3. fundur C-nefndar

02.05.2011 10:00

Dagskrá:
 1. Fundargerðir 1. og 2. fundar bornar upp til samþykktar
 2. Samantekt af umræðum ráðsfundar
 3. Umræða um stjórnlagadómstól og stjórnlagaráð
 4. Inngangsumræða um kosningar og kjördæmaskipan
 5. Önnur mál

Fundargerð

3. fundur C-nefndar, haldinn 2. maí 2011, kl. 10.00–12.00 og 13.00–17.00, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.

Mætt voru: Pawel Bartoszek, formaður, Andrés Magnússon, Ari Teitsson, Guðmundur Gunnarsson, Íris Lind Sæmundsdóttir, varaformaður, Lýður Árnason og Ómar Þorfinnur Ragnarsson. Þorkell Helgason boðaði forföll til kl. 12.00. Agnar Bragason ritaði fundargerð.

1. Fundargerðir 1. og 2. fundar bornar upp til samþykktar

Engar athugasemdir bárust og þær því samþykktar.

2. Samantekt af umræðum ráðsfundar

Umræða um hvort taka ætti út seinni málsl. 60. gr. stjórnarskrár (3. mgr. D6) og hvort það gæti skapað óvissu um upphaf réttaráhrifa stjórnvaldsákvarðana ef leitað sé endurskoðunar á þeim. Einnig rætt að setja inn í ákvæðið heimild stjórnvalda til að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar ef afleiðing sé verulega íþyngjandi. Ákveðið að bera þessar hugleiðingar undir fræðimenn áður en lengra er haldið með þetta atriði.

Rætt um sérdómstóla, hvort það sé rétt að byggja á opnu ákvæði eða hvort það eigi að taka af allan vafa um að Hæstiréttur sé æðsti dómstóll í öllum málum. Þetta tengist umræðu um Landsdóm, Félagsdóm og mögulegan stjórnlagadómstól. Rætt um hvort setja eigi svipað ákvæði og í Danmörku um bann við nýjum sérdómstólum.

Rætt um hlutverk forseta við skipun dómara. Hugmyndir um stutt rammaákvæði að norrænni hefð eða ítarlegt ákvæði, en í báðum tilvikum er gert ráð fyrir staðfestingu Alþingis ef sá sem skipar fer út fyrir mat hæfnisnefndar. Rætt um hvernig verður skipað í hæfnisnefndina í ljósi þess hve mikil áhrif hún hefur.

Umræða um hvort standa eigi (í D6) dómendur eða dómarar, eðlilegt að hafa samræmi milli ákvæða. Einnig rætt um uppröðun ákvæða og hvort setja ætti í stjórnarskrá fjölda dómstiga og hæstaréttardómara.

3. Umræða um stjórnlagadómstól og stjórnlagaráð

Dreift var vinnuskjali með tillögum stjórnlaganefndar þar sem lagt er til að komið verði á fót sérstöku álitsgefandi stjórnlagaráði, sbr. 44. gr. og 80. gr. valkosts A, og 47. gr. og 71. gr. valkosts B.

Valkostur B gengur lengra og er í samhengi við áframhaldandi málskotsrétt forseta og miðaðist umræðan við valkost B.

Samstaða um að stjórnlagaráð í þeirri mynd sem sett er fram í tillögum stjórnlaganefndar ætti frekar að heita Lögrétta af sögulegum ástæðum.

Spurningar sem nefndin setti fram til umræðu:

 1. Eiga eingöngu lögfræðingar að sitja í Lögréttu?
 2. Hvernig á að skipa í Lögréttu?
 3. Hver á að geta vísað málum til Lögréttu?
 4. Mun Lögrétta einungis fjalla um ný lög og frumvörp?
 5. Mun Lögrétta vera ráðgefandi eða hafa ákvörðunarvald?
 6. Hvað á Lögrétta að meta?

Rætt um að það sitji ekki einungis lögfræðingar í Lögréttu, það sé ekki skilyrði, þó líklegt sé að þeir hafi fremur góða yfirsýn og vald á stjórnlögum.

Rætt um að Alþingi geri tillögu um tvo en ekki einn fulltrúa til setu í Lögréttu, m.a. til að gefa stjórnarandstöðu möguleika á fulltrúa. Aðkoma forseta tryggi lýðræðislegt umboð til að skipa. Einnig var rædd aðkoma almennings að skipun Lögréttu, með kosningu eins fulltrúa.

Rætt um Lögréttu sem ráðgefandi nefnd við lagasetningu sbr. tillögur stjórnlaganefndar, en einnig rætt um hvort Hæstiréttur gæti vísað málum til Lögréttu til ráðgefandi álits í dómsmáli. Einnig rætt að fela Lögréttu að fjalla um kjörgengi og kjörbréf alþingismanna, úrskurða um stjórnskipulegt gildi laga og skera úr um ráðherraábyrgð í stað Landsdóms.

Rætt um hvort heppilegt sé að Lögrétta meti þjóðréttarlegar skuldbindingar, það á að vera í höndum almennra dómstóla, en umræðan er háð hvernig meðferð alþjóðasamninga verður í nýrri stjórnarskrá.

Samþykkt að leggja fyrir ráðsfund tillögu sem gerir ráð fyrir að Lögrétta sé ráðgefandi og starfi til að auka gæði lagasetningar sbr. tillögur stjórnlaganefndar. Hins vegar má halda áfram umræðum um atriði sem leiða til frekari verkefna eins og lýst hefur verið.

4. Inngangsumræða um kosningar og kjördæmaskipan

Rætt um að taka stefnumarkandi umræðu án þess að fara út í nákvæmar útfærslur fyrst um sinn.

Rædd voru m.a. þau markmið að efla lýðræði og áhrif einstakra kjósenda, að styrkja tengsl alþingismanna og kjósenda, að draga úr flokksræði við val á þingmönnum, að raddir sem flestra svæða heyrist á Alþingi og að nýta gæði landsins og styrkja búsetu.

Rætt um aukið vægi persónukjörs og landið sem eitt kjördæmi, og hvernig einstök landsvæði muni laga sig að breyttu fyrirkomulagi með því að flokkar myndu bjóða fram fleiri lista. Jafn atkvæðaréttur væri mannréttindi. Einnig bent á að jöfnun atkvæða hefði meiri áhrif innan flokka en á þingmannafjölda flokka. Einnig rætt að það væru fleiri þættir en landsvæði sem sameina hagsmuni og hugðarefni hópa.

Rætt um blandaða leið til að minnka misvægi atkvæða. Einnig rætt hvernig hægt væri að færa fjárstjórnarvaldið í þessu samhengi í auknum mæli til sveitarfélaga.

Rætt um niðurstöður þjóðfundar um jöfnun atkvæða og vilja ráðsmanna í þá veru en ekki einróma vilji um leiðir.

Rætt um að mikilvægt væri að bjóða upp á valkosti fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um frumvarpið, þannig að fólk hafni ekki heilum kafla vegna eins atriðis.

5. Önnur mál

Engin önnur mál.

6. Næsti fundur C-nefndar

Ákveðið var að næsti fundur í C-nefnd yrði skv. dagskrá, þriðjudaginn 3. maí kl. 9.30 en til hans yrði boðað með tilkynningu.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17.00.