1. fundur C-nefndar

26.04.2011 10:30

Dagskrá:
  1. Tillaga formanns um verklag
  2. Umræður um dómsvaldið
  3. Önnur mál

 

 

Fundargerð

1. fundur C-nefndar, haldinn 26. apríl 2011, kl. 10.30-12.00 og 13.00-16.00, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.

Mætt voru: Pawel Bartoszek, formaður, Andrés Magnússon, Ari Teitsson, Íris Lind Sæmundsdóttir, varaformaður, Lýður Árnason, Ómar Þorfinnur Ragnarsson og Þorkell Helgason. Guðmundur Gunnarsson boðaði forföll. Agnar Bragason ritaði fundargerð.

1. Tillaga formanns um verklag

Formaður lagði til það verklag að nefndin byrji á að fjalla um kafla stjórnarskrárinnar sem snýr að dómsvaldinu. Í framhaldinu verði svo ákveðið hvað muni verða tekið fyrir næst.

2. Umræður um dómsvaldið

Rætt var um að nálgast viðfangsefnið út frá hugsanlegum vanköntum á stjórnarskránni og tillögum stjórnlaganefndar og lagði formaður fram vinnuskjal sem inniheldur greinar stjórnarskrár um dómsvaldið ásamt valkostum stjórnlaganefndar A og B.

Helstu álitaefnin væru varðandi skipun dómara og staða Hæstaréttar sem æðsta dómstóls gagnvart sérdómstólum.

Um einstakar greinar

2. gr. stjórnarskrár og 2. gr. valkosta stjórnlaganefndar A og B

Rætt var um 2. gr. stjórnarskrár og valkosti stjórnlaganefndar. Almenn sátt var um orðalagið í valkostum A og B að því er varðar dómsvaldið.

87. gr. valkosta stjórnlaganefndar A og B

Rætt var um hvort orðið dómsvald geti verið víðtækara en orðið dómstóll sbr. mun á valkostum A og B. Mikilvægt að gæta samræmis í textanum.

Almenn samstaða um efnisatriði í valkostum A og B.

88. gr. valkosta stjórnlaganefndar A og B

Rætt var um mikilvægi þess að dómstólar sinni aðeins dómstörfum en þó velt upp hugleiðingum um hvernig hægt sé að túlka orðin samkvæmt venju eða eðli sínu.

Rætt um orðalagsbreytingu þannig að seinni málsliður hljómi: Dómstólar mega hvorki sinna störfum sem samkvæmt venju eða eðli sínu heyra undir aðra valdþætti ríkisins né má fela þeim slíkt með lögum.

Almenn samstaða um efnisatriði í valkostum A og B.

89. gr. valkosta stjórnlaganefndar A og B

Rætt var um hvort hægt sé að finna alþýðlegra orðalag en að einkarétti. Einnig var rætt um hvort í stað orðalagsins að leysa úr um stjórnskipulegt gildi laga mætti setja inn meta hvort lög standist stjórnarskrá. Ekki útrætt þar sem stjórnskipunarlög geta verið víðtækara hugtak en stjórnarskrá. Möguleiki á að setja útskýringu í greinargerð um að ekki sé efnisleg breyting þótt orðalagi geti verið breytt. Einnig verði að skoða aðkomu mögulegs stjórnlagadómstóls í þessu samhengi.

Umræða um orðalagið hjá ákvörðun stjórnvalds verður ekki komist í bráð í stað það frestar ekki ákvörðun stjórnvalds en áfram miðað við orðalag stjórnlaganefndar í bili.

Almenn samstaða um orðalag og efnisatriði í valkosti B.

90. gr. valkosta stjórnlaganefndar A og B

Rætt var um stöðu Hæstaréttar Íslands sem æðsta dómstóls. Samstaða var um valkost B.

Hugleiðingar um hvernig hægt sé að tryggja áfram starfsemi Félagsdóms, t.d. með því að tala um lögbundna gerðardóma eða vísa beint til dómstóls um vinnudeilur. Rætt var um að ekki megi gefa löggjafanum frjálsa heimild til að geta stofnað til nýrra sérdómstóla með almennum lögum, t.a.m. er í stjórnarskrá Danmerkur bannað að stofna til nýrra sérdómstóla með almennum lögum.

Umræða um Landsdóm og hugsanlegan stjórnskipunardómstól sem á eftir að fara fram hafa líka áhrif á þessa grein, hvernig orðalag eða upptalning verður í seinni hluta greinarinnar.

3. Önnur mál

Engin önnur mál.

4. Næsti fundur C-nefndar

Ákveðið var að næsti fundur í C-nefnd yrði skv. dagskrá, miðvikudaginn 27. apríl kl. 10.00, en til hans yrði boðað með tilkynningu. Þá yrði rætt sérstaklega um stjórnlagadómstól, stjórnlagaráð og skipun dómara.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16.00.