23. fundur C-nefndar

07.06.2011 09:30

Dagskrá:

 

Dagskrá:

 

  1. Kafli um kosningar og alþingismenn.
  2. Kafli um lýðræðislega þátttöku almennings.
  3. Önnur mál.

 

 

Fundargerð

23. fundur C-nefndar, haldinn 7. júní 2011, kl. 9.30-15.30, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.

Mætt voru: Pawel Bartoszek, formaður, Andrés Magnússon, Ari Teitsson, Guðmundur Gunnarsson, Íris Lind Sæmundsdóttir, varaformaður, Lýður Árnason, Ómar Þorfinnur Ragnarsson og Þorkell Helgason. Agnar Bragason ritaði fundargerð.

1. Kafli um kosningar og alþingismenn

Almennar umræður voru um tillögur frá síðasta fundi. Rætt var um tillögu um styrki til stjórnmálasamtaka. Rætt um hvort skerpa eigi tillögu stjórnlaganefndar og bæta inn svo fljótt sem auðið er og gegnsæi.

2. Kafli um lýðræðislega þátttöku almennings

Rætt var almennt um lýðræðislega þátttöku almennings og þær greinar sem viðkoma þjóðaratkvæðagreiðslum í stjórnarskrá.

Rætt var um ákvæði um frávikningu forseta, nefnd B hefur einnig fjallað um þetta atriði.

Rætt var um hvort þjóðarfrumkvæði eigi ekki að ná einnig til stjórnarskrárbreytinga, um merkingu málefna sem varða almannahag og hvort takmarka þurfi þjóðarfrumkvæði við lög og málefni sem eru til meðferðar þings.

Formaður rak á töflu hvern og einn möguleika stjórnlaganefndar, um málskot og þjóðarfrumkvæði:

Málskot: 1/3 þingmanna eða 15% þjóðar – þjóðaratkvæði – samþykkt eða fellt ef a.m.k. 30% þjóðar fellir.

Þjóðarfrumkvæði: 15% þjóðar – þjóðaratkvæði um lög eða málefni – ef samþykkt þá fer það til þings og er bindandi um lög.

Rætt var um hvort hægt sé að tryggja það að mál fái umfjöllun á Alþingi, er það ekki háð vilja einstakra þingmanna hvaða mál séu tekin fyrir. Rætt um í hvernig búning beri að klæða slíkt þjóðarfrumkvæði og hver myndi aðstoða við framlagningu þess, því ekki er hægt að binda þingmenn til þess ef það fer gegn þeirra sannfæringu. Rætt var um úrræði til að tryggja að mál sem koma frá þjóðarfrumkvæði fái afgreiðslu á þingi. Virðist vera meirihluti fyrir því í nefndinni að það sé ákveðinn frumkvæðisréttur hjá þjóðinni og slíku máli sé tryggð ákveðin þingleg meðferð, en ekki hægt að þvinga það í gegn í andstöðu við vilja þingmanna. Rætt var um að endurhugsa þetta frá grunni og ef 15% þjóðarinnar vilja sjá frumvarp í þjóðaratkvæði þá fari það beint í þjóðaratkvæði án viðkomu í þinginu (svissneska leiðin).

Rætt var um stjórnarskrárbreytingar og hvort það eigi að vera þjóðaratkvæði um breytingar eða þingrof eða hvort tveggja. Einnig rætt um hvort markmiðið sé að gera stjórnarskrárbreytingar erfiðari eða auðveldari í framkvæmd.

Rætt var um að hafa inni í tillögunum málskot þings, málskot þjóðar og svo þjóðarfrumkvæði um tiltekið málefni. Einnig rætt um að hafa ekki þröskulda í þjóðaratkvæðagreiðslu. Meirihluti er fyrir því að stjórnarskrárbreytingar fari í þjóðaratkvæði en spurning um hvort það þurfi einnig þingrof.

3. Önnur mál

Engin önnur mál.

4. Næsti fundur C-nefndar

Ákveðið var að næsti sameiginlegi fundur í C-nefnd yrði hinn 8. júní kl. 10.00, en til hans yrði boðað með tilkynningu.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15.30.