi laga og stjórnarathafna sem lögspurningar ef þingnefnd, þriðjungur þings eða forseti Íslands þess óska.

3. Önnur mál

Rætt var um hvort þurfi að setja inn í kaflann um kosningar til Alþingis og alþingismenn hvaða aðili eigi að úrskurða um gildi kosninga á fyrsta stigi og þá helst Landskjörstjórn.

4. Næsti fundur C-nefndar

Ákveðið var að næsti fundur í C-nefnd yrði mánudaginn 4. júlí kl. 10.00, en til hans yrði boðað með tilkynningu.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 12.00.