21. fundur C-nefndar

01.06.2011 14:30

Dagskrá:

 

  1. Kosningar og kjördæmaskipan.
  2. Önnur mál.

 

Fundargerð

21. fundur C-nefndar, haldinn 1. júní 2011, kl. 14.30-16.05, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.

Mætt voru: Pawel Bartoszek formaður, Andrés Magnússon, Ari Teitsson, Guðmundur Gunnarsson, Lýður Árnason, Ómar Þorfinnur Ragnarsson, Þorkell Helgason, Þorvaldur Gylfason og Örn Bárður Jónsson. Íris Lind Sæmundsdóttir, varaformaður, boðaði forföll. Agnar Bragason ritaði fundargerð.

1. Kafli um kosningar og alþingismenn

Formaður lagði fram vinnuskjal sem hann telur að sátt geti náðst um. Í því er fjallað um stutt einfalt ákvæði þar sem kemur fram að kosið skuli með leynilegum kosningum 63 þingmenn með persónukjöri til fjögurra ára. Atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vegi jafnt, heimilt að binda í lög að tiltekin þingsæti allt að 25 séu bundin kjördæmum. Kjördæmi verði fæst eitt en flest sjö og að breytingar á kosningalögum þurfi samþykki 2/3 hluta Alþingis.

Rætt var um útfærslu á kosningalögum sbr. tillöguna í stjórnarskrá, um kjördæmi, kjörseðla, athöfn kjósenda, uppgjör atkvæða og úthlutun þingsæta. Kerfið bindur fimm þingsæti á kjördæmi, má velja þvert á lista, passar upp á kynjasjónarmið og öll atkvæði jöfn á landinu. Almenn ánægja var með tillögu formanns sem hefur unnið að málamiðlun.

Þorkell gerði grein fyrir sinni tillögu sem er byggð á sömu samhæfingarvinnu. Aðalmunurinn er hvernig kjósandinn ber sig að, hann merkir með 1, 2 eða 3 í stað krossa, hægt að velja einungis lista og úthlutun þingsæta með STV aðferð.

Farið var yfir drög Ara að nýju ákvæði í stjórnarskrá sem byggist á hefðbundnum kjördæmum.
Rætt var um að láta fylgja greinargerð meginatriði nýs kosningakerfis eða setja bráðabirgðaákvæði.
Þá var rætt um að halda áfram þessu starfi næstu vikuna.

2. Önnur mál

Engin önnur mál.

3. Næsti fundur C-nefndar

Ákveðið var að næsti fundur í C-nefnd yrði mánudaginn 6. júní kl. 10.00, en til hans yrði boðað með tilkynningu.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16.05.