5. fundur C-nefndar - sameiginlegur

04.05.2011 15:00

Dagskrá:
  1. Kafli um dómstóla
  2. Kafli um Lögréttu (stjórnlagaráð)
  3. Önnur mál

 

Fundargerð

5. fundur C-nefndar, haldinn 4. maí 2011, kl. 16.00–17.30, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.

Mætt voru: Pawel Bartoszek formaður, Andrés Magnússon, Erlingur Sigurðarson, Freyja Haraldsdóttir, Gísli Tryggvason, Guðmundur Gunnarsson, Íris Lind Sæmundsdóttir, varaformaður, Katrín Oddsdóttir, Ómar Þorfinnur Ragnarsson, Vilhjálmur Þorsteinsson og Þorkell Helgason. Agnar Bragason ritaði fundargerð.

1. Umræða um kafla um dómstóla

Rætt um breytta uppröðun dómstólakaflans, t.a.m. með því að byrja á D2, svo D6 og svo hin ákvæðin. Ákveðið að geyma þá umræðu þar til kaflinn er efnislega klár.

Rætt um að varhugavert gæti verið í D1 að fela almenna löggjafanum og stjórnvöldum ákvörðunarvald um fjölda dómara með lagasetningu og bæri að setja inn hámarksfjölda hæstaréttardómara í stjórnarskrá.

Rætt um orðalag hvort dómstólar skeri endanlega úr um sök og viðurlög í D2 hafi áhrif á lok mála með lögreglustjórasátt.

Rætt um orðalag um hvort lög standist stjórnarskrá feli í raun í sér sama skilning og orðalag um mat á stjórnskipulegu gildi laga. Það sé meira í takt við almenna málvenju.

Rætt um hvort það hrófli við núverandi réttarástandi varðandi réttaráhrif stjórnvaldsákvarðana að taka út 2. málsl. 3 mgr. D3 um að hjá ákvörðun stjórnvalds verði ekki komist í bráð með því að bera lögmæti hennar undir dóm.

Rætt um að ákvörðunum sérstaks dómstóls um kjarasamninga og lögmæti vinnustöðvana gæti verið skotið til æðri dóms í stað dómstóla í 2. mgr. D4.

Rætt um að bæta inn í 2. mgr. D5 að tryggja skuli með lögum hæfni og málefnaleg sjónarmið við veitingu embætta dómara, og ef sá sem skipar fer ekki eftir hæfnisnefnd þá sé skipunin háð aukins meirihluta (2/3) Alþingis í stað einfalds meirihluta.

Rætt um að sameina 3. mgr og 4. mgr. D5 og tryggja að orðalag girði ekki fyrir að dómara verði veitt lausn um stundarsakir eins og gildir í núverandi réttarástandi.

Rætt um að í orðalaginu með lögum í D6 er átt við allar viðurkenndar réttarheimildir.

2. Umræða um kafla um Lögréttu

Rætt um orðalagið sérþekkingu á stjórnlögum, hvort það útiloki aðra en lögfræðinga til setu. Almennt talið svo ekki vera en breyta má orðalaginu í þekkingu.

Rætt um hvort Lögrétta ætti ekki að hafa fleiri verkefni eins og áður hefur verið rætt um í nefndinni, t.a.m. að ákvarða um kosningar og gefa út kjörbréf, fjalla um ráðherraábyrgð og geti í vissum tilvikum skilað bindandi úrlausnum.

3. Önnur mál

Engin önnur mál.

4. Næsti fundur C-nefndar

Ákveðið var að næsti fundur í C-nefnd yrði skv. dagskrá, mánudaginn 9. maí kl. 10.00, en til hans yrði boðað með tilkynningu.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17.30.