19. fundur A-nefndar

31.05.2011 09:30

Dagskrá:

 

  1. Fundargerðir síðustu funda.
  2. Innsend erindi um trúfrelsi rædd.
  3. Trúfrelsi og jafnræði trúfélaga.
  4. Frelsi fjölmiðla og upplýsingaréttur.
  5. Íslensk tunga og önnur gildi.
  6. Önnur mál.

 

Fundargerð

19. fundur A-nefndar, haldinn þriðjudaginn 31. maí, kl. 9.35-12.00 og 13.10-16.00.

Viðstödd voru Silja Bára Ómarsdóttir, formaður, sem stýrði fundi, Örn Bárður Jónsson, varaformaður, Arnfríður Guðmundsdóttir, Dögg Harðardóttir, Freyja Haraldsdóttir, Illugi Jökulsson (til kl. 14.30), Katrín Oddsdóttir og Þorvaldur Gylfason. Fundargerð ritaði Andrés Ingi Jónsson.

Salvör Nordal sat fundinn kl. 13.50-14.30 og Pawel Bartoszek kl. 13.50-14.10.

1. Fundargerðir fyrri funda

Fundargerðir 15., 16. og 17. fundar A-nefndar voru samþykktar með breytingum.

2. Innsend erindi um trúfrelsi rædd

Nefndin ræddi tólf innsend erindi sem kynnt voru á síðasta fundi nefndarinnar, auk eins sem barst Stjórnlagaráði í millitíðinni.

3. Trúfrelsi og jafnræði trúfélaga

Áfram var haldið umræðu um ákvæði sem snerta trúfrelsi og stöðu þjóðkirkjunnar. Nefndarfólk hafði fengið óformlegt álit höfunda skýrslu stjórnlaganefndar, sem voru sammála áliti nefndarinnar, að Stjórnlagaráð hefði ekki umboð til að skera úr um kirkjuskipan ríkisins. Sérfræðingarnir voru hins vegar ekki sammála um nákvæma útfærslu. Taldi Ágúst Þór Árnason að hvers konar breyting á 62. grein núgildandi stjórnarskrár fæli sjálfkrafa í sér breytingu á kirkjuskipaninni, sem jafnvel þyrfti að kjósa sérstaklega um, sbr. 79. grein stjórnarskrárinnar. Björg Thorarensen taldi hins vegar að svo rækilega væri kveðið á um samband ríkis og kirkju í almennum lögum, að jafnvel þótt 62. grein væri felld úr gildi myndi það eitt og sér ekki valda aðskilnaði ríkis og kirkju. Pétur Hafstein, forseti kirkjuþings, taldi hins vegar að með brottfalli 62. greinar væru gefin skilaboð um aðskilnað. Án greinarinnar væri jafnframt óljóst hvaða skyldur ríkið gæti sett á herðar kirkjunni.

Nefndinni þótti rök enn hníga til fyrri niðurstöðu; að senda einfaldað þjóðkirkjuákvæði í þjóðaratkvæði. Með því væri brugðist við flestum athugasemdum sem fram hefðu komið, en jafnframt gæti það tryggt að umræða um stjórnarskrárfrumvarp Stjórnlagaráðs þyrfti ekki að snúast í of miklum mæli um þjóðkirkjuákvæðið.

Dögg Harðardóttir lagðist gegn því að senda þjóðkirkjuákvæðið í þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem brottfall ákvæðisins væru skilaboð um aðskilnað þjóðarinnar við kristni.

Þá ræddi nefndin skilgreiningar á lífsskoðunarfélögum, sem nauðsynlegt væri að hafa sem bestar í greinargerð með frumvarpi Stjórnlagaráðs.

4. Frelsi fjölmiðla og upplýsingaréttur

Nefndinni hafði borist erindi frá Páli Þórhallssyni, þar sem hann gerði athugasemdir við fyrstu drög að ákvæðum um frelsi fjölmiðla og upplýsingarétt. Farið var yfir athugasemdirnar og tekið tillit til þeirra að mestu, þannig að hægt verði að leggja kaflann fram til kynningar á næsta ráðsfundi.

5. Íslensk tunga og önnur gildi

Nefndin ræddi kynjað orðfæri stjórnarskrárinnar og vill kynna öðrum fulltrúum í Stjórnlagaráði tillögu að orðalagsbreytingu. Felst breytingin í því að breyta t.d. „Allir eru jafnir fyrir lögum...“ í „Öll erum við jöfn fyrir lögum“.

6. Önnur mál

Engin rædd.

Eftirtalin erindi voru lögð fram og rædd á fundinum:

• 33633 Ólafur Jón Jónsson: Um samband ríkis og kirkju