2. fundur C-nefndar

27.04.2011 10:00

Dagskrá:
  1. Framhaldsumræða um sjálfstæði dómstóla
  2. Önnur mál

Fundargerð

2. fundur C-nefndar, haldinn 27. apríl 2011, kl. 10.00-12.00 og 13.00-14.30, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.

Mætt voru: Pawel Bartoszek, formaður, Andrés Magnússon, Ari Teitsson, Íris Lind Sæmundsdóttir, varaformaður, Lýður Árnason, Ómar Þorfinnur Ragnarsson og Þorkell Helgason. Guðmundur Gunnarsson boðaði forföll. Agnar Bragason ritaði fundargerð.

1. Framhaldsumræða um sjálfstæði dómstóla

91. gr. valkosta stjórnlaganefndar A og B

Rætt var um hve ítarlega ætti að kveða á um skipun dómara í stjórnarskrá, en ítarleg ákvæði um slíkt gengur gegn norrænni lagahefð. Fundarmenn sammála um að við ráðningu dómara eigi að ríkja fagleg sjónarmið en ekki pólitísk. Rætt um hvers konar kerfi tryggir slíkt best.

Samstaða var um að miða umræðuna fremur við valkost B í skýrslu stjórnlaganefndar. Rætt um að dómarar geti verið skipaðir ótímabundið eða til ákveðins tíma eins og aðrir embættismenn, t.a.m. til 15 ára í senn. Flestir mátu það svo að ótímabundin skipun tryggði best sjálfstæði dómstóla sem tryggir best rétt borgaranna um óvilhallan dómstól gagnvart stjórnvöldum.

Þá var rætt um hvernig dómarar eru skipaðir í dag, og hvort forseti ætti að geta skipað dómara með eða án tillögu ráðherra. Flestir voru á því að forseti myndi skipa án tillögu ráðherra en tryggja yrði að hæfni og málefnaleg sjónarmið ráði, í formi nefndar sem mæti hæfi og gerði tillögur til forseta.

Einnig var rætt um þá hugmynd að dómarar yrðu kosnir í almennum kosningum af þjóðinni. Lögfræðingar séu of einsleitur hópur til að einoka mat á hæfi og málefnalegum sjónarmiðum. Á móti var spurt hvort það myndi tryggja nægilega réttindi minnihlutahópa. Í þessum efnum væri heppilegra að dreifa valdinu innan stjórnkerfisins í stað almennra kosninga um dómsvaldið.

Þá var rætt að tryggja þyrfti aðkomu Alþingis að skipuninni ef sá sem skipar fer ekki að tillögum hæfnis- eða matsnefndar. Tillögur stjórnlaganefndar virðast ekki tryggja þá framkvæmd heldur.

Einnig var rætt um hvort sú stofnun sem nefnist Stjórnlagaráð í skýrslu stjórnlaganefndar væri heppileg til að meta hæfi og málefnaleg sjónarmið við skipun dómara. Einnig var rætt um aðkomu erlendra sérfræðinga en þýðingarkostnaður gæti orðið mikill.

1. málsl. 61. gr. stjórnarskrár og 92. gr. valkosta stjórnlaganefndar A og B

Rætt var um hvort skýra þurfi frekar orðalagið með lögum þar sem merkingin sé í víðari merkingu hugtaksins og þýði í raun allar viðurkenndar réttarheimildir.

Ákveðið að nefnd C muni leggja fram til kynningar fyrir ráðsfund 28. apríl breytingar á uppbyggingu áfangaskjals Stjórnlagaráðs um dómsvaldið.

2. Önnur mál

Engin önnur mál.

3. Næsti fundur C-nefndar

Ákveðið var að næsti fundur í C-nefnd yrði skv. dagskrá, mánudaginn 2. maí kl. 10.00, en til hans yrði boðað með tilkynningu.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 14.30.