20. fundur A-nefndar - sameiginlegur

01.06.2011 13:00

Dagskrá:

 

  1. Trúfrelsi og þjóðkirkja.
  2. Tjáningarfrelsi, upplýsingar og fjölmiðlar.
  3. Breytt málfræðilegt kyn.

 

Fundargerð

20. fundur A-nefndar, haldinn miðvikudaginn 1. júní, kl. 13.00-14.40.

Viðstödd voru Silja Bára Ómarsdóttir, formaður, sem stýrði fundi, Örn Bárður Jónsson, varaformaður, Arnfríður Guðmundsdóttir, Dögg Harðardóttir, Freyja Haraldsdóttir, Illugi Jökulsson, Katrín Oddsdóttir og Þorvaldur Gylfason. Fundargerð ritaði Andrés Ingi Jónsson.

Eftirtaldir fulltrúar úr öðrum nefndum tóku þátt í fundinum: Ari Teitsson, Eiríkur Bergmann Einarsson, Erlingur Sigurðarson, Guðmundur Gunnarsson, Íris Lind Sæmundsdóttir, Katrín Fjeldsted, Lýður Árnason, Ómar Þorfinnur Ragnarsson, Pawel Bartoszek, Salvör Nordal, Vilhjálmur Þorsteinsson, Þorkell Helgason og Þórhildur Þorleifsdóttir.

1. Trúfrelsi og þjóðkirkja

Nefndin kynnti hugmyndir að ákvæðum um trúfrelsi og þjóðkirkju, auk hugmynda sinna um að um þjóðkirkjuákvæðið væru sérstaklega greidd atkvæði. Líkt og í A-nefndinni sjálfri voru deildar skoðanir um þjóðkirkjuákvæðið, sem sumir vildu persónulega fella brott, en aðrir halda inni. Töldu ýmsir viðstaddir að æskilegt væri að Stjórnlagaráð stefndi að því að leggja fram einar og óskiptar tillögur, þannig að valkostir sem bera ætti undir þjóðina væru nokkuð sem mætti forðast. Silja Bára benti á að stjórnlaganefnd hefði lagt til bráðabirgðaákvæði um endurskoðun kirkjuskipanarinnar, sem væri möguleg leið til að ná sáttatillögu, sem ekki leiddi til valkosta. Nefndin myndi skoða það, en leggja ákvæðið fram með valkostum fyrst um sinn.
Þá lýsti Eiríkur Bergmann þeirri skoðun, að 79. grein stjórnarskrárinnar kæmi ekki til skoðunar þegar verið væri að breyta stjórnarskránni í heild sinni, heldur aðeins þegar Alþingi væri að breyta 62. greininni sérstaklega með lögum.

2. Tjáningarfrelsi, upplýsingar og fjölmiðlar

Ekki gafst tími til umræðna um greinarnar og var framlagningu þeirra því frestað.

3. Breytt málfræðilegt kyn

Nefndin dreifði sýnishorni af fyrstu tíu greinum mannréttindakaflans, þar sem horfið hefur verið frá málfræðilegu karlkyni eins og auðið er.