6. fundur B-nefndar

10.05.2011 13:33

Dagskrá:

1. Vinnufundir

2. Yfirferð yfir 22 efnisatriði.

3. Önnur mál.

 

Fundargerð

6. fundur B-nefndar haldinn 10. maí 2011, kl. 9.30, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.

Mætt voru: Katrín Fjeldsted, formaður, Vilhjálmur Þorsteinsson, varaformaður, Pétur Gunnlaugsson, Ástrós Gunnlaugsdóttir, Erlingur Sigurðarson, Þórhildur Þorleifsdóttir, Eiríkur Bergmann Einarsson og Gísli Tryggvason.
Þá sat fundinn Guðbjörg Eva H. Baldursdóttir og ritaði fundargerð.

1. Vinnufundir

Nefnd var skipt upp í tvo hópa. Annar hópurinn; Katrín, Þórhildur, Gísli, Pétur og Eiríkur ræddu eftirlitshlutverk Alþingis af frekari dýpt.
Ástrós, Vilhjálmur, Erlingur ásamt nefndarritara héldu áfram vinnu við skjal: Styrking löggjafarvalds gagnvart framkvæmdarvaldinu. Í skjalinu er að finna greinargerð um hvert og eitt þeirra 22 atriða sem samþykkt var að skoða nánar á 5. fundi nefndarinnar. Undir hverju atriði er tillaga stjórnlaganefndar útlistuð og núgildandi stjórnarskrárákvæði ef því er til að dreifa.

2. Yfirferð yfir 22 efnisatriði

Formaður, Katrín Fjeldsted, setti fundinn kl. 13.30.
Vilhjálmur gerði grein fyrir þeim 22 atriðum sem hópurinn hafði unnið um morguninn og í gærkvöld. Í lok hvers efnisatriðis var mótuð tillaga að stjórnarskrárákvæði, ef nefndarmenn náðu samstöðu um orðalag.
Formaður tilkynnti nefndarmönnum að nefndin fengi lengri tíma til funda á sameiginlegum nefndafundi. Samþykkt að leggja fyrir sameiginlegan nefndafund á morgun tillögur sem miða að eflingu löggjafarvalds gagnvart framkvæmdarvaldi og gætu mögulega staðið sjálfstætt óháð því hvort þingræðisfyrirkomulagið verður viðhaft eða framkvæmdarvaldið kosið beint.
Þá var samþykkt að leggja fyrir lista yfir þau 22 atriði sem hafa verið nefnd til að styrkja löggjafarvald gagnvart framkvæmdarvaldi.
Tillaga að dagskrá er svohljóðandi:
- Lagt fram skjal til umræðu um leiðir til að styrkja löggjafarvald gagnvart framkvæmdarvaldinu (á rafrænu formi).
- Umræða um þingræðisfyrirkomulagið andspænis því að kjósa framkvæmdarvaldið beint.

3. Önnur mál

Nefndarritara gert að taka saman gögnin fyrir fund á morgun, annars vegar blað með 22 atriðum og svo tillögur frá 1-4.

Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 16.00.

Eva H. Baldursdóttir ritaði fundargerð.