12. fundur B-nefndar

23.05.2011 10:00

Dagskrá:

Dagskrá:

1. Verkáætlun.

2. Kafli um Alþingi - lokayfirferð.

3. Þingræði og vantraust.

Fundargerð

12. Fundur B-nefndar haldinn 23. maí 2011, kl. 10.00, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.
Mætt voru: Katrín Fjeldsted, formaður, Vilhjálmur Þorsteinsson, varaformaður, Pétur Gunnlaugsson, Ástrós Gunnlaugsdóttir og Erlingur Sigurðarson.

Þórhildur Þorleifsdóttir var forfölluð.

Þá sat fundinn Guðbjörg Eva H. Baldursdóttir og ritaði fundargerð.

Formaður, Katrín Fjeldsted, setti fundinn. Gengið var til dagskrár.

1. Verkáætlun nefndarinnar

Á næsta ráðsfundi hinn 26. maí stendur til að klára kaflann um Alþingi og hlutverk þess. Farið var yfir starfsáætlun nefndarinnar. Annaðhvort skal halda aukaráðsfund hinn 27. maí þar sem rætt verður forsetaræði og þingræði, eða halda áfram fundi á fimmtudaginn. Lagt var til að fulltrúar sem eru fylgjandi beinni kosningu á framkvæmdarvaldinu leggi fram tillögu þess efnis á fundinum 27. maí næstkomandi.

Í næstu viku er ákveðið að fjalla um hlutverk og stöðu forseta Íslands. Í fyrstu er hægt að útfæra embættið sem ópólitískt sameiningartákn en bæta svo við hann hlutverkum, ef nefndin og ráðið telur það þurfa.

Gísli Tryggvason mætti á fundinn kl. 10.15.

2. Kafli um Alþingi

Ákveðið var að klára kaflann og í fyrstu fjallað almennt um þingmenn.

· Drengskaparheit; Samþykkt að ákvæði um drengskaparheit haldi gildi sínu en orðalagi breytt á þann veg að nota framsöguhátt og beina ræðu, „vinnur" í stað „skal vinna".

Tekið var dæmi úr finnsku stjórnarskránni þar sem orðalagið er talsvert hátíðlegra og vísar til þess að fylgja stjórnarskránni. Samþykkt var að setja inn að þingmenn skuli bundnir við stjórnarskrá í sínum störfum.

· Friðhelgi þingmanna; lagðar voru fram breytingar stjórnlaganefndar þar sem skýrt er tekið fram að einungis sé um að ræða sakamál. Nefndin var almennt samþykk því orðalagi. Rætt var um hvort bæta ætti „eða játi sekt sína" við ákvæðið. Rætt var um hvort nýting á rannsóknarheimildum gagnvart þingmönnum ætti að nefna jafnframt.

Eiríkur Bergmann Einarsson mætti á fundinn kl. 10.28.

· Kjörgengi; Rætt var um kjörgengi þingmanna og missir kjörgengis - lögð til orðalagsbreyting til einföldunar. Bætt við 2. málslið að varamaður taki sæti í stað þingmanns sem glatar kjörgengi, þá sé ferlið skýrt og til samræmis við orðalag annarra ákvæða. Nefndarmenn ræddu hvort afnema ætti kjörgengisskilyrði um óflekkað mannorð m.a. vegna þess að kjósendur eigi að hafa frelsi til að kjósa þá menn á Alþingi sem þeir vilja.

· Friðhelgi þingsins; á að tákna að Alþingi eigi að búa við ákveðið öryggi. Samþykkt óbreytt þótt lagt væri til að orðið öryggi kæmi í stað orðsins friðar.

· Starfstími Alþingis; samkvæmt þessu verða að vera tvær vikur eftir kosningar sem þarf að gilda um þingrof jafnframt. Hins vegar talið óþarft að hafa fastan dag í stjórnarskránni, en nefnt að meirihluti fari að hringla með daginn og það sé tilgangurinn. Nefndarmönnum finnst þó eðlilegra að starfstími Alþingis sé ákveðinn með þingsköpum.

· Samkomustaður Alþingis; stjórnlaganefnd hefur einfaldað ákvæðið og heimilar Alþingi að funda annars staðar. Í Svíþjóð er það þingið eða forseti þingsins sem tekur ákvörðun um að halda fund annars staðar. Samþykkt orðalagið að forseti þings geti jafnframt tekið ákvörðun í þeim efnum – þá er orðalagið að „koma saman annars staðar á Íslandi."

· Ein málstofa og opnir fundir; ákvæði um eina málstofu. Fundir Alþingis eru haldnir í heyranda hljóði. Ef breytingar verða gerðar á kosningakerfi kann það þó að leiða til þess að þingið verði deildaskipt. Samþykkt að ein málstofa verði innan hornklofa.

· Ályktunarbærni - þ.e. að helmingur þurfi að sitja til að álykta um mál. Nóg að 31 sé viðstaddur og meirihluti samþykki það, samþykkt að slíkt sé óbreytt

Þá var rætt hvort sameina ætti einhver ákvæði til að fækka þeim.

3. Þingræði og vantraust

Rætt var um hvort þingið eigi að taka ákvörðun sína um ráðherra með kosningum eins og gert er í Svíþjóð. Myndun ríkisstjórnar eigi að fara fram í skjóli forsætisráðherra, en þingið geti rekið forsætisráðherra og einstaka ráðherra. Forsætisráðherra er kjörinn af þingi og svo leggur hann til lista um hvaða ráðherrar veljast í ríkisstjórn. Forsætisráðherra ber því ábyrgð á ríkisstjórn í heild og getur sett af einstaka ráðherra en þingið getur sett fram vantraust á einstaka ráðherra. Því geti þing og forsætisráðherra rekið ráðherra.

Í Þýskalandi er ákvæði um jákvætt vantraust, í því felst að sérhver tillaga verður að fela í sér kjör nýs forsætisráðherra. Nefndarmönnum líst almennt vel á það, enda þarf minnihluti að vera ábyrgur í sínum málflutningi með því að leggja til eftirmann.

Tímaás:

· Kosningar - þing kemur saman (2 vikur)

· Prófun kjörbréfa (dómstóll) sem prófa kjörbréf (landskjörstjórn/hefst strax)?

· Kosning forseta 2/3

· Stjórnarmyndun

· Ný ríkisstjórn, þingstörf

Nefnt var að þingið ætti ekki að ákveða hvernig skipta ætti verkefnum ráðuneytanna. Nú er staðan sú að ákveðið er með forsetaúrskurði (reglugerð), að frumkvæði forsætisráðherra, hvernig verkefnum er skipt á milli ráðuneyta sem og tala þeirra. Í lögum um Stjórnarráð Íslands er tala ráðuneyta enn fremur útfærð.

Ákveðið var að ráðherrar ákveði skipan ráðuneyta. Gert er ráð fyrir því að það sé án atbeina þingsins þannig að slíkt sé ekki ákveðið í lögum. Framkvæmdastjóri eigi að ákveða sjálfur sín verkefni og hvernig verkefni skiptast þar á milli.

Vantraust sé lagt fram án þingrofs á forsætisráðherra, en mælt með arftaka um leið. Starfsstjórn þarf að sitja varðandi þingrofið.

Nefndur er sá kostur breytinganna að í kosningabaráttu myndi strax vera ljóst hver sé forsætisráðherraefni á hverjum tíma.

· Takmörkun á setutíma ráðherra.

Við mat á starfstíma forsætisráðherra komi fyrri reynsla ekki til skoðunar. Takmarka setutíma forsætisráðherra, ekki lengur en þrjú kjörtímabil.

Rætt var um hvort setja ætti takmörk á tímasetu þingmanna. Ekki var almennur vilji til þess.

Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 16.00.