19. fundur C-nefndar

31.05.2011 09:30

Dagskrá:

 

  1. Fundargerðir.
  2. Utanríkismál.
  3. Önnur mál.

 

Fundargerð

19. fundur C-nefndar, haldinn 31. maí 2011, kl. 09.30-14.00, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.

Mætt voru: Íris Lind Sæmundsdóttir, varaformaður, sem stýrði fundi, Andrés Magnússon, Guðmundur Gunnarsson og Lýður Árnason. Agnar Bragason ritaði fundargerð.

1. Fundargerðir

Frestað.

2. Kafli um utanríkismál

Rætt um ákvæði um framsal ríkisvalds. Farið yfir valkosti stjórnlaganefndar A og B og óskrifaða reglu um takmarkað framsal sem talin er gilda, m.a. ef það er afmarkað, vel skilgreint, ekki íþyngjandi fyrir íslenska borgara og afturkræft. Rætt um hvort setja eigi þessa óskrifuðu reglu í stjórnarskrá eða fylgja valkostum A eða B.

Spurningar lagðar fram til umræðu:

Hvaða vald er heimilt að framselja? Takmörkun á framsali tilgreindar sérstaklega? Afmörkun valdheimilda? Móttakandi valdheimilda? Tilgangur? Málsmeðferð – samþykki þings/þjóðar?

Í tillögum stjórnlaganefndar er talað um mótttakanda framsals, í hvaða tilgangi á að framselja, hvernig málsmeðferðin skuli vera. Vantar bara skýrar takmarkanir ef svo á að vera.

Rætt var um að tillaga stjórnlaganefndar A sé góður útgangspunktur til að vinna með. Hins vegar rætt um að bæta inn dönsku reglunni um að ef t.d. 5/6 þings samþykkir fullgildingu þá yrði þjóðaratkvæðagreiðslan ekki haldin. Einnig að ef framsal er minni háttar og byggt á fyrirliggjandi samvinnu sem er fyrirsjáanleg þá fylgir það hefðbundinni málsmeðferð í 21. gr. um einfalt samþykki þings.

Skoða þarf orðalag um þjóðréttarsamninga eða samninga við önnur ríki til að gæta samræmis við aðrar greinar.

Efasemdir um að gera þurfi kröfu um mætingu á kjörstað vegna kröfu um 30% verði að hafna tillögu svo hún sé felld. Rætt um hinn þögla meirihluta á móti háværum minnihluta sem getur komið í veg fyrir mál.

Rætt var um ákvæði um forgang þjóðaréttar. Almenn samstaða í nefndinni að Ísland byggi áfram á tvíeðli/dualisma. Rök á bls. 167 í skýrslunni eru ítrekuð.

Rætt var um stöðu forseta í utanríkismálakaflanum.

3. Stjórnlagaráð 2011

19. fundur nefndar C, haldinn 31. maí 2011, kl. 09.30-14.00, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.

4. Önnur mál

Engin önnur mál.

5. Næsti fundur C-nefndar

Ákveðið var að næsti sameiginlegi fundur í C-nefnd yrði miðvikudaginn 1. júní kl. 10.30, en til hans yrði boðað með tilkynningu.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 14.00.