32. fundur A-nefndar

28.06.2011 09:30

Dagskrá:

 

  1. Upplýsingar um lífeyrisréttindi.
  2. Ákvæði um dýravernd.
  3. Gestur: Björg Thorarensen (kl. 10-12).

 

Fundargerð

32. fundur A-nefndar, haldinn þriðjudaginn 28. júní 2011, kl. 9.30-12.00.

Mætt voru: Silja Bára Ómarsdóttir, formaður, sem stýrði fundi, Örn Bárður Jónsson, varaformaður, Arnfríður Guðmundsdóttir, Dögg Harðardóttir, Freyja Haraldsdóttir, Illugi Jökulsson, Katrín Oddsdóttir og Þorvaldur Gylfason. Fundargerð ritaði Andrés Ingi Jónsson.

Björg Thorarensen var gestur á fundinum kl. 10.00-12.00. Pawel Bartoszek sat fundinn kl. 11.30-12.00.

1. Upplýsingar um lífeyrisréttindi

Þorvaldur fór fram á að ritari nefndarinnar myndi kalla eftir nöfnum á þeim aðilum sem mestra lífeyrisréttinda njóta skv. svari sem barst frá LSR. Nefndin ákvað að biðja ekki um frekari upplýsingar.

2. Ákvæði um dýravernd

Ákveðið var að bíða eftir athugasemdum frá hagsmunaaðilum, áður en ráðist er í breytingar á ákvæðinu.

3. Gestur: Björg Thorarensen

 

Björg Thorarensen, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, kom á fund nefndarinnar, eftir að hafa verið beðin um að gefa álit á hugmyndum um nýjan mannréttindakafla. Hún taldi sér ekki fært að bregðast við með formlegum hætti, en svaraði spurningum nefndarfólks um nokkur lykilatriði.
Brottfall orðanna „siðgæði“, „allsherjarregla“ og „velsæmi“.

Nefndin hefur lagt til að nokkur orð séu felld úr stjórnarskránni, þar sem merking þeirra sé of matskennd og jafnvel sé hægt að misnota þau. Björg telur að slíkar orðalagsbreytingar beri að nálgast með varúð, þar sem orð hafi oft fengið mjög skýra og afmarkaða merkingu í dómaframkvæmd. Það verði að liggja skýrt fyrir hvert markmið textabreytinga er og nefndin þurfi að leggja mat á hugsanlegar afleiðingar þeirra. Nefndi hún sem dæmi að undir allsherjareglu falli ýmislegt sem tengist réttarvörslukerfinu, og úrræðum til að stemma stigu við afbrotum, heimildir til að skerða frelsi manna með lögmætri handtöku, svo og ýmsar rannsóknaraðgerðir lögreglu sem viðurkennt er að þurfi við uppljóstrun sakamála. Undir takmarkanir sem hvíla á siðgæði er einna helst tekið sem dæmi dreifing og birting á klámi. Öll orðin þrjú sækja beina fyrirmynd í mannréttindasáttmála Evrópu. Þau standi í ákveðnu samhengi við önnur atriði sem eru heimill grundvöllur takmarkana á mannréttindum og löng hefð sé fyrir því hvernig þessar takmarkanir eru túlkaðar eða þeim beitt. Ekki verði séð að þau hafi valdið sérstökum vandkvæðum eða misnotkun og A-nefnd hafi engin efnisleg rök fært fyrir þörf á að fella þau niður.

Afleiðingar þess að taka út heimild til skylduaðildar að félögum.
Nefndin hefur lagt til að heimild til skylduaðildar að félögum sé felld brott úr ákvæði um félagafrelsi. Taldi Björg slíka breytingu geta haft talsverðar afleiðingar á nokkrar tegundir félaga, sem þjóni almannahagsmunum. Dæmi um slíkt eru félög fagstétta, sem sinna ákveðnu eftirliti með viðkomandi stétt, t.d. lögmönnum, læknum og fasteignasölum. Þá byggja veiðifélög og húsfélög á þessu ákvæði stjórnarskrárinnar. Þar sem nefndin hafi ekki sýnt fram á skýra þörf á að fella málsliðinn brott lagði Björg til að hann fengi að standa óbreyttur.
Þó væri ljóst að hluti ákvæða um félaga- og fundafrelsi sé nokkuð fornfálegur. T.d. sé ákvæði um að banna megi um sinn starfsemi félags sem talið sé hafa ólöglegan tilgang sennilega úrelt, enda hafi því aldrei verið beitt.
Brottfall réttar lögreglu til að vera við almennar samkomur.
Björg taldi ekki sýnt fram á þörf fyrir brottfalli heimildarinnar, enda leiði hún af almennum sjónarmiðum um þörf á að halda uppi allsherjarreglu – sem hingað til hafi verið talin óumdeild.

Þjóðkirkjuákvæði
Nefndin bað um álit á mögulegum breytingum eða brottfalli á sérstöku ákvæði um þjóðkirkjuna í stjórnarskrá. Björg sagðist vera þeirra skoðunar að ekki sé rétt að svipta þjóðina rétti til að fá að taka beina afstöðu til kirkjuskipunar ríkisins í þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og núna er tryggt í 2. mgr. 79. gr. Þrátt fyrir þetta telji hún að nægilegt sé að fjalla um kirkjuskipan í almennum lögum. Þannig sé hægt að taka yfirlýsingu um þjóðkirkju og samband ríkis og kirkju úr stjórnarskrá án þess að kirkjuskipan ríkisins breytist, svo lengi sem 1. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997 stendur óbreytt. Þessi skoðun sé hins vegar ekki óumdeild.

Önnur leið sem hægt væri að fara en þær sem nefndin hefur þegar kynnt sé að halda inni ákvæði í stjórnarskránni að setja skuli lög um skipan og starfshætti evangalísku lútersku kirkjunnar. Til að viðhalda reglunni sem nú er í 2. mgr. 79. gr. mætti halda inni í stjórnarskránni ákvæði um að breytingar á þeim lögum sem fela í sér breytingar á skipan kirkjunnar skuli fara í þjóðaratkvæði.
Innleiðing alþjóðlegra mannréttindasamninga
Innleiðing alþjóðlegra mannréttindasamninga eins og hún birtist í tillögum nefndarinnar gengur of langt að mati Bjargar – framselur í raun hluta stjórnarskrárvaldsins til alþjóðastofnana. Líta megi til Noregs, þar sem sambærilegt ákvæði gefur mannréttindasamningum stöðu yfir almennum lögum, þó ekki jafnstöðu með stjórnarskrá.

Almennt um kaflann
Taldi Björg nauðsynlegt að skoða innbyrðis samræmi í kaflanum og uppröðun ákvæða. T.d. geti orkað tvímælis að ákvæði um frelsi fjölmiðla og upplýsingafrelsi standi framar ákvæði um vernd gegn pyndingum. Vel færi á því að byrja kaflann á jafnræðisreglu, en „manngreinarálit“ sem nefndin hefur bætt inn í jafnræðisregluna, þykir ekki nógu lipur þýðing á „discrimination“. Betra væri að tala um „mismunun“.