Sumir eru jafnari en aðrir

Reynir Harðarson
  • Heimilisfang: Holtsbúð 14, Garðabæ
  • Skráð: 11.06.2011 12:29

Vegna umræðu á 11. fundi ráðsins 3. júní sl. um tillögur A-nefndar um trúmál og „Þjóðkirkjuákvæðið“ vænti ég svipaðrar umræðu um „karlaákvæði“:

Allir menn eru jafnir en karlar eru sterkara kynið hér á landi og skulu stjórnvöld að því leyti styðja þá og vernda.

Við þurfum að horfa til sögu okkar og menningar og megum ekki fara of skart í eitthvert jafnræðistal vegna pólitísks rétttrúnaðar. Á bara að valta yfir karla og láta undan þeim sem ofsækja þá? Nei, það þarf að taka fullt tillit til karla og sýna þeim umburðarlyndi, skilning og sögulega meðvitund uns þroskuð umræða hefur átt sér stað um þetta hitamál.

Engum dylst að karlar hafa haft gríðarleg áhrif á sögu okkar og menningu, sem verður ekki skilin nema menn geri sér glögga grein fyrir áhrifum þeirra. Nægir þar að nefna orð og orðatiltæki sem hverju mannsbarni er nauðsyn að skilja eins og karlmennska og að vera karl í krapinu.

Nú hafa hins vegar risið upp öfgahópar sem vilja sópa þessari sögu okkar og menningu undir teppi og ráðast á karla með hatrömmum málflutningi, að því er virðist með hatrið eitt að leiðarljósi. Við megum ekki láta slíkar ofstækiskonur níða niður allt sem okkur er kærast, jafnvel þótt þær séu auðvitað líka menn. En menn verða að kunna sér hófs. Auðvitað eru til ágætar konur og sjálfsagt að réttur þeirra sé tryggður með viðunandi hætti. Hér er enginn að mælast til þess að þær megi ekki stunda sína saumaklúbba.

Við þurfum að fara varlega og kollsteypa ekki þjóðfélaginu. Og þótt konur öðlist aukin réttindi megum við aldrei gleyma hver við erum og ættum ekki að skammast okkar fyrir að viðurkenna það. Það hafa alltaf verið karlar sem hafa verið í fararbroddi hér á landi, allt frá landnámi. Þeir hafa markað og mótað sögu okkar og hefðir. Eða hvernig á að segja Íslandssöguna ef ekki má minnast á Ingólf Arnarson, Þorgeir Ljósvetningagoða, Snorra Sturluson, Jón Arason, Skúla Magnússon eða sjálfan Davíð Oddsson? Það sjá allir hversu fáránleg sú staða væri.

Karlar hafa alltaf tekið ákvarðanir fyrir alla þjóðina, líka fyrir konur. Konur hafa notið góðs af þeirra verkum og margir karlar hafa hreinlega gert hluti fyrir konur, án tillits til kynferðis þeirra. Vegna sögu sinnar og óumdeilanlegrar réttlætisvitundar karla þurfa konur ekki að hafa neinar áhyggjur þótt svo verði enn um hríð.

-------------
Vilji menn ekki viðurkenna og tryggja stöðu karla með beinum hætti í stjórnarskránni sting ég upp á eftirfarandi möguleikum til málamynda:

1. Þjóðin fái að kjósa um hvort ákvæðið standi í stjórnarskrá.

2. Í stjórnarskrá standi: Setja má lög um sérstöðu karla á Íslandi og skulu stjórnvöld að því leyti styðja þá og vernda.

3. Í stjórnarskrá standi: Setja má lög um yfirburðastöðu karla á Íslandi.

4. Í stjórnarskrá standi: Setja má lög um kynjaskipan á Íslandi.

----------
Ég vísa í rökstuðning ráðsmanna á 11. fundi máli mínu til stuðnings og vona að örlög „karlaákvæðisins“ verði þau sömu og örlög „Þjóðkirkjuákvæðisins“ í meðförum ráðsins.

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.