Samanburður á útgáfum: Sveitarfélög

Hér er hægt að bera saman eldri útgáfur af köflum úr áfangaskjali.
Smellið á nafn fundar til að sjá kaflann eins og hann leit út í lok fundar.

Til kynningar

Sveitarfélög

Ummæli:

13. ráðsfundur

14. ráðsfundur

15. ráðsfundur

16. ráðsfundur

Til kynningar

Sveitarfélög

Ummæli:

  1. Sjálfstjórn sveitarfélaga

    Sveitarfélög ráða sjálf málefnum sínum eftir því sem lög ákveða.

    Sveitarfélög skulu hafa nægilega burði og tekjur til að sinna lögbundnum verkefnum.

    Tekjustofnar sveitarfélaga skulu ákveðnir með lögum, svo og réttur þeirra til að ákveða hvort og hvernig þeir eru nýttir.

  2. Nálægðarregla

    Á hendi sveitarfélaga eru þeir þættir opinberrar þjónustu sem best þykir fyrir komið í héraði svo sem nánar skal kveðið á um í lögum.

  3. Kosning sveitarstjórna og íbúalýðræði

    Sveitarfélögum er stjórnað af sveitarstjórnum sem starfa í umboði íbúa og eru kjörnar í almennum, leynilegum kosningum.

    Rétti íbúa sveitarfélags til þess að óska eftir atkvæðagreiðslu um málefni þess skal skipað með lögum.

  4. Samráðsskylda

    Samráð skal haft við sveitarstjórnir og samtök þeirra við undirbúning lagasetningar sem varðar málefni sveitarfélaga.

Skýringar frá nefnd

  1. Lagt er til að ákvæði 78. gr. núgildandi stjórnarskrár standi óbreytt en færist frá mannréttindakafla stjórnarskrárinnar yfir í nýjan kafla um málefni sveitarfélaga, að tillögu stjórnlaganefndar. Ákvæði 1. mgr. hefur verið nánast óbreytt frá árinu 1874 og hefur ágæt sátt ríkt um það. Með ákvæðinu er sveitarfélögum tryggð stjórnarskrárvarin staða í stjórnkerfi ríkisins og verða þau ekki lögð niður nema með stjórnarskrárbreytingu. Ákvæðið kveður á um sjálfstjórn sveitarfélaga án þess að tilgreina nánar í hverju hún felst. Hér er því fyrst og fremst stefnuyfirlýsing stjórnarskrárgjafans um að þau skuli njóta sjálfstjórnar. Ákvæðið tryggir tilvist sveitarfélaga, tryggir þeim ákveðna sjálfstjórn og felur í sér vísbendingu um að þau hafi tiltekin verkefni með höndum.
    Ákvæði 3. mgr. kveður á um tekjustofna sveitarfélaga og kom nýtt inn í stjórnarskrá með stjórnarskipunarlögum nr. 97/1995. Það er talið staðfesta að tekjuöflun sveitarfélaga þurfi að byggjast á heimild í lögum en þeim sé í sjálfsvald sett hvernig þau nýta lögákveðna tekjustofna. Ákvæðið hefur einnig þýðingu um heimildir til að veita sveitarfélögunum ákveðið svigrúm við skattlagningu. Í fyrsta lagi verði skilgreind verkefni sveitarfélaga, þ.e. hvaða málefni þau fara með og þá einnig hver ekki. Áréttað verði sjálfstæði sveitarfélaga um eigin málefni en jafnframt að nánar sé kveðið á um verkefni þeirra og ábyrgð í lögum.
    Í 2. mgr. er ákveðið nýmæli. Lagt er til að tryggt sé að nægilegt fé fari með þeim verkefnum sem löggjafinn ákveður að fela sveitarfélögunum, svo sem fram kemur í tillögum Sambands íslenskra sveitarfélaga.
    Rætt var í nefndinni hvort mæla ætti fyrir um tiltekna skiptingu tekjustofna í stjórnarskránni. Ekki var meirihluti fyrir þeirri tilhögun. Verkefnum sé sinnt af sveitarfélögum eða samtökum þeirra, svo sem byggðarsamlagi, nema þau eigi betur heima hjá ríkinu. Tryggð verði réttarfarsleg úrræði við brot á sjálfstjórnarrétti sveitarfélaga eða öðrum form- eða efnisákvæðum stjórnarskrár.
    Rætt var um að hafa eftirfarandi málsgrein sem hluta af þessari grein: „Ríki og sveitarfélög fara í sameiningu með fjárstjórn hins opinbera eftir því sem nánar er mælt fyrir um í lögum."
  2. Hugmynd nefndarinnar um nálægðarreglu er að hið opinbera sinni einungis þeim verkefnum sem ekki verður sinnt í nærsamfélagi, þannigað hverju máli skuli sinnt á lægsta stjórnsýslustigi sem nær utan um það.
    Ætlað er kveðið á um þessa verkaskiptingu í almennum lögum í heildarlöggjöf.
  3. Tillaga B-nefndar er nánast samhljóða tillögu stjórnlaganefndar að frátöldum fyrri hluta 1. mgr. ákvæðisins. Nefnd B leggur til að áréttað verði að sveitarfélögum sé stjórnað af sveitarstjórnum í umboði íbúa sbr. 1. mgr. Vísun í umboð íbúa á sér hliðstæðu í áréttingu í tillögum B-nefndar um að Alþingi sitji í umboði þjóðarinnar. Þá er jafnframt kveðið á um að sveitarstjórnir skuli kjörnar í almennum leynilegum kosningum. Eðlilegt þykir að kveðið sé á um slík grundvallarréttindi í stjórnarskrá. Nánari fyrirmæli, m.a. um kjörgengi og kosningarétt, yrði kveðið á um í almennum lögum.
    Til umræðu kom hvort kveða ætti á um persónukjör í sveitarstjórnarkosningum, með beinum hætti í stjórnarskrá. Athuga verður hins vegar að lög um alþingiskosningar gilda um kosningar almennt og þar sem lögum nr. 5/1998 um kosningar til sveitarstjórna sleppir.
    Tekin er upp tillaga stjórnlaganefndar um að í lögum skuli ákveða um rétt íbúa sveitarfélags til að óska eftir atkvæðagreiðslu um málefni þess. Þetta opnar á aukið íbúalýðræði, þ.e. áhrif fólks á nærsamfélag sitt, og verður til þess að dreifa valdi. Í 2. mgr. tekur því til réttar íbúa til að óska eftir atkvæðagreiðslu um ákveðin málefni sveitarfélags. Sjálfstjórn sveitarfélaga byggist á þeirri lýðræðishugsun að fólkið í landinu hafi rétt til þess að hafa bein áhrif á sitt nærumhverfi. Sveitarfélög gegna því mikilvægu lýðræðislegu hlutverki. Þau eru það stjórnvald sem er næst fólkinu og geta veitt íbúum tækifæri til aukins samráðs og beinnar þátttöku í ákvörðunum. Ákvæðið eitt og sér felur þó ekki í sér sérstakar skyldur sveitarfélaga, heldur ráðagerð um að slíkar atkvæðagreiðslur skuli haldnar að ákveðnum skilyrðum fullnægðum.
    Ef sett verða lög um atkvæðagreiðslur í sveitarstjórnum er eðlilegt að höfð sé hliðsjón af ákvæðum stjórnarskrár um tilhögun þjóðaratkvæðagreiðslna um lög frá Alþingi.
    Lagt er til að ný grein komi inn í stjórnarskrá er kveði á um kosningu sveitarstjórna og íbúalýðræði.
  4. Með ákvæðinu er lögð skylda á samráð við sveitarstjórnir við undirbúning lagasetningar og samningu frumvarpa sem varða málefni sveitarfélaga beint. Lagaákvæðið hefur það efnislega inntak að ef t.d. ætti að breyta lögum um grunnskóla nr. 91/2008 er skylda á frumstigi að hafa samráð um gerð lagasetningarinnar við sveitarfélög eða samtök t.d. Samband íslenskra sveitarfélaga eða landshlutasamtök, eftir því sem við á.
    Ljóst er að sveitarfélög búa yfir víðtækri þekkingu um þau málefni sem undir þau heyra, sér í lagi þau sem eru lögbundin. Nefnd B telur því mikilvægt að sveitarfélög, sem framkvæmdarvaldshafi er taki umfangsmiklar ákvarðanir er varða almannahag, hafi rétt til að tjá sig um efni löggjafar sem og að hafa þar áhrif.

 

9. ráðsfundur

10. ráðsfundur

11. ráðsfundur

12. ráðsfundur

8. ráðsfundur

7. ráðsfundur

4. ráðsfundur - Núgildandi

Sveitarfélög

Ummæli:

77. gr. [Skattamálum skal skipað með lögum. Ekki má fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann. Enginn skattur verður lagður á nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik urðu sem ráða skattskyldu.]1) 1)L. 97/1995, 15. gr.

78. gr. [Sveitarfélög skulu sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða. Tekjustofnar sveitarfélaga skulu ákveðnir með lögum, svo og réttur þeirra til að ákveða hvort og hvernig þeir eru nýttir.]1) 1)L.97/1995, 16. gr.