3. fundur B-nefndar

03.05.2011 10:00

Dagskrá:

1. Framhald á umræðum frá 2. maí.

2. Önnur mál

Fundargerð

3. fundur B-nefndar haldinn 3. maí 2011, kl. 10.00, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.

Mætt voru: Katrín Fjeldsted, formaður,  Vilhjálmur Þorsteinsson, varaformaður, Pétur Gunnlaugsson, Ástrós Gunnlaugsdóttir, Erlingur Sigurðarson, Þórhildur Þorleifsdóttir, Eiríkur Bergmann Einarsson og Gísli Tryggvason.

Guðbjörg Eva H. Baldursdóttir ritaði fundargerð.

Formaður nefndarinnar, Katrín Fjeldsted, setti fundinn.

Gengið var til dagskrár.

1. Framhald frá umræðum 2. fundar

Vilhjálmur gerði grein fyrir skjalinu „Markmið, leiðir og gildi“ en þar var tekið fram hvaða gildi væru að leiðarljósi fyrir vinnu nefndar B, hvaða markmið nefndin vildi fá fram með endurskoðun á valdhöfunum þremur og undirstöður og að lokum hvaða leiðir væru færar í þeim efnum.

Nefndarmenn ákváðu að fara yfir þær greinar í stjórnarskrá sem fjalla um forsetaembættið og kanna hvaða greinar væru í lagi og hverjum þyrfti að breyta. Þótt endanleg afstaða liggi ekki fyrir gagnvart hlutverki forseta, töldu nefndarmenn gagnlegt að fara yfir núgildandi ákvæði og setja inn athugasemdir þar sem við á.

Eftir framangreinda yfirferð var bent á að lykilspurning varðandi forsetaembættið væri: Viljum við þing eða þjóðkjörna ríkisstjórn? Í framhaldi af því væri önnur lykilspurning: Hvort valdalaus forseti hafi þýðingu fyrir íslenska stjórnskipun? Ef vilji stendur til þess að vera með pólitískan forsætisráðherra kjörinn sérstaklega í íslensku stjórnarskipulagi, þá er óþarft að vera með pólitískan forseta jafnframt. Þessum tveimur spurningum þarf að svara áður en áfram er haldið. Að sama skapi ef val ráðsfulltrúa verður að breyta stjórnskipan innan núverandi þingræðisfyrirkomulags, þurfi að ákveða hvort forseti eigi að hafa einhver efnisleg völd og hve mikil. Frumforsendan væri þó eftir sem áður hvort það væri samhugur í að halda núverandi þingræðiskerfi.

Þá var reifað að mögulega væru ákveðin sameiginleg gildi í samfélaginu sem forseti mætti halda á lofti t.d. menntakerfinu, menningar- og listastarfsemi hvers konar og hinum íslenska menningararfi. Færi vel á að forsetaembættið væri þess eðlis – sérstakur verndari ákveðinna „óefnislegra“ gilda. Í því samhengi var bent á að of mikil áhersla væri lögð á efnisleg gildi í núverandi umræðu og öll umræða hverfist í kringum efnislega þætti. Almenn lífsviska getur haft andleg verðmæti og minnir okkur á að hafa ákveðin gildi að leiðarljósi. Ekki mætti gera lítið úr forseta sem eins konar andlegum leiðtoga og sem menningarforseta ef svo mætti að orði komast. Að vera veislustjóri og sameiningartákn væri að mörgu leyti mikilvægt.

Mikilvægt er að hafa í huga að það að kjósa forsætisráðherra beint útilokar ekki þjóðhöfðingja.
Nefndarmenn ákváðu að ræða eftirfarandi atriði á sameiginlegum nefndarfundi á morgun hinn 4. maí: Hlutverk forseta og forsetaembættið. Meginspurningar séu: Hvert á hlutverk forseta að vera, á að hafa embættið og hvert á að vera inntak þess? Leitast verður við að fá skoðun ráðsfulltrúa á ofangreindum spurningum.

Áríðandi fyrir áframhaldandi vinnu nefndarinnar að niðurstaða náist um embættið.

2. Önnur mál

Á sameiginlegum fundi nefndarmanna verður ákveðið að leggja fram til umræðu hugmyndir nefndarmanna um stöðu og hlutverk forsetaembættisins. Nefndarritara falið að útbúa mynd með aðstoð nefndarmanna.

Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 16.00.