10. fundur B-nefndar

17.05.2011 09:30

Dagskrá:

1. Fundargerðir lagðar fram til samþykktar.

2. Framh. frá fundi dags. 16. maí 2011.

Fundargerð

10. fundur B-nefndar haldinn 17. maí 2011, kl. 09.30, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.

Mætt voru: Katrín Fjeldsted, formaður, Vilhjálmur Þorsteinsson, varaformaður, Pétur Gunnlaugsson, Ástrós Gunnlaugsdóttir, Erlingur Sigurðarson, Þórhildur Þorleifsdóttir, Eiríkur Bergmann Einarsson og Gísli Tryggvason.
Guðbjörg Eva H. Baldursdóttir ritaði fundargerð.

Formaður, Katrín Fjeldsted, setti fundinn. Gengið var til dagskrár.

1. Fundargerðir 4.–6. lagðar fram til samþykktar

Fundargerðir 4.-6. lagðar fram og samþykktar.

2. Framh. umræðna frá því deginum áður – vinnufundur

Nefndarmenn ræddu um embætti Umboðsmanns Alþingis. Tillaga stjórnlaganefndar gengur út á að stjórnarskrárbinda embættið og gera stuttlega grein fyrir hlutverki hans. Ekki er mælt fyrir um álit hans eða tilmæli eða hvort þau séu bindandi eður ei. Nefndarmenn rökræddu hvort breyta ætti tillögu stjórnlaganefndar og auka við sjálfstæði Umboðsmanns m.a. hvort veita ætti Umboðsmanni sjálfstæðan málshöfðunarrétt eða sjálfstæðan rétt til að veita einstaklingi gjafsókn ef álit hans hefur leitt í ljós að brotið er á réttindum einstaklinga í meðförum stjórnvalda. Markmið slíkra breytinga yrði að gera embættið virkara og að farið yrði eftir álitum og tilmælum Umboðsmanns. Hugsanlega sé þörf á að tilmæli hans séu bindandi fyrir stjórnvöld til að tryggja að farið sé eftir þeim.

Ýmsar hugleiðingar komu fram, t.d. að stjórnvöld skuli virða álit og tilmæli Umboðsmanns eða notast við sterkara orðalag eins og „hlíta“. Bent var á að ekki sé ljóst hvernig slíkt skuli fara fram, t.d. hvernig stjórnvöld eigi að bregðast við og hvort þau séu þá bindandi af tilmælum Umboðsmanns. Þá var rætt hvaða úrræði stjórnvöld hefðu til að hnekkja úrlausn Umboðsmanns ef þau teldu hana ranga. Reifað var að þá hefði Umboðsmaður eins konar dómsvald.

Ýmis atriði voru rædd eins og aukið álag í dómskerfi, breyting á eðli embættisins, t.d. að verða stór lögmannsstofa, og hvernig skyldi fara með mál þegar einstaklingar gætu átt rétt á bótum, t.a.m. þegar ráðning er talin ólögmæt eða brjóta í bága við stjórnsýslurétt. Í slíkum tilvikum þyrftu einstaklingar að höfða mál til að sækja fjárhagslegar bætur í núverandi kerfi, en myndi álit Umboðsmanns leiða til þess?
Bent var á að í sænsku stjórnarskránni er tekið fram að Umboðsmaður megi höfða mál sem er nánar útfært í lögum. Spurning hvort slíkt ákvæði þjónaði ekki því markmiði að stjórnvöld færu frekar eftir álitum hans, ef hann hefði úrræði til málareksturs í sínu nafni eða í umboði viðkomandi einstaklings. Sett var fram tillaga þess efnis.

Þá var jafnframt mótuð tillaga að ákvæði um gjafsókn þannig að Umboðsmaður hefði sjálfstæðan rétt til að veita einstaklingi gjafsókn til að sækja rétt sinn frekar teldi Umboðsmaður stjórnvald hafa brotið lög eða rétt hans að öðru leyti. Hugleiðingar voru um hvort slíkt ákvæði ætti frekar heima í lögum eða greinargerð.
Þá var lögð fram tillaga að eftirfarandi orðalagi í 2. mgr.: „Stjórnvaldi er skylt að bregðast við áliti og tilmælum Umboðsmanns Alþingis.“ Með þessu orðalagi sé sett ákveðin þumalskrúfa á stjórnvöld þannig að þau eru skylduð til viðbragða ef þau eru talin hafa brotið af sér, engu að síður eru álitin ekki bindandi. Nefnt var hvort bæta ætti inn í ákvæði um víðtækan rétt Umboðsmanns til upplýsinga.

Fram kom það sjónarmið að það að tilmæli hans væru bindandi væri rangt að segja að hann yrði ígildi dómstóls. Bent var á að stjórnvöld taka ítrekað bindandi ákvarðanir um réttindi og skyldur fólks.
Önnur tillaga að ákvæði er svohljóðandi: „Tryggt skal í lögum að stjórnvöld virði niðurstöður Umboðsmanns og borgarar hafi virk úrræði til að stjórnvöld bregðist við.“

Fundi var frestað til 13.30.

Nefndarmenn ákváðu að bíða með ákvæði um Umboðsmann Alþingis að svo stöddu og ganga í næsta lið.

Eftirfarandi tillögur að ákvæðum voru samþykktar:

  • Ríkisendurskoðun.
  • Hagsmunaskráning ráðherra og þingmanna: vanhæfi

Ákveðið var að bæta við tillögu stjórnlaganefndar ákvæði um hæfi ráðherra. Nefnd B leggur til að bætt sé við ákvæði um hæfi ráðherra sem verður flutt í kafla um ráðherra og ríkisstjórn (framkvæmdarvaldið). Almennt orðalag og gengið út frá því að ráðherra geti ekki sinnt launuðum störfum fyrir aðra og einnig í þágu opinberra stofnana.
Umræða um hvort ráðherrar eigi að geta sinnt ólaunuðum störfum svo sem verið í félagasamtökum eins og stjórn íþróttafélaga almennt. Raunar hafi ráðherrar mikil áhrif innan íþróttafélaga og sæki þar fylgi sitt, hins vegar sé álitamál hversu langt skuli ganga í þessum efnum.

Nefndarmenn ræddu jafnframt hvort sömu sjónarmið eigi að gilda um þingmenn þ.e. að þeir segi af sér launuðum störfum fyrir einkarekin fyrirtæki eða aðrar opinberar stofnanir.
Nefndi mun því leggja til sex ákvæði til kynningar á sameiginlegum nefndafundi á morgun og ráðsfundi í kjölfarið.

  • Lagasetning og þingmál
  • Þingrof
  • Eftirlits- og stjórnskipunarnefnd
  • Rannsóknarnefndir
  • Ríkisendurskoðandi
  • Umboðsmaður Alþingis (orðalagið virða eða bregðast við)
  • Hagsmunaskráning þingmanna/ráðherra

3. Önnur mál

Rætt um tímaplan og næstu verkefni. Tillögur þurfa að liggja fyrir ráðsfundi ekki síðar en 16. júní næstkomandi. Ákveðið að dagskrá mánudagsfundar verði ákvæði Alþingiskaflans sem út af standa, t.d. um friðhelgi þingmanna og þings og samkomustað Alþingis.
Nefndarmenn samþykktu jafnframt að fjalla um sveitarfélög og fjárstjórnarhlutverk Alþingis.

Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 16.15.
Eva H. Baldursdóttir ritaði fundargerð.