24. fundur C - nefndar - sameiginlegur

08.06.2011 10:00

Dagskrá:

Dagskrá:

1. Kafli um kosningar og alþingismenn.
2. Kafli um lýðræðislega þátttöku almennings.

 

Fundargerð

24. fundur C-nefndar, haldinn 8. júní 2011, kl. 10.00-14.00, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.

Mætt voru: Pawel Bartoszek, formaður, Andrés Magnússon, Arnfríður Guðmundsdóttir, Ari Teitsson, Dögg Harðardóttir, Eiríkur Bergmann Einarsson, Erlingur Sigurðarson, Gísli Tryggvason, Guðmundur Gunnarsson, Illugi Jökulsson, Íris Lind Sæmundsdóttir, varaformaður, Katrín Oddsdóttir, Lýður Árnason, Ómar Þorfinnur Ragnarsson, Pétur Gunnlaugsson, Salvör Nordal, Silja Bára Ómarsdóttir, Vilhjálmur Þorsteinsson, Þorkell Helgason, Þorvaldur Gylfason, Þórhildur Þorleifsdóttir og Örn Bárður Jónsson. Agnar Bragason ritaði fundargerð.

1. Kafli um kosningar og alþingismenn

Formaður kynnti hugmyndir sínar og nefndarinnar um kosningakerfi sem fellur að tillögu að nýju stjórnarskrárákvæði um kosningar til Alþingis, í ljósi umboðs frá síðasta sameiginlega fundi. Kosningakerfið þó einungis til viðmiðunar og löggjafanum falið að setja reglur byggðar á nýju stjórnarskrárákvæði.
Rætt var um fjölda alþingismanna, til fækkunar eða fjölgunar.
Rætt var um fjölda kjördæma, hvort of opið sé að tala um eitt til átta kjördæmi.
Rætt var um fjölda bundinna þingmanna í hverju kjördæmi, til fækkunar eða fjölgunar.
Einnig rætt um ákvæðið um kynjahlutföll, að því gæti verið ofaukið en einnig að það þurfi að ganga lengra.

 

2. Kafli um lýðræðislega þátttöku almennings

Formaður fór yfir tillögur nefndarinnar. Ákveðið að leggja ekki fram 1. gr. fyrri tillögu um frávikningu forseta þar sem nefnd B hefur fjallað um það.
Rætt var um möguleika rafrænna undirskrifta.
Rætt um ábyrgð þingmanna og þeirra sem fara fram á þjóðaratkvæði. Forsenda að taka málskot af forseta að tiltölulega auðvelt sé fyrir almenning að nýta sér málskot.
Rætt var um styrki til stjórnmálaflokka og annarra pólitískra hreyfinga.
Rætt var um hver prósenta kjósenda á að vera sem getur farið fram á þjóðaratkvæði, 10-15%.
Rætt var um að hægt verði að vísa málum sem afgreidd hafa verið á Alþingi en ekki bara þau sem hafa verið samþykkt, það eigi að vera hægt að endurvekja mál sem hafa verið felld eða dagað uppi.
Rætt um grein um þjóðarfrumkvæði. Gagnrýnt var að þetta sé í raun ekki þjóðarfrumkvæði heldur svokallað bænaskjal og of hátt hlutfall kjósenda.
Rætt var um að þingmenn séu fyrst og fremst bundnir við sannfæringu sína og ekki hægt að leggja fyrir þá að gera eitthvað gegn sinni sannfæringu eins og að flytja eða tala fyrir máli sem er ekki frá þeim komið. Verður að finna lausn á því hver mælir fyrir slíkum frumkvæðismálum á þingi.

3. Önnur mál

Engin önnur mál.

4. Næsti fundur C-nefndar

Ákveðið var að næsti fundur í C-nefnd yrði fimmtudaginn 9. júní kl. 9.30, en til hans yrði boðað með tilkynningu.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15.00.