16. fundur B-nefndar

31.05.2011 09:30

Dagskrá:

1. Framhald á umræðum frá fundi nefndarinnar 30. maí.

Fundargerð

16. fundur B-nefndar haldinn 31. maí 2011, kl. 09.30, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.

Mætt voru: Katrín Fjeldsted, formaður, Vilhjálmur Þorsteinsson, varaformaður, Ástrós Gunnlaugsdóttir, Þórhildur Þorleifsdóttir, Erlingur Sigurðarson og Salvör Nordal.

Gísli Tryggvason boðaði forföll og Pétur Gunnlaugsson hafði boðað seinkun.

Guðbjörg Eva H. Baldursdóttir ritaði fundargerð.

Formaður, Katrín Fjeldsted, setti fundinn. Gengið var til dagskrár.

1. Framhald á umræðum frá fundi nefndarinnar 30. maí, framkvæmdarvaldið.

Ástrós gerði grein fyrir tillögum um starfsemi og fundi ríkisstjórnarinnar.

Nefndarmenn ræddu framlagðar tillögur. Í núverandi stjórnskipan ber hver ráðherra ábyrgð á sínum málaflokki og tekur sjálfstæðar ákvarðanir í samræmi við þá ábyrgðarröðun.

Pétur Gunnlaugsson mætti á fundinn kl. 10.15.

Rædd voru ákvæði finnsku, þýsku og sænsku stjórnarskránna um ríkisstjórn. Í þýsku stjórnarskránni kemur m.a. fram að forsætisráðherra beri ábyrgð á heildarstefnu ríkisstjórnarinnar.

Eiríkur Bergmann Einarsson mætti á fundinn kl. 10.30.

Nefndarmenn ræddu markmið með breytingum og skilgreiningu á starfsemi ríkisstjórnar. M.a. voru eftirfarandi atriði nefnd:
- Samræmd stefna
- Sameiginleg ábyrgð
- Ábyrgð leiðtoga stjórnmálaflokka
- Ábyrgð og hlutverk forsætisráðherra
- Pólitísk vs. lagaleg ábyrgð - hvernig fer hún saman?
- Upplýsingaskylda innan ríkisstjórnar

Þá voru ræddir kostir og gallar þess að ríkisstjórn yrði gerð að fjölskipuðu stjórnvaldi. Mikilvægt að ríkisstjórn beri í heild sinni ábyrgð á mikilvægum málefnum og haft sé samráð um einstaka mikilvæg málefni sem ríkisstjórn beri öll ábyrgð á. Breytingar á orðalagi ákvæðis lagðar til, að fyrirmynd þýsku stjórnarskrárinnar að forsætisráðherra sé ábyrgur fyrir meginatriðum stjórnarstefnunnar.

Breytt var orðalagi í 3. mgr. þannig að fram komi að ráðherrar beri sameiginlega ábyrgð á þeim ákvörðunum þar sem um er að ræða mikilvæg eða stefnumarkandi málefni sem nánar er mælt fyrir um í lögum. Þá þurfi meirihluti ráðherra að vera viðstaddur þegar slíkar ákvarðanir eru teknar.
Við meðferð lagafrumvarpa ber ráðherra að leggja frumvarpið fyrir ríkisstjórnarfundi ef það varðar mikilvæg málefni. Ef forsætisráðherra telur frumvarpið varða við meginatriði ríkisstjórnarstefnunnar þá á hann að krefjast þess að sameiginleg ákvörðun sé tekin um málið sem heyrir því undir 3. mgr. tillögunnar. Nefndin telur að fá mál muni heyra undir sameiginlega ákvörðun ríkisstjórnarinnar, þar sem stór hluti mála fer í gegnum þingið án verulegs ágreinings.

Rætt var um frekari útfærslu á meðferð frumvarpa. Þá var lagt til að breyta eigi núverandi ákvæði, þannig að frumvörp fari beint í nefnd og umræðum fækkað niður í tvær umræður - það styrki markvisst, skilvirkt og málefnalegt þingstarf innan nefnda.

Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 15.30.