Lausaganga búfjár, vörsluskylda

Guðfinna Guðnadóttir
  • Heimilisfang: Steindórsstaðir í Reykholtsdal
  • Skráð: 02.05.2011 15:16

Til Stjórnlagaráðs.

Frá ábúendum og eigendum Steindórsstaða í Reykholtsdal.

Efni: Stuðningur við þau sjónarmið, er Þorvaldur Gylfason viðraði í Fréttablaðsgrein í vikunni.

Undirritaðir bændur á Steindórsstöðum í Reykholtsdal lýsa fullum stuðningi við málflutning Þorvalds Gylfasonar, eins og hann birtist í Fréttablaðinu þann 27. apríl síðastliðinn og varðaði lausagöngu búfjár. Löngu er orðið tímabært að breyta lögum og koma á vörsluskyldu alls búfjár eins og gerist í þeim löndum, sem við viljum bera okkur saman við.

Á Steindórsstöðum er rekið kúabú, en auk þess höfum við liðlega 60 ær á fóðrum, sem er rúmlega til heimilisnota. Til Steindórsstaða heyra alls um 3.000 ha lands og er mest af því í innan við 350 m hæð yfir sjó.

Á haustin smölum við eigin fé nokkru fyrir skyldusmalanir og setjum innan girðingar. Í fyrstu skyldusmölun þurfum við 11 manns í vinnu og fæði til smölunar heimalandsins. Talið er, að u.þ.b. 1000 aðkomufjár gangi sumarlangt á landi okkar. Auk þess þurfum við að greiða niður kostnað þeirra sauðfjárbænda, sem nýta Arnarvatnsheiðina, við smölun heiðarinnar (kr. 50.000). Heiðin er sameign allra jarða í Reykholtsdal og Hálsasveit, en aðeins örfáir bændur reka á heiðina. Væri ekki nær, að þeir sem nýta þessa sameign, greiddu hinum eigendum heiðarinnar afnotagjald?

Er eðlilegt, að sveitarstjórn geti skikkað bændur til að greiða niður kostnað landlítilla sauðfjárbænda við óheimila nýtingu heimalanda annarra bænda og landeigenda? Tekið skal fram, að það er aðeins lítill minnihluti sauðfjárbænda, sem hefur ekki nóg land fyrir fé sitt. Þeim hinum sömu er skylt að reka fé sitt á afrétt, þegar sauðgróður er kominn þar. Öðrum kosti að halda fé sínu innan girðinga heima við. Þessum ákvæðum fjallskilareglugerðar til réttindabóta þeim sem vilja stunda annan rekstur en sauðfjárhald á landi sínu er ekki framfylgt. Er það ekki einsdæmi, að hluti þegnanna sé skuldbundinn til að greiða niður kostnað af atvinnurekstri annarra? Slíkt getur vissulega gerst með almennum hætti gegnum skattakerfið. En sá háttur sem hafður er á við sauðfjárhald (sumra bænda) er með þeim hætti, að ef þéttbýlisbúar vissu hvers kyns er, hlytu þeir að vilja stuðla að breytingum í réttlætisátt. Hvað þætti Reykvíkingi um það, ef nágranni hans laumaðist til að setja niður kartöflur í blómabeð hans? Síðan væri eiganda blómabeðsins bannað að uppræta kartöflurnar, þótt þær gjörbreyttu ásýnd og eðli blómabeðsins. Að hausti bæri eiganda blómabeðsins skylda til að taka kartöflurnar upp, færa nágrannanum uppskeruna og greiða honum ákveðið gjald vegna þeirrar vinnu, sem fólst í niðursetningu kartaflnanna! Hliðstæð eru þau kjör, sem flestum bændum í landinu bjóðast af hálfu löggjafans, stjórnsýslu og sveitarstjórna, að ógleymdum þeim sauðfjárbændum, sem nýta sér það óréttlæti sem stjórnvöld kjósa að viðhalda.

Þess skal að lokum getið, að fjöldi bænda hér í sveit eru sama sinnis og undirrituð, sennilega góður meirihluti þeirra. Ekki gengur lengur, að setja alla bændur undir einn hatt. Þeir sem beita fé sínu grimmt á lönd granna sinna eru aðeins lítill minnihluti bænda. Kominn er tími til þess, að löggjafinn breyti leikreglum í réttlætisátt. Þar sem ekki virðist hægt að treysta Alþingi í þeim efnum, er ekki aðeins fullkomlega eðlilegt, heldur afar brýnt, að Stjórnlagaráð geri tillögu um, að vörsluskylda alls búfjár verði hin almenna regla í landinu. Slíkt væri og í anda annarra stjórnarskrárákvæða, svo sem um virðingu fyrir eignarréttinum og um atvinnufrelsi (frelsi, sem hlýtur að vera háð takmörkunum, sbr. virðingu fyrir eignum annarra og atvinnu annarra).

Með vinsemd og virðingu, Steindórsstöðum 30. apríl 2011,

Guðfinna Guðnadóttir, Þórarinn Skúlason

 

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.