4. fundur C-nefndar

03.05.2011 09:30

Dagskrá:
  1. Framhaldsumræða um dómsvaldið
  2. Framhaldsumræða um Lögréttu
  3. Framhaldsumræða um kosningaskipan
  4. Önnur mál

 

Fundargerð

4. fundur C-nefndar, haldinn 3. maí 2011, kl. 9.30–12.00 og 13.00–15.05, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.

Mætt voru: Pawel Bartoszek formaður, Andrés Magnússon, Ari Teitsson, Guðmundur Gunnarsson, Íris Lind Sæmundsdóttir, varaformaður, Lýður Árnason, Ómar Þorfinnur Ragnarsson og Þorkell Helgason. Agnar Bragason ritaði fundargerð.

1. Framhaldsumræða um dómsvaldið

Rætt um að nota fremur orðið skipan dómstóla fremur en skipun dómsvalds í D1.

Rætt um orðalag tillögu til að tryggja óbreytta starfsemi Félagsdóms, með því að færa inn í dómstólakaflann í ákvæði D4 um sérstakan dómstól um réttindi tengd vinnuréttarmálum:

Ákveða má með lögum að sérstakur dómstóll skuli leysa endanlega úr ágreiningi um kjarasamninga og lögmæti vinnustöðvana, þó þannig að ákvörðunum hans um refsingu verði skotið til Hæstaréttar. Láta skoða hvort þessi setning raski nokkuð við Félagsdómi. Markmið greinar D4 í heild er skýra lögsögu Hæstaréttar sem æðsta dómstóls og koma í veg fyrir nýja sérdómstóla í almennum lögum.

Rætt um breytta uppröðun ákvæða í dómstólakaflanum en umræða geymd þar til efnisleg niðurstaða liggur fyrir.

2. Framhaldsumræða um Lögréttu

Rætt um hvort skilgreina þurfi Lögréttu betur í texta ákvæðisins, var í raun orðalagsbreyting en kom í stað orðsins stjórnlagaráð.

Nefndin sammála um hverjir geti óskað eftir áliti en náði ekki saman um skipun í ráðið, um hvort einn fulltrúi verði þjóðkjörinn eða ekki.

Einnig þarf að ræða þá stöðu sem upp kann að koma ef forseti óskar álits og Lögrétta kemst að því að nýsamþykkt lög frá Alþingi fari gegn stjórnarskrá. Þá er athugavert að hann geti vísað lögunum til þjóðarinnar. Finna þarf lausn á þessu en þarf að sjá hvað nefnd B gerir varðandi málskotsréttinn.

Rætt um önnur möguleg verkefni Lögréttu sbr. umræðu síðasta nefndarfundar en ákveðið að leggja fyrir ráðsfund til kynningar.

3. Framhaldsumræða um kosningaskipan

Rætt um hver séu markmiðin með breytingu á kosningakerfinu áður en farið er út í leiðirnar, og byggt á þeim markmiðum sem lögð voru fram og rædd á síðasta fundi nefndarinnar.

Rætt um að einnig þurfi að ræða vald peninga og fjölmiðla í samhengi við kosningalög, og hvort þyrfti að vera ákvæði í stjórnarskrá sem drægi úr misvægi á aðstöðu og peningum en ekki einungis um misvægi atkvæða milli landsvæða.

Rætt um tillögu lýðræðisfélagsins Öldu um slembikosningar.

Nefndin nokkuð sammála um markmiðin sem sett voru í byrjun en ekki einhugur um leiðir til að ná þeim.

4. Önnur mál

Engin önnur mál.

5. Næsti fundur C-nefndar

Ákveðið var að næsti fundur í C-nefnd yrði skv. dagskrá, miðvikudaginn 4. maí kl. 15.00. Hann yrði opinn fyrir alla fulltrúa en til hans yrði boðað með tilkynningu.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15.05.