24 tillögur kynntar og 7 afgreiddar á 10. ráðsfundi

27.05.2011 14:14

24 tillögur kynntar og 7 afgreiddar á 10. ráðsfundi

Nefndir Stjórnlagaráðs kynntu alls 24 tillögur á 10. ráðsfundi. Að auki voru 7 tillögur um störf Alþingis afgreiddar inn í áfangaskjal.  Allar tillögurnar eru aðgengilegar í áfangaskjali ráðsins og þar er hægt að koma með ábendingar.

A-nefnd Stjórnlagaráðs kynnti 11 tillögur um mannréttindi á fundinum. Þar er m.a. lagt til að náttúruauðlindir Íslands séu sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar sem nýta beri á sjálfbæran hátt til hagsbóta öllum landsmönnum. Að náttúra Íslands sé friðhelg og hverjum og einum beri að virða hana og vernda. Kveðið er á um að haga skuli nýtingu sameiginlegra auðlinda þjóðarinnar þannig að þær skerðist ekki til langframa og að réttur komandi kynslóða sé virtur. Stjórnvöldum beri að upplýsa almenning um ástand umhverfis og áhrif framkvæmda á það. Þá kemur fram grein um að með lögum skuli kveðið á um vernd dýra gegn illri meðferð og dýrategunda gegn útrýmingu. Loks er lögð til ný grein um að öllum skuli tryggður með lögum réttur til heilbrigðisþjónustu sem miði að líkamlegri og andlegri heilsu að hæsta marki sem unnt sé. Ómar Ragnarsson var meðal þeirra sem fagnaði tillögunum sérstaklega og sagði að ef þær yrðu að veruleika yrðu þær kafli í stjórnarskránni sem Stjórnlagaráð yrði hvað stoltast af.


B-nefnd Stjórnlagaráðs kynnti á 10. ráðsfundi 13 greinar til viðbótar um störf Alþingis við þær 16 sem hafa nú þegar verið lagðar fram. Þar er m.a. tillaga um að takmarka setutíma forsætisráðherra við 10 ár. Þá er lagt til nýtt ákvæði um stjórnarmyndun. Samkvæmt henni fer stjórnarmyndun fram innan veggja þingsins með milligöngu forseta Alþingis sem leggur fram tillögu um skipan forsætisráðherra eftir samráð við þingflokka og alþingismenn. Þingið greiðir síðan sjálft atkvæði um tillöguna. Forsætisráðherra skipi í kjölfarið aðra ráðherra og skipti störfum með þeim. Samhliða tillögu um stjórnarmyndun er lagt fram nýtt ákvæði um að leggja megi fram á Alþingi tillögu um vantraust á forsætisráðherra eða einstaka ráðherra. Nefndin leggur enn fremur fram til afgreiðslu inn í áfangaskjal tillögur sem kynntar voru á síðasta ráðsfundi um eftirlit Alþingis o.fl. Nefndin hefur þar með lagt fram nánast fullbúinn kafla um hlutverk og stöðu Alþingis, að fjárstjórnarvaldshlutverki þess frátöldu. Þær miða að því að efla og styrkja þingið gagnvart framkvæmdarvaldinu og skýra ábyrgð í stjórnkerfinu.

Stjórnlagaráð afgreiddi sjö greinar inn í áfangaskjal ráðsins um störf Alþingis á fundinum. Þar kemur m.a. fram nýtt ákvæði um að eftirlits- og stjórnskipunarnefnd Alþingis kanni hvers kyns athafnir og ákvarðanir ráðherra eða stjórnsýslu þeirra eftir því sem hún telji efni til. Nefndinni sé skylt að hefja slíka athugun að kröfu þriðjungs þingmanna. Þá kemur fram ný tillaga um að í lögum skuli kveðið á um skyldu þingmanna til að veita upplýsingar um fjárhagslega hagsmuni sína.

 

Fara í fréttalista